[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rúnar Pálmason runarp@mbl.

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Jónas Egilsson, formaður Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ), segir að kostnaður við nýjan frjálsíþróttavöll í Laugardal yrði væntanlega um 500 milljónir króna en ekki vel á annan milljarð líkt og kom fram í viðtali við Evu Einarsdóttur, formann íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur, í Morgunblaðinu í gær.

Gerð vallarins muni kosta alls 250-300 milljónir og reikna megi með að stúka fyrir 1.500 manns, auk aðstöðu fyrir blaðamenn, tímatöku, dómara og annað slíkt, myndi kosta um 200-250 milljónir.

Jónas bendir á að frjálsíþróttavöllurinn á Selfossi sem er með sex hlaupabrautum hafi kostað um 200 milljónir. Á nýjum velli í Laugardal yrðu átta brautir og völlurinn þar með heldur dýrari.

Almenningur fái aðgang

Auk átta hlaupabrauta yrði á nýjum frjálsíþróttavelli m.a. kastbúr fyrir sleggju- og kringlukast og atrennubrautir fyrir langstökk og stangarstökk. Hægt yrði að keppa þar í öllum greinum frjálsra íþrótta.

Jónas segir að nýjan frjálsíþróttavöll væri hægt að nýta miklu betur undir frjálsar íþróttir en Laugardalsvöll, enda nyti knattspyrnan forgangs á vellinum og hann aðeins opinn fyrir frjálsíþróttamenn í fjóra tíma á dag, og aðeins að sumri. Hægt yrði að bjóða almenningi, hlaupahópum og skólahópum að æfa á nýja vellinum en þessir hópar hafi í dag nánast engan aðgang að Laugardalsvelli.

Frjálsíþróttamenn geta æft innanhúss í nýju íþróttahöllinni við hlið Laugardalshallar en Jónas segir að frjálsíþróttaæfingar hafi fyrir löngu sprengt húsið utan af sér. Skortur á æfingaaðstöðu standi íþróttinni fyrir þrifum.

Frjálsíþróttasambandið og Frjálsíþróttaráð Reykjavíkur hafa lýst því yfir að þeim hugnist best að nýr völlur – og þar með nýr þjóðarleikvangur í frjálsum íþróttum – yrði austur af Laugardalshöll, þar sem Þróttur er nú með æfingavöll. Stúkan myndi rísa við Suðurlandsbraut og vísa í norðaustur.

Í viðtali við Morgunblaðið í gær sagði Eva Einarsdóttir að ekki væri útilokað að nýr völlur yrði lagður annars staðar en í Laugardal.

Jónas sagði vilja frjálsíþróttahreyfingarinnar í þessum efnum alveg skýran, nýr völlur væri best staðsettur í Laugardag, m.a. vegna þess að með þeim hætti væri hægt að samnýta önnur íþróttamannvirki sem þar eru. Þetta viðhorf breyti engu um að hreyfingin teldi mikla þörf á að byggja upp æfingaaðstöðu fyrir frjálsar íþróttir í öðrum hverfum borgarinnar. Mikil eftirspurn væri eftir æfingum í frjálsum íþróttum fyrir börn og ungmenni víða um borgina en því miður hefðu fæst íþróttafélög aðstöðu til að bjóða upp á þær.

Þótt nýr frjálsíþróttavöllur myndi kosta 500 milljónir en ekki á annan milljarð, er ljóst að þeir peningar liggja ekki á lausu, a.m.k. ekki í bili. Jónas segir að því miður geti frjálsar íþróttir ekki sótt fjármagn í erlenda sjóði, líkt og knattspyrnuhreyfingin geti gert. Raunar sé staða knattspyrnunnar einstök, engin önnur íþróttagrein sé í þessari stöðu. Frjálsíþróttahreyfingin sé reiðubúin til að vinna að hagkvæmri lausn fyrir Smáþjóðaleikana í Reykjavík 2015 en aðstæður verði að uppfylla alþjóðlegar kröfur. Óljóst sé hvort Laugardalsvöllur geri það nú.

Gerviefnið næstum ónýtt

Dýrasti hlutinn við nýja völlinn er gerviefnið sem lagt yrði á hlaupabrautir og kastsvæði, en það myndi kosta alls um 150 milljónir, að sögn Jónasar.

„En við skulum halda því til haga að gerviefnið á Laugardalsvelli er því sem næst ónýtt enda er þetta yfir 20 ára gamalt efni,“ segir hann. Áætlaður endingartími slíks efnis sé um 15-18 ár og ljóst að því verði ekki haldið við í viðunandi ástandi nema í örfá ár til viðbótar. Það liggi því fyrir að kaupa þurfi nýtt gerviefni, hvort sem nýr völlur verður lagður eða ekki.

Í bráðabirgðamati á þörf og viðhaldi og lagfæringum á Laugardalsvelli frá því í apríl 2013 kemur fram að gerviefnið á vellinum hafi ekki verið þrifið í mörg ár a.m.k. og að ryk og aska hafi sest í það. Þetta hafi skert fjöðrunareiginleika efnisins verulega. Undir venjulegum kringumstæðum sé fjöðrunin 30% en hún sé komin undir 20%, sem ekki sé ásættanlegt.