Óli Björn Kárason lýsir því þegar óreyndur blaðamaður með takmarkaða þekkingu á málefninu lærði hvernig ekki á að afla fréttar og skrifa hana.
Óli Björn Kárason lýsir því þegar óreyndur blaðamaður með takmarkaða þekkingu á málefninu lærði hvernig ekki á að afla fréttar og skrifa hana. — Morgunblaðið/RAX
Ég hafði ekki verið margar vikur á Mogganum þegar Styrmir Gunnarsson ritstjóri kallaði á mig inn á skrifstofu. Þetta var rétt eftir kvöldmat. Meginlínur fyrir blað morgundagsins lágu fyrir en nú skyldi þeim breytt.

Ég hafði ekki verið margar vikur á Mogganum þegar Styrmir Gunnarsson ritstjóri kallaði á mig inn á skrifstofu. Þetta var rétt eftir kvöldmat. Meginlínur fyrir blað morgundagsins lágu fyrir en nú skyldi þeim breytt. Jan Mayen skyldi verða burðarfrétt á baksíðu – þar sem stærstu innlendu fréttunum var slegið upp.

„Þú átt að ræða við Eykon um þetta Jan Mayen-mál,“ sagði Styrmir og bætti við að ég yrði einnig að ræða við Geir Hallgrímsson utanríkisráðherra. Eyjólfur Konráð Jónsson – Eykon – var formaður utanríkisnefndar Alþingis.

Sumar fréttir er erfiðara að skrifa en aðrar. Ekki vegna þess að þær séu flóknari en aðrar heldur vegna þess að blaðamaðurinn hefur takmarkaða þekkingu á málefninu og er auk þess reynslulítill. Þannig var staðan hjá mér.

„Ekki vandamál,“ hugsaði ég enda þess fullviss að Eykon myndi skýra þetta vel út fyrir mér. Hann var gamall fjölskylduvinur. Ég hringdi í Eykon og sagði honum strax að ég yrði að fá útskýringar á málinu og fá síðan „komment“ frá honum í fréttina. Það tók hann langan tíma þar sem hann þvældi mér í gegnum söguna, en Eykon hafði í mörg ár barist fyrir rétti Íslendinga á Jan Mayen-svæðinu og lengi vel fyrir daufum eyrum. Í þessum efnum eins og mörgum öðrum var hann á undan sinni samtíð.

Eins og oft áður var Eykon óðamála og mikið niðri fyrir. Loksins tókst að skýra út fyrir þekkingarlitlum blaðamanni um hvað „þetta Jan Mayen-mál“ snerist; gagnkvæmt samkomulag Norðmanna og Dana um loðnuveiði á Jan Mayen-svæðinu og innan lögsögu Grænlands. Íslensk stjórnvöld töldu þetta brot á Jan Mayen-samkomulaginu milli Íslendinga og Norðmanna frá 1980.

„Þetta er mjög viðkvæmt mál. Þú talar síðan við Geir,“ sagði Eykon. Þetta var ekki spurning. Ég játti og lofaði að hringja aftur til að lesa fréttina yfir fyrir hann. Að venju tók Geir mér af ljúfmennsku. Hann hafði átt von á símtali. Geir var þó efins um að rétt væri að utanríkisráðherra léti hafa nokkuð eftir sér að þessu sinni. Sagði mér að ræða við Ólaf Egilsson, sem þá var skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu. Þetta gerði ég.

Eftir að hafa skrifað fréttina og deadline færðist nær hringdi ég aftur í Eykon. Nokkrar athugasemdir. „Þú hringir í Geir og lest þetta yfir fyrir hann og lætur mig vita,“ sagði Eykon. „Þú lest þetta yfir fyrir Ólaf,“ sagði Geir við mig. Ólafur gerði sínar athugasemdir. Aftur fór ég hringinn. Eykon, Geir, Ólafur. Alltaf einhverjar breytingar, alltaf einhverjar athugasemdir. Um miðnætti var ég í þriðju eða fjórðu umferð en lendingin ekki í sjónmáli. Deadline löngu liðið og allir biðu. Prófarkalesarar biðu, umbrotið beið, prentararnir biðu. En ákvörðunin stóð. Fréttin skyldi birtast á baksíðu á morgun.

Um klukkan eitt um nóttina náði ég loks samkomulagi við Eykon og Geir. Ég fékk leyfi til að leggja lokahönd á fréttina, fara yfir hana með Ólafi Egilssyni, sem þeir báru fullkomið traust til, og senda hana síðan inn. Hálftíma síðar stóð ég í umbrotinu þar sem spaltinn var límdur upp á síðuna.

Þannig lærði ég tvennt. Annars vegar hvernig ekki á að standa að því að afla og skrifa frétt og hins vegar að deadline er (var) afskaplega teygjanlegt hugtak á Morgunblaðinu.