Reykjarkóf Eldur og reykur magnaðist aftur þegar komið var með Fernöndu í Hafnarfjarðarhöfn. Því var brugðið á það ráð að draga skipið aftur út á sjó.
Reykjarkóf Eldur og reykur magnaðist aftur þegar komið var með Fernöndu í Hafnarfjarðarhöfn. Því var brugðið á það ráð að draga skipið aftur út á sjó. — Morgunblaðið/Júlíus
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rúnar Pálmason Kjartan Kjartansson Ekki liggur enn fyrir hvernig eldur kviknaði um borð í flutningaskipinu Fernöndu á miðvikudag.

Rúnar Pálmason

Kjartan Kjartansson

Ekki liggur enn fyrir hvernig eldur kviknaði um borð í flutningaskipinu Fernöndu á miðvikudag. Að sögn Jóns Arilíusar Ingólfssonar, rannsóknarstjóra hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa, var vélstjóri skipsins á ferð þar sem eldurinn kviknaði tíu mínútum áður en viðvörunarbjöllur hófu að klingja og virtist þá allt með felldu.

Rannsóknaraðili frá Írlandi er kominn til landsins að sögn Jóns og ber hann ábyrgð á rannsókn eldsvoðans. Rannsóknarnefnd samgönguslysa muni aðstoða við hana verði óskað eftir því.

Reyk lagði yfir bæinn

Enn brann eldur um borð í Fernöndu, sem er 32 ára gamalt, 2.000 brúttótonna og 75 metra langt frystiskip, þegar Morgunblaðið fór í prentun í gær. Þór var þá að draga það norðvestur á Jökuldýpi, um 40 sjómílur suður af Malarrifi. Þar átti að bíða og sjá til hvernig eldurinn um borð þróaðist að sögn Ásgríms Ásgrímssonar, framkvæmdastjóra aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar.

Skipið hafði fyrst verið dregið til Hafnarfjarðar en á fimmtudag hafði virst sem eldurinn hefði slökknað og lítill reykur barst frá skipinu, að sögn Ásgríms. Það var óbreytt þegar skipið kom að bryggju í Hafnarfirði um klukkan níu í gærmorgun. „Eftir að slökkvistörf hófust magnaðist reykurinn og að því kom að slökkviliðsmenn á vettvangi töldu ekki lengur óhætt að fást við verkefnið,“ segir Ásgrímur. Reyk frá skipinu lagði yfir hluta Hafnarfjarðar og voru íbúar m.a. hvattir til að loka gluggum og kynda hús sín og börnum á leikskólum skyldi haldið innandyra. Þetta ástand varði þó ekki lengi því byrjað var að draga skipið frá bryggju um klukkan tólf.

Ekki var haldið áfram að sprauta sjó á skipið. „Það er álitamál hvort það borgi sig, það gæti orðið til þess að það kæmi slagsíða á skipið,“ segir Ágrímur. Einnig sé hugsanlegt að eitthvað í skipinu gefi sig vegna eldsins og það sökkvi þá.

Sex slökkviliðsmenn frá höfuðborgarsvæðinu fóru með Þór í gær en Ásgrímur segir þó ljóst að aðstæður til slökkvistarfs séu augljóslega miklu erfiðari úti á hafi.

Besta aðkoman í Hafnarfirði

Hafnarfjörður er skilgreindur sem neyðarhöfn en það eru Vestmannaeyjar og Helguvík einnig en Fernanda var dregin fram hjá þessum höfnum. Farið var með Fernöndu til Hafnarfjarðar þar sem aðkoman þangað var best og gott fyrir slökkvilið að athafna sig þar. Helguvík hafi ekki hentað, m.a. vegna þess að þaðan sé stutt í olíubirgðastöð.

Það er vel þekkt að eldur getur blossað upp í skipum þegar reynt er að slökkva hann. Ólafur J. Briem, framkvæmdastjóri siglingasviðs Samgöngustofu, bendir á að það hafi takmörkuð áhrif að sprauta sjó á brennandi skip. Ekki sé víst að sjórinn komist að upptökum eldsins en með þessu móti sé þó hægt að kæla brennandi skip og draga úr eldinum. En jafnvel þótt það takist að slökkva eld getur mikill hiti enn leynst í skipinu. Þegar hólf í skipinu séu opnuð og súrefni komist aftur inn, geti eldurinn blossað upp á nýjan leik.

Eldsvoði í skipum er ein mesta ógn sem steðjar að sjófarendum.

Ólafur bendir á að um eldvarnir í skipum í alþjóðlegum siglingum gildi svokallaðar Solas-reglur en þær kveði m.a. á um að skip séu hólfuð niður í brunahólf og að um borð sé búnaður til að slökkva eld. Komi upp eldur eigi að fyrst að loka brunahólfum til að tryggja að eldurinn breiðist ekki frekar út og síðan slökkva eldinn. „Það vekur athygli okkar að hvorugt virðist hafa gerst. Bæði virðist sem eldurinn hafi komist lengra en hann ætti að hafa komist, ef allt hefði verið með felldu. Og líka að það virðast ekki hafa verið tök á að slökkva eldinn með þeim ráðstöfunum sem hefðu átt að vera tiltækar,“ segir hann. Þess í stað virðist sem tiltölulega stuttur tími hafi liðið frá því eldurinn kviknaði í vélarrúmi, eins og komið hafi fram í fréttum, og þar til hann komst í brú skipsins. „Það hefur eitthvað brugðist. Þetta ætti ekki að gerast ef allt hefði verið með felldu,“ segir hann.

Þá sé gert ráð fyrir að í vélarrúmi skipa eigi að vera slökkvikerfi, takist ekki að loka öllum loftrásum sem liggja þangað inn. Að sögn Jóns Arilíusar segir skipstjóri Fernöndu að rýmum hafi verið lokað og kolsýrukerfi um borð notað.

Unnið eftir tillögum

Í skýrslu um neyðarhafnir og afdrep fyrir skip frá árinu 2008 er lagt til að sex hafnir á Íslandi verði skilgreindar sem neyðarhafnir. Um er að ræða hafnirnar í Hafnarfirði, Helguvík, Ísafirði, Akureyri, Reyðarfirði og Vestmannaeyjum. Einnig eru skilgreind fimm skipaafdrep.

Samkvæmt hafnalögum er höfn sem telst neyðarhöfn skylt að taka á móti skipum í sjávarháska eftir því sem nánar er kveðið á um í áætlun sem Siglingastofnun eigi að gera í samráði við viðkomandi höfn. Ráðherra geti sett nánari ákvæði um áætlunina og neyðarhafnir í reglugerð.

Hermann Guðjónsson, forstjóri Samgöngustofu, segir að sátt hafi verið um tillögur skýrslunnar, þótt þær hafi ekki formlega tekið gildi, og unnið hafi verið eftir þeim.