„Ég man eftir því að hafa verið að vélrita í sexriti kvittun fyrir umboðsmann okkar í Kópavogi í gamla daga,“ segir Lilja Leifsdóttir og bætir við að tæknin hafi auðveldað margt.
„Ég man eftir því að hafa verið að vélrita í sexriti kvittun fyrir umboðsmann okkar í Kópavogi í gamla daga,“ segir Lilja Leifsdóttir og bætir við að tæknin hafi auðveldað margt. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lilju Leifsdóttir hóf átján ára störf á Morgunblaðinu og er nú með lengstan starfsaldur þar.

Það hefur margt breyst á Morgunblaðinu og í þjóðfélaginu frá því að ég byrjaði að vinna á blaðinu haustið 1966,“ segir Lilja Leifsdóttir sem á lengstan starfsaldur þeirra sem nú vinna á blaðinu, þegar hún rifjar upp gamla tíma í tilefni af aldarafmælinu.

Faðir Lilju, Leifur Sveinsson lögfræðingur, var meðal eigenda Morgunblaðsins og föðurbróðir hennar, Haraldur Sveinsson, var stjórnarformaður og síðar framkvæmdastjóri blaðsins um langt árabil. Þegar hún kom heim frá verslunarnámi á Englandi 18 ára gömul og leitaði fyrir sér um vinnu, var því ekki nema eðlilegt að hún spyrðist fyrir á blaðinu. Sigfús Jónsson var þá framkvæmdastjóri og réð hana. Fyrstu verkefnin sem hann fól henni sneru að samskiptum við áskrifendur blaðsins.

Gjaldkeri 19 ára

Lilja var ekki búin að vera lengi á blaðinu þegar Sigfús spurði hana hvort hún vildi ekki verða gjaldkeri. „Mér brá svolítið, fannst þetta ansi mikið starf fyrir mig, 19 ára gamla,“ segir Lilja. Henni er minnisstætt að Sigfús sagði þá: „Viljið þér ekki ræða þetta við föður yðar.“ Sigfús var af þeirri kynslóð sem þéraði alla.

Lilja varð gjaldkeri og við tók fjölbreytt starf sem leiddu til kynna við fjölda fólks, við starfsmenn og viðskiptavini. Hún starfaði með fimm framkvæmdastjórum, auk Sigfúsar og Haraldar, þeim Hallgrími Geirssyni, Einari Sigurðssyni og nú Óskari Magnússyni.

Allt undir sama þaki

„Morgunblaðið var á þessum árum í Aðalstræti 6. Allt var undir sama þaki, ritstjórn, skrifstofa, blaðaafgreiðsla, auglýsingar og prentsmiðja. Það voru mikil samskipti á milli deilda og maður kynntist þess vegna fólki sem var að vinna ólík störf á blaðinu, blaðamönnum, skrifstofufólki og prenturum. Það var gott andrúmsloft á blaðinu og margt brallað þegar tími gafst til frá skyldustörfunum. Við vorum eiginlega eins og ein fjölskylda,“ segir Lilja.

Hún rifjar upp að kaup prentara hafi verið greitt út vikulega og alltaf í seðlum. „Þá var nú stundum farið yfir á Naustið þegar halla tók á daginn. Það voru ekki margir veitingastaðir í borginni fyrr á tíð. Naustið var steinsnar frá vinnustaðnum og því auðvelt að rölta þangað,“ segir hún. Bætir við að sér finnist það mikið menningarslys þegar innréttingarnar í Naustinu voru fjarlægðar fyrir nokkrum árum.

Allir með seðla

Greiðslukort voru ekki í notkun fyrstu tvo áratugina sem Lilja starfaði á Morgunblaðinu. „Flestir voru með seðla eða ávísanir. Innheimtumenn okkar og blaðberarnir sem rukkuðu fyrir áskriftina komu með heilu seðlabúntin til mín,“ segir Lilja. Aldrei fylgdu þessi nein vandamál. Þótt unglingar og börn væru með stórar fjárhæðir á sér minnist hún þess ekki að þeir hafi orðið fyrir ónæði eða einhver hafi reynt að ná af þeim peningunum.

„Þjóðfélagið var allt öðruvísi þá en nú. Það væri óhugsandi að standa svona að innheimtu áskriftar eða auglýsingar núna,“ segir Lilja.

Með róna í vinnu

Samstarfsmenn Lilju í gegnum tíðina eru orðnir fjölmargir. Hún man ekki eftir öðru en ánægjulegum kynnum. Af starfsmönnum frá elstu tíð man hún best eftir Aðalsteini Ottesen sem var í blaðaafgreiðslunni. „Lágvaxinn, fyndinn og skemmtilegur,“ segir hún þegar hún hugsar til hans. „Mér er líka minnisstæður Gunnar Eggertsson sem var innheimtumaður á skrifstofu blaðsins. Hann hafði líka það starf að koma stóru blaðarúllunum, sem Morgunblaðið var prentað á, inn í prentsmiðjuna í kjallara hússins í Aðalstræti. Þeim var ekið í húsasund bakdyramegin og síðan fór Gunnar á stúfana að finna burðarkarla til að hjálpa sér. Oft fékk hann rónana sem höfðust við í grenndinni sér til aðstoðar. Þeir fengu greitt fyrir viðvikið, enda voru menn að bjástra við þetta í marga klukkutíma. Ég vildi ekki koma nálægt þessum körlum,“ segir Lilja hlæjandi. Hún samdi við Gunnar um að setja launin í umslag og hann annaðist síðan útborgun. „Það voru glaðir og hraðstígir menn sem gengu á brott eftir puðið,“ segir Lilja.

Tæknin breytir öllu

Þegar Morgunblaðið varð í hópi fyrstu fyrirtækja til að taka tölvur í notkun voru Lilja og samstarfsmenn hennar send á námskeið. Gekk vel að tileinka sér hina nýju tækni og hefur hún létt störfin í bókhaldinu svo að um munar. „Ég man eftir því að hafa verið að vélrita í sexriti kvittun fyrir umboðsmann okkar í Kópavogi í gamla daga. Kalkipappír var settur á milli blaðanna í ritvélinni og maður varð að passa upp á að gera aldrei villu, því það var mikil fyrirhöfn að leiðrétta,“ segir hún.

Störfin í bókhaldinu hafa orðið léttari og öruggari með tölvunum og netinu. En nú koma menn ekki lengur á skrifstofuna til að borga auglýsingar og áskrift í reiðufé. Bein samskipti við fólk og kynni hafa því gerbreyst. Lilja segist sakna gamla tímans að þessu leyti með sínum fjölbreyttu samskiptum við fólk alls staðar að úr þjóðfélaginu.