Fyrst sé ég fyrir mér panelinn í gömlu innréttingunni í Aðalstræti. Flottir blaðamannaklefar sem tvímennt var í. Sumarræflarnir fengu sjaldnast að stíga þar inn en hímdu við dyrnar og reyndu að vera gáfulega sniðugir.

Fyrst sé ég fyrir mér panelinn í gömlu innréttingunni í Aðalstræti. Flottir blaðamannaklefar sem tvímennt var í. Sumarræflarnir fengu sjaldnast að stíga þar inn en hímdu við dyrnar og reyndu að vera gáfulega sniðugir. Á vaktfundi með fréttastjóra gátu tíu manns auðveldlega smokrað sér inn á pínulitla skrifstofuna til að bíða úthlutunar verkefna. Fólk tók þau verkefni sem því voru rétt og á sumrin gátu þau oft orðið bæði skrautleg og langsótt. Í Aðalstræti lærði ég að „justera“, stytta mál mitt og leita aðalatriða. Sumrin í Kvosinni voru stressandi og skemmtileg fyrir margra hluta sakir. Þar hitti ég fyrst blaðakonurnar sem höfðu lifað karlasamfélag Moggans af. Brautryðjendur á borð við Elínu Pálmadóttur, Jóhönnu Kristjónsdóttur og Agnesi Bragadóttur. Þar rann upp fyrir mér að blaðaljósmyndarar eru af sérstakri og sjaldgæfri manngerð. Þar ánetjaðist ég atinu og sannleiksleitinni sem er og verður aðal góðrar blaðamennsku.

Svo flutti Mogginn í Kringluna. Þar starfaði ég í erlendum fréttum þar sem þátttökulýðræði var viðhaft á vaktfundunum, ólíkt dírígente-stílnum á innlendum. Blaðamenn völdu af hlaðborði heimsfréttanna, hvorki meira né minna, og erlendar fréttir áttu enn heima á forsíðunni. Klefarnir voru líklega komnir á haugana og blaðamannahæðin varð eins og sósíaldemókratísk slétta þar sem háborðið fékk þann sess sem því bar. Í Kringlunni fékk ég líka að spreyta mig „í slorinu“ með Hirti og Helga Mar. Það var góð lexía fyrir „upprennandi stjórnmálamann“ eins og annar ritstjóranna benti mér á.

Mogginn var hressandi vinnustaður þar sem margir vinnufélaganna voru fyrirferðarmikið fólk með sterkar skoðanir og ríka frásagnargáfu. Að því leytinu til voru líkindi með honum og öðrum vinnustað við Austurvöll. Ég skrifa í þátíð því að ég þekki ekki Moggann eins og hann er í dag. Árið sem ég starfaði í Kringlunni 1998 til 1999 kom ég beint úr kosningabaráttu R-listans í Reykjavík og fór svo á þing vorið 1999. Í frítímanum sat ég á fundum við að búa til nýjan stjórnmálaflokk: Samfylkinguna. Aldrei fann ég fyrir því að sú staðreynd þvældist fyrir stjórnendum blaðsins. Það var frekar á hinn veginn, að þeim þætti fengur að því að hafa unga konu úr röðum femínista og félagshyggjufólks í sínum röðum. Í þá tíð reyndi Mogginn meðvitað að gera sitt besta til að vera ekki flokksblað og í nokkur ár tókst það bærilega.

Ekki man ég eftir því að hafa skrifað margar stórfréttir á þessum árum. Nokkur viðtöl standa þó upp úr í minningunni, t.d. við kornunga skákdrottningu og afburðanámsmann í Harvard (sem sat með mér á Alþingi mörgum árum seinna) og við vísindamann sem var að þróa dvergkafbát til hafrannsókna. Mér skilst að einkaleyfið að dvergkafbátnum hafi síðar verið selt til Bandaríkjanna. Ég man þó vel að stundum þótti mér íhaldssemin í fyrirsagnagerð helst til mikil. Ég var á forsíðuvaktinni þegar Pólland, Ungverjaland og Tékkland gerðust aðilar að NATO við hátíðlega athöfn. Það var að sjálfsögðu stórfrétt og ekki spillti fyrir að forseti Íslands var viðstaddur athöfnina. Íslendingar að gera eitthvað merkilegt í útlöndum klikkar ekki sem myndefni. Fyrirsögnin sem ég lagði til var þessi: Fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins býður austantjaldsríkin velkomin í NATO. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum fékk hún ekki náð fyrir augum háborðsins. Líklega var hún bara alltof löng.