Bogi Þór Arason
bogi@mbl.is
Þýskur lögfræðingur, sem ræddi við bandaríska uppljóstrarann Edward Snowden, segir hann tilbúinn til að bera vitni fyrir Bandaríkjaþingi eða bandarískri þingnefnd til að varpa ljósi á „mögulega alvarleg lögbrot“ í tengslum við njósnastarfsemi bandarískra öryggisstofnana.
„Mér fannst Snowden ekki líta út fyrir að vera andbandarískur eða óvinur Bandaríkjanna,“ sagði Hans-Christian Ströbele, einn þingmanna Græningja í Þýskalandi, eftir að hann ræddi við Snowden í Rússlandi ásamt tveimur blaðamönnum. „Hann hefur alltaf lagt áherslu á það, líka þegar ég spurði hann hvort hann vildi veita þýska þinginu upplýsingar ... að fyrst vildi hann leggja staðreyndir málsins fyrir Bandaríkjaþing, fyrir bandaríska þingnefnd,“ hafði fréttaveitan AFP eftir Ströbele. „Hann telur að hlutverk sitt í Bandaríkjunum sé ekki aðeins að varpa ljósi á óæskilega þróun heldur einnig mögulega alvarleg lögbrot og segist geta það, vera í aðstöðu til þess.“
Bandarísk yfirvöld ógiltu vegabréf Snowdens eftir að hann flúði frá Bandaríkjunum og hafa krafist þess að hann verði framseldur til að hægt verði að sækja hann til saka í Bandaríkjunum fyrir að leka leyniskjölum um njósnastarfsemi Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA). Snowden fékk tímabundið hæli í Rússlandi í ágúst en dvalarleyfi hans þar rennur út í júní á næsta ári.
Þýska ríkisstjórnin hefur sagt að hún vilji ræða við Snowden um njósnastarfsemi öryggisstofnunarinnar eftir að skýrt var frá því að hún hefði meðal annars hlerað farsíma Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Haft var eftir rússneskum lögmanni Snowdens, Anatolí Kútsjerena, að uppljóstrarinn vildi svara spurningum þýskra yfirvalda í Rússlandi en gæti ekki farið til Þýskalands. „Ef hann gerir það getur hann misst tímabundna hælið,“ sagði lögmaðurinn í útvarpsviðtali.
Ströbele hafði þó eftir Snowden að hann léði máls á því að fara til Þýskalands ef stjórnin þar ábyrgðist að hann yrði ekki framseldur til Bandaríkjanna. Ekki er ljóst hvort þýska stjórnin getur ábyrgst það, að því er fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins.
Notaði áströlsk sendiráð
Uppljóstranir Snowdens hafa valdið miklum titringi víða um heim, meðal annars í Asíuríkjum vegna frétta um að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna hefði fengið að nota áströlsk sendiráð til að hlera síma. Dagblaðið Sydney Morning Herald sagði að stofnunin hefði haft um 90 hlerunar- og njósnastöðvar í sendiráðum víða um heim, m.a. í áströlskum sendiráðum í Asíuríkjum. Kína, Indónesía og fleiri ríki hafa krafið stjórn Ástralíu skýringa.John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur viðurkennt að þjóðaröryggisstofnunin hafi í „sumum tilvikum“ gengið of langt í njósnastarfsemi sinni, án þess að útskýra hvaða tilvik hann á við. „Ég fullvissa ykkur um að það hefur ekki verið brotið gegn saklausu fólki í þessu ferli, en það snýst um að reyna að afla upplýsinga. Og jú, í sumum tilvikum hefur hún gengið of langt með óviðeigandi hætti,“ sagði Kerry.
Hann varði þó njósnastarfsemina almennt og lagði áherslu á að hún væri nauðsynleg í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi.
- „Í sumum tilvikum hefur hún gengið of langt með óviðeigandi hætti“ John Kerry