Ólafur K. Magnússon var mikill blaðamaður,“ skrifaði Matthías Johannessen ritstjóri í nóvember árið 1997, í minningarorðum um höfuðljósmyndara blaðsins í hálfa öld. Hann sagði Ólaf hafa verið einn af máttarstólpum Morgunblaðsins; einstakan fréttaljósmyndara. „Sumar myndir hans einnig listilega teknar, en umfram allt fréttamyndir. Verða ekki teknar aftur á hverju sem gengur. Þær lýsa því sem var að gerast og Ólafur var alltaf á réttum stað á réttum tíma.“
Ólafur K. (1926-1997) var fyrstur Íslendinga til að læra fréttaljósmyndun og gera hana að ævistarfi. Óhætt er að kalla hann föður íslenskrar blaðaljósmyndunar. Hann hélt árið 1944 til New York og nam þar ljósmyndun í eitt ár. Að því búnu lá leiðin til Hollywood þar sem hann nam kvikmyndun hjá Paramount Pictures. Það var Morgunblaðinu og lesendum þess mikið gæfuspor þegar Ólafur réðst eftir heimkomuna að blaðinu árið 1947. Hann var þá eini fastráðni ljósmyndari ritstjórnarinnar og sinnti þessu annasama starfi í 49 ár, eða þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 1996, 49 árum síðar. Á þessum langa tíma Ólafs hjá blaðinu tók útgáfa þess gríðarmiklum breytingum og starfsfólki fjölgaði, einnig á ljósmyndadeild þess. Þar var Ólafur ungum lærisveinum mikilvæg og merk fyrirmynd; einstakur fréttaljósmyndari og skrásetjari íslensks mannlífs. Það var ekki að ástæðulausu að hann var iðulega kallaður „ljósmyndari þjóðarinnar“.
Afar merkilegt myndasafn Ólafs er varðveitt á Morgunblaðinu og er það óviðjafnanleg heimild um viðburði og íslenskt þjóðlíf á seinni hluta tuttugustu aldar. Ólafur var, eins og fréttaljósmyndurum ber, ætíð meðvitaður um að hann var í senn að skrásetja viðburði fyrir lesendur morgundagsins og að skrá Íslandssöguna. Og hann bjó yfir hæfileikum sem gera myndasafn hans einstakt; frábæru auga og skilningi á aðalatriðum þess sem var að eiga sér stað.
Ólafur sinnti allrahanda ljósmyndun á sínum langa ferli á blaðinu, en ekki er síst merkileg skrásetning hans á þeim sviðum sem hann var áhugasamastur um en það voru stjórnmálalífið, menningin og flugsagan.
Ragnar Axelsson, Rax, var einn lærisveina Ólafs. „Hann er einn mesti fréttamaður sem þessi þjóð hefur átt,“ segir hann.