
Kúba Ég fór til Kúbu árið 1999. Meðferðis hafði ég tvær myndvélar, Mamiu 6.7 og gamla 4x5 tommu blaðfilmuvél. Dag einn var ég staddur í hverfi í Varadero, litlum bæ rétt við hliðina á ferðamannastað um 150 km austur af Havana. Ég hafði dottið í ræsi og brotið Mamiu-vélina þannig að ég hafði bara plötuvélina, sem ég þurfti að stilla upp á þrífót og fara undir svartan dúk til að taka myndina. Ég kom á sveitabæ þar sem ég fékk að mynda gegn þóknun. Ég borgaði með dollurum, sem ég var með á mér, og myndaði hluta úr degi. Þegar ég var búinn fór ég í eldhúsið og þar stóð þess kona við hlóðirnar. Ég sá strax að þetta yrði frábær mynd, en spurði sjálfan mig um leið hvert ég væri kominn. Á hverjum degi í fjörtutíu ár hafði konan hugsað um að fara á brott. Í húsinu voru ekki einu sinni gluggar. En þetta var glatt fólk þótt það ætti ekki neitt. Hún gaf mér sítrónu að skilnaði og ég var hálfklökkur þegar ég fór.
Árni Sæberg hefur verið ljósmyndari á Morgunblaðinu frá því í júní 1984. Hann starfaði hjá Landhelgisgæslunni og sigldi á varðskipum áður en hann sneri sér að ljósmyndun. Árni er fjölhæfur ljósmyndari og nýtur sín þegar hann fær að sökkva sér í áhugaverð verkefni.