Bílasala það sem af er ári hefur verið lakari en vonast var til enda hefur hún verið minni en á sama tímabili í fyrra. Um þetta má lesa í úttekt í viðskiptablaði Morgunblaðsins sem kom út í fyrradag.
Þar má einnig sjá að bílasalar hafa orðið fyrir vonbrigðum, sem von er, og að vörugjöld, í það minnsta á sumum bifreiðum, séu of há. Dæmi er tekið af 65% vörugjaldi, sem vart verður neitað að er vel ríflegt.
Þetta er nokkuð sem taka þarf á til að auðvelda fólki að endurnýja bíla sína og að kaupa þá bíla sem því hentar. Fleira kemur þó til sem skýrir að bílasalan er undir væntingum.
Eitt af því er að þrátt fyrir það sem haldið var fram af ráðherrum fyrrverandi ríkisstjórnar þá hefur árangur í efnahagsmálum verið of lítill hér á landi.
Sá hagvöxtur sem mælst hefur er allt of hægur og að auki mjög viðkvæmur. Lítið má út af bregða til að hann verði enn lítilfjörlegri.
Full ástæða er til að líta á litla bílasölu sem ábendingu og áminningu um að hagkerfið þarf að losna við skattahækkanir vinstri stjórnarinnar svo að fólk og fyrirtæki nái vopnum sínum á ný.
Ofurskattar sem draga úr kaupmætti, hemja neyslu og standa í vegi fyrir fjárfestingum verða að víkja hið fyrsta eigi hagkerfið að losna úr klakaböndum vinstri stjórnarinnar.