Jóhann Hjálmarsson varð fyrir stöðugum árásum af vinstri vængnum þegar hann var bókmenntagagnrýnandi Morgunblaðsins: „Svo kom að því að ég fékk frið og þá saknaði ég greinanna.“
Jóhann Hjálmarsson varð fyrir stöðugum árásum af vinstri vængnum þegar hann var bókmenntagagnrýnandi Morgunblaðsins: „Svo kom að því að ég fékk frið og þá saknaði ég greinanna.“ — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Karl Blöndal | kbl@mbl.is Jóhann Hjálmarsson skáld hefur gefið út fjölda ljóðabóka, þá fyrstu þegar hann var 17 ára. Hann byrjaði að skrifa um bókmenntir í Morgunblaðið í upphafi sjöunda áratugarins og gerði það í rúma fjóra áratugi.

Ég var rétt rúmlega tvítugur þegar ég byrjaði að skrifa í Morgunblaðið,“ segir Jóhann Hjálmarsson. „Þetta voru aðallega yfirlitsgreinar um bókmenntir og myndlist, en einhver gagnrýni líka. Þetta kom til af því að starf mitt á Pósti og síma dugði ekki og ég varð að fá mér annað starf til að lífið gengi upp. Svo var auðvitað gífurlegur áhugi á efninu og hafði verið alveg frá því ég var unglingur, þannig að þetta var mér ekki leitt,“ segir hann og brosir við.

Jóhann talaði við Matthías Johannessen, sem samþykkti að Jóhann kæmi til liðs við blaðið.

„Hann sagði aðeins að ég mætti ekki birta andkristileg viðhorf,“ segir Jóhann. „Ekkert níð um Jesú, það var það eina sem hann sagði. Hann talaði ekkert um pólitík eða neitt þannig, það var ekki til umræðu.“

Á þessum tíma var pólitísk undiralda mikil. Jóhann segir að Matthías hafi vitað hvar hann stóð í pólitík.

„Ég var frekar borgaralegur eða hægrisinnaður,“ segir Jóhann. „En ég hafði verið kommi, kem frá sósíalísku heimili og var alinn upp í því. Þegar uppreisnin var barin niður í Austur-Þýskalandi 1953, innrásin gerð í Ungverjalandi 1956 og aftur í Tékkóslóvakíu 1968 treysti ég mér ekki til að fylgja þessari stefnu, gat ekki hugsað mér það.“

Árið fyrir innrásina í Ungverjaland hafði Jóhann farið á heimsmót æskunnar í Póllandi.

„Þar kynntist maður Pólverjum og fann maður á því, sem þeir hvísluðu að manni bak við tjöldin, að þeir voru mjög óánægðir,“ segir hann. „Ég var því farinn að finna fyrir efasemdum áður og þær hafa reyndar alltaf fylgt mér.“

Morgunblaðið var til húsa í Aðalstræti þegar Jóhann fór fyrst að skrifa í það 1961.

„Það var frekar fjölmennt á blaðinu, en maður hafði mest samskipti við ákveðna menn og þá helst Þorbjörn Guðmundsson,“ segir hann. „Svo bar Matthías ábyrgð á þessu.“

„Eitt sinn var búið að ganga frá blaðinu til prentunar og í því var grein með mynd af Matthíasi Johannessen. Undir myndinni stóð Matthías Jochumsson. Við á ritstjórninni gátum bjargað þessu á síðustu stundu. Nöfnin eru lík, en ekki eru þeir líkir sem skáld.“

Nokkrum sinnum gerðist það líka að höfundanöfn víxluðust. „Ég man eftir því að nokkrar greinar birtust merktar Jóhönnu Kristjánsdóttur, en voru eftir mig.“

Línan var á hvolfi

Jóhann segir að fyrr á árum hafi menn ávallt verið dauðhræddir við að gera mistök, enda hafi tæknin ekki verið sú sama og nú. Þegar Jóhann var að byrja í blaðamennsku var prentað með lausaletri í sátri eða „satsa“.

„Ég hafði lært prentverk hjá Hafsteini Guðmundssyni í Hólum, sem var þá sá fræknasti meðal setjara og prentara, en hætti því eftir þrjú ár og kláraði ekki,“ segir hann. „Ég var því kannski enn næmari fyrir prentverkinu. Stundum gat verið rugl á satsinum og einu sinni fór ég niður í prentsmiðju. Menn voru þá svo uppteknir að þeir máttu ekki vera að því að sinna mér þannig að ég fékk satsinn lánaðan, tók línu út og lét setja aðra í staðinn. Þegar þetta birtist daginn eftir var sú lína á hvolfi. Þetta voru alger mistök og eftir þetta hef ég aldrei reynt að sinna tæknilegu hliðinni. Ég dæmdi mig eiginlega til dauða sem prentari.“

Árið 1990 kemur Jóhann inn á ritstjórnina í fullu starfi og segir að Matthías hafi tekið vel í það.

