Bókbindarinn Einar Egilsson með nýjustu Morgunblaðsbókina við gyllingarvélina í bílskúrnum.
Bókbindarinn Einar Egilsson með nýjustu Morgunblaðsbókina við gyllingarvélina í bílskúrnum. — Morgunblaðið/RAX
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

„Þetta er mikil nákvæmnisvinna,“ segir Einar Ingvar Egilsson bókbindari, sem hefur unnið við bókband í áratugi og meðal annars bundið inn Morgunblaðið með eiginkonunni Höllu Svanþórsdóttur í bílskúrnum heima um árabil.

Morgunblaðið er 100 ára í dag og blaðið er allt til innbundið í höfuðstöðvunum við Hádegismóa. Þegar Einar byrjaði að binda inn blaðið breytti hann merkingunum á bókunum og hafa þær verið merktar með gylltu letri síðan. „Það er skemmtilegra þannig,“ segir hann. „Meiri stíll yfir því.“

Mogginn fastur liður

Morgunblaðið hefur verið ríkur þáttur í lífi Einars. „Pabbi var alltaf áskrifandi frá því að ég man eftir mér og ég ólst upp við Moggann, þegar ég bjó með foreldrum mínum. Þegar við Halla giftum okkur og byrjuðum að búa í Hamrahlíðinni var ég búinn að panta blaðið. Halla furðaði sig á því að þegar við vöknuðum þar fyrsta morguninn var Mogginn kominn á hurðarhúninn. Ég átti hins vegar von á honum enda orðinn áskrifandi. Og Mogginn hefur fylgt okkur síðan.“

Einar bætir við að hann hafi verið sem grár köttur í húsakynnum Morgunblaðsins í Aðalstræti upp úr 1960 og síðar í Kringlunni, kynnst mörgum starfsmönnum og haldið góðu sambandi enda samskiptin mikil og góð. „Það var mjög hraust lið þarna og mikið rætt um pólitíkina. Við Haraldur Sveinsson, þáverandi framkvæmdastjóri Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, vorum með hesta í Víðidal og riðum oft saman út. Þá var mikið líf í hestamennskunni.“

Félagsbókbandið Bókfell var mjög umfangsmikið fyrirtæki í bókbandi undir stjórn Einars. „Þó ég væri forstjórinn bundum við Halla alltaf inn Morgunblaðið enda var þetta ekki mikið verk, handband tvisvar á ári. Það hefur ekki breyst. Þetta hefur alla tíð verið mjög skemmtileg vinna og sérstaklega eftir að ég hætti að vinna í föstu starfi.“

Einar bindur inn hálft ár af Morgunblaðinu í einu, 12 bækur, en þess á milli dundar hann við það sem heillar hugann hverju sinni. „Ég bind inn 24 Morgunblaðsbækur á ári en vinn ekki við bókband á hverjum degi heldur gríp í það þegar ég rekst á merkilegar bækur á fornsölum, bækur sem þarf að lappa upp á. Ég geri þetta nú bara fyrir sjálfan mig enda hægt að gera listaverk í handbandi. Það er hægt að gera mjög fallega hluti.“

Átti stærsta fyrirtækið

Einar Egilsson lauk sveinsprófi í bókbandi 1963. Hann vann við bókband í Gutenberg frá 1959, lengst af sem verkstjóri. Keypti Félagsbókbandið ásamt Leifi Gunnarssyni 1975 og Bókfell 1988, sameinaði fyrirtækin og rak undir nafninu Félagsbókbandið Bókfell til 2003, þegar hann seldi Prentmeti fyrirtækið.

„Félagsbókbandið og Bókfell voru stærstu sjálfstæðu bókbandsfyrirtækin,“ segir hann og bætir við að þegar hann seldi Prentmeti fyrirtækið hafi hann haldið eftir verkfærunum, sem notuð eru við handband og haldið áfram að binda inn Morgunblaðið heima í bílskúrnum.

Einar var gjaldkeri Bókbindarafélags Íslands 1971-1975, sat í stjórn Samtaka prentiðnaðarins 1976-1990 og hefur setið í samninganefndum fyrir bæði félögin.