Sjúkraflutningum á höfuðborgarsvæðinu er ekki ógnað eins og er að mati Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra. Hann segir vilja hvorki ríkisins né slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu standa til þess að stefna þjónustunni í voða.
Gunnar Einarsson, stjórnarformaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, segir að sveitarfélögin fari að huga að því að segja upp starfsmönnum í tengslum við slit á samstarfi við ríkið um sjúkraflutninga ef ekki komi fram skýr afstaða frá stjórnvöldum um hvernig þau vilji haga þjónustunni á höfuðborgarsvæðinu.
Samningur á milli ríkisins og sveitarfélaganna um sjúkraflutninga rann út árið 2011 og hefur enn ekki tekist samkomulag um þá. Lagður var grundvöllur að samkomulagi á þessu ári en hann hefur hins vegar ekki fengist samþykktur hjá fjármálaráðuneytinu.
Stjórn slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, sem hefur annast flutningana, skrifaði velferðarráðuneytinu bréf þar sem kom fram að ef ekki væri búið að ganga frá samningum um sjúkraflutningana fyrir 1. nóvember myndi hún slíta samstarfinu. Ástæða bréfsins var að ekki hafði verið gert ráð fyrir fjármunum fyrir flutningana í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár sem lagt var fram í haust.
Samkvæmt heimildum mbl.is var bréfinu svarað í gær án þess að nokkur frekari botn hefði fengist í málið.
Semji sig niður til lausnar
Kristján Þór segir hins vegar að fjárlög næsta árs verði ekki afgreidd fyrr en í desember og ómögulegt sé að segja til um hver niðurstaðan verði.„Það hefði verið æskilegt að til þessa hefði ekki þurft að koma en þegar þú þarft að ná samkomulagi á milli tveggja aðila verða báðir að semja sig niður til lausnar. Ég vona bara að við getum fundið einhverja farsæla niðurstöðu í þessu máli,“ segir ráðherrann.