Ég var 18 ára nýútskrifaður stúdent þegar ég kom til starfa sem blaðamaður á Morgunblaðinu og ekki nóg með það heldur leit ég út fyrir að vera 14 ára. Ég kalla þá góða Styrmi og Matthías að hafa gefið mér þetta tækifæri – en ég held að þeir hafi haft lúmskt gaman af því að senda mig til að taka viðtöl við gamla skápa sem ráku upp stór augu þegar ómáluð unglingsstúlka með ljóst hár niður í mitti í skósíðri lopapeysu og kínaskóm kom og kynnti sig sem blaðamann Morgunblaðsins.
Til að láta á mig reyna létu þeir mig strax fá það stóra verkefni að skrifa kálf um 100 ára afmæli Framtíðarinnar, málfundafélags Menntaskólans í Reykjavík. Þar átti ég að rekja sögu þess og taka fyrrverandi formenn tali og langaði mig að fara eins langt aftur og mögulegt var. Á listanum rak ég augun í nafn Einars Olgeirssonar, sem mér fannst kunnuglegt, og spurði hvort þessi karl væri á lífi og hvort ég gæti talað við hann. Það kom hik á ritstjórana áður en þeir sögðu: „Þú getur reynt...“ án þess að útskýra það neitt nánar. Þeim til undrunar samþykkti Einar þegar í stað að veita mér viðtal og ég fór heim til hans á Hrefnugötu þar sem ég átti von á að finna hann hruman í ruggustól. En það var eitthvað annað – hann reif upp dyrnar og mér fannst augu hans skjóta gneistum þegar hann mældi mig út. Hann gekk því næst kvikur í spori inn í litlu stofuna, sem var full af bókum, sagðist vera önnum kafinn við að koma út Rétti en bað mig endilega að ganga í bæinn og þiggja límonaði. Þegar ljósmyndara Morgunblaðsins bar að garði skömmu síðar var Einar aftur á móti allt annað en vinalegur og veitti honum ekki inngöngu. Hann sagði mér þá að eina ástæðan fyrir því að hann hefði viljað tala við erkióvini sína á Mogganum hefði verið til að hitta mig þar sem afi minn og afasystir hefðu deilt hugsjón hans og starfað honum við hlið í Kommúnistahreyfingunni. „Erling afi þinn var verkfræðingur og gat hjálpað mér að rökstyðja mál mitt með útreikningum en Dagný setti á stofn barnaheimili fyrir fátæk börn. En lífið þá var svo ólíkt lífinu núna, María, að ég get ekki einu sinni byrjað að útskýra það fyrir þér og hversu knýjandi það var að styðja fátækan verkalýðinn.“ Hann vísaði mér svo á fundargerðir Framtíðarinnar á Landsbókasafninu fyrir greinina mína.
Þessi fundur við Einar hefur aldrei liðið mér úr minni og fékk dýpri merkingu þegar ég seinna las mér til um þennan umdeilda eldhuga og hugsjónamann og þá tíma sem hann hrærðist í. Þegar ég gekk út fannst mér ég sjá heiminn í öðru ljósi, tilfinning sem ég átti oft eftir að upplifa sem blaðamaður eftir að hafa sett mig í spor viðmælanda míns um stund.