Salóme Ósk Eggertsdóttir fæddist 4. september 1935. Hún lést 2. október 2013.

Útför Salóme hefur þegar farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Salóme Ósk Eggertsdóttir (Sallý) var fóstursystir mín og náfrænka móður minnar. Hún var 16 árum eldri en ég og ég man hvað ég var geysilega stolt af henni sem krakki því hún var svo flott og falleg, hreyfingarnar voru svo glæsilegar og hún hafði svo kurteislega og hrífandi framkomu. Hún var dáð af öllu sínu umhverfi. Hún var hin fullkomna „stóra systir.“

Átján ára gömul giftist hún séra Hjalta Guðmundssyni, síðar dómkirkjupresti, og sýndu þau mér stelpuskottinu, alveg einstaka hlýju og umhyggjusemi. Þær voru óteljandi sunnudagsbíóferðirnar með mig í eftirdragi.

Ég átti alltaf vísan stað hjá Sallý á þessum árum og hún var óskaplega skemmtileg og hafði mikið lag á því að leika við börn. Hún var ekki margmál, en glaðvær, og hugsaði áður en hún talaði.

Svo fóru Sallý og Hjalti til Bandaríkjanna þar sem hann starfaði sem sem prestur í nokkur ár. Á öllum jólum sendi Sallý heim allskonar undraverða fallega hluti, leikföng og ótrúlega fallega kjóla.

Þegar Sallý og Hjalti komu heim aftur fluttu þau í Stykkishólm þar sem hann gerðist sóknarprestur. Ég heimsótti þau oft þar og alltaf var jafn gott að koma. Sallý bjó til besta mat í heimi að mínu mati og bakaði bestu kökurnar. Sallý var líka svo ótrúlega ráðagóð og gott var að bera hlutina undir hana.

Þau voru ófá skiptin sem Sallý hjálpaði mér með heimanámið og stundum gerði hún hreinlega hlutina fyrir mig. Sallý var mjög mikill verndari fyrir mig „litlu systurina“ og stóð með mér í flestum málum.

Sallý var trúuð kona og á heimili þeirra Hjalta ríkti sannkristinn andi og virðing fyrir hefðum.

Sallý átti við talsvert heilsuleysi að stríða stóran hluta ævinnar, en hún tókst á við það með mikilli þrautseigju og æðruleysi.

Sallý var mjög fjölhæf og hæfileikarík kona. Hún var mjög listhneigð og bæði málaði og orti á síðasta hluta ævinnar.

Drottinn blessi minningu hennar og láti hið eilífa ljós lýsa henni.

Ragnhildur Pála

Ófeigsdóttir.