[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Merkingarsvið orða breytist milli tungumála. Mér varð hugsað til þess um síðustu helgi þegar fyrstu fréttir bárust um storm á Bretlandseyjum. Þarna varð það sem kallað er merkingarvíkkun eða -færsla , þ.e.

Merkingarsvið orða breytist milli tungumála. Mér varð hugsað til þess um síðustu helgi þegar fyrstu fréttir bárust um storm á Bretlandseyjum. Þarna varð það sem kallað er merkingarvíkkun eða -færsla , þ.e. merking enska orðsins storm var yfirfærð á sambærilegt íslenskt orð, stormur , þegar eðlilegra hefði verið að tala um aftaka- eða óveður . Íslenska orðið stormur er notað um sterkan vind en ekki allsherjaróveður, hvort sem er hráslaga og hvassa útsynningsstorma með kafaldséli eða slagveðursrigningu – sem getur allt kallast storm á ensku.

Merkingarfærsla var algeng meðal Vesturíslendinga sem töluðu sína mállýsku án nýrra máláhrifa frá Íslandi. Þeir skutu dír , og var þá átt við moose deer ( músdír á vesturíslensku) en ekki dýr á íslensku, lifðu ( live á ensku) á Gimli, þ.e. áttu þar heima, og karlar runnu inn í ( ran into á ensku) konur nágranna sinna, sögðu að það hefði verið næs að mæta ( meet á ensku) þeim og að þeir kæmu afturábak (sbr. back á ensku) á morgun. Ekki var óalgengt að menn væru stuttir af ( short of á ensku) peningum og sagnirnar að vanta og hafa voru iðulega notaðar eins og want og have á ensku, „mig vantar að hafa ykkur í kring“ ( I want to have you around ). Þessar breytingar eru allar í grennd við merkingarsvið hinna íslensku orða. Hitt var líka til að orð sem hljóma líkt og íslensk orð fengju allt aðra merkingu, t.d. fara á sjó ( show ), sjúa merina ( shoe , þ.e. járna ), keyra kar ( car , þ.e. bíl ) og gefa konunni sinni kall ( give her a call , þ.e. hringja í hana). Þetta var eðlilegt í hinu tvítyngda vesturíslenska málsamfélagi – og dæmin eru mörg úr skrýtlum sem Vesturíslendingar sögðu um sitt eigið málfar því auðvitað var ýmsum ljóst hvernig enskan kom fram í tungutakinu.

Það er hins vegar ekkert eðlilegt við að merkingarsvið íslenskra orða á Íslandi sé lagað að öðrum tungumálum. Það er ekki uppi nein samræmingarkrafa um það atriði í aðildarviðræðum við Evrópusambandið eins og manni dettur stundum í hug að fólk haldi þegar merkingin hliðrast með ofangreindum hætti. Fréttir berast m.a.s. af því að innan téðs sambands ríki sérstök menningarstefna sem leggi áherslu á að styrkja sérstæð samfélög sem eigi undir högg að sækja í þjóðahafinu, hvort sem er á meginlandinu sjálfu eða á úteyjum Skotlands. Það vill oft gleymast í íslenskri alþjóðavæðingu að allur heimurinn er samsettur úr misstaðbundnum menningareiningum þar sem fólk leggur áherslu á að rækta garðinn sinn, hver hjá sér; „lókal er glóbal“ eins og Benedikt Erlingsson segir. Alþjóðasamfélagið er hvergi til nema í sýndarveruleikanum. Í þeim sýndarveruleika er verðmætt að geta lagt með sér nútímalegt tungumál með nær 1000 ára samfellda ritmálssögu og ástæðulaust að láta útlendan stormbeljanda feykja sér frá borði þegar í boði er ekta íslenskt aftakaveður.

Gísli Sigurðsson gislisi@hi.is

Höf.: Gísli Sigurðsson gislisi@hi.is