„Eini ritstjórinn, sem ræddi við mig hvort ég hefði áhuga á blaðamennsku, var Sigurður Bjarnason frá Vigur,“ segir Jóhann. „Þá var ég rúmlega tvítugur og fylgdi því ekki eftir. Aðrir nefndu það ekki að fyrra bragði. Ég varð því að bjóða mig fram sjálfur.“

Þegar Jóhann byrjar að skrifa um menningu í Morgunblaðið var kalda stríðið í algleymingi og settu skotgrafir þess mark sitt á menninguna.

„Það gat andað köldu,“ segir Jóhann. „Ég varð fyrir stanslausum árásum í Austra-dálkum Magnúsar Kjartanssonar í Þjóðviljanum. Af þeim var ekki annað að ráða en ég væri svikari og hefði selt mig. Stundum var þetta daglega. Ég klippti þetta alltaf út og á því dágott safn. Orðbragðið vantaði ekki. Ég var kallaður „litla skáld á grænni grein“,“ segir hann og hlær. „Ég svaraði þessu stundum, en bjóst við þessu og því skipti það mig engu máli. Svo kom að því að ég fékk frið og þá saknaði ég greinanna.“

Jóhann segir hins vegar að þetta hafi komið niður á sér sem skáldi.

„Þau blöð og tímarit, sem voru hliðholl sósíalisma, sinntu mér ekki neitt,“ segir hann. „Ef þau skrifuðu eitthvað var það helst níð.“

Jóhann segir að í Morgunblaðinu hafi verið skrifað um næstum því allt sem kom út.

„Þegar ég tók við sem umsjónarmaður gagnrýni og deildi út verkum til gagnrýnenda fannst mér það í lagi því að jákvætt væri að fá sem mest skrif um bókmenntir. Ritstjórarnir gerðu engar athugasemdir við það. Þó gat verið sárt og leiðinlegt að þurfa að segja höfundum að ekki væri hægt að skrifa um þessa bók, en við skyldum sjá til með þá næstu. Þar er ég að tala um bækur, sem mér þóttu ekki nógu góðar, það var ekki út af pólitík. Á þessum tíma var Gísli Sigurðsson ritstjóri Lesbókarinnar og ég hafði ágæt samskipti við hann. Hann birti gífurlega mikið af ljóðum og varð til titillinn Lesbókarskáld, sem þótti niðrandi, þótt auðvitað birtust úrvalsskáld innan um. En það var mikið af fólki, sem orti sér til hugarhægðar og fékk það svo birt í Lesbókinni. Þetta fólk, sem hafði fengið kvæði í Lesbókinni, kom svo til mín með bókina sína og sagði mér að Gísli hefði tekið sér vel, en það nægði ekki alltaf. Krafan var meiri frá bókmenntadeildinni.“

Eilítið erfitt að vera skáld og gagnrýnandi um leið

Jóhann var gagnrýnandi í fjóra áratugi. „Þetta er gífurlegt safn, þúsundir greina, og myndi fylla nokkrar bókahillur ef tekið yrði saman,“ segir hann. „Mér fannst eilítið erfitt að vera skáld og gagnrýnandi um leið, en það var ekki um annað að ræða og þekkt um öll lönd að menn séu skáld og gagnrýnendur um leið. En því fylgir auðvitað pressa og best hefði verið láta nægja að vera skáld, en maður þurfti að fá æskileg laun. Lesendur gátu fundið að því að skáld væri að skrifa gagnrýni, en verst var að fengi ég góða gagnrýni sagði fólk að það væri ekki furða, ég ynni á blaðinu. Þetta var óþægilegt, en ég hafði töluverðan skráp og vandist því við að lesa um mig nánast daglega níðgreinar með stórum fullyrðingum þar sem Magnús Kjartansson kallaði mig meðal annars „hundingja“ í leiðara. Á þeim tíma var lesið úr leiðurum í útvarpinu. Ég sat með fjölskyldunni og var að drekka morgunkaffið og þá fékk fjölskyldan að heyra það að ég væri hundingi.“

Að baki bjó að Magnús var ósáttur við ritdóm, sem hann hafði skrifað um Stefán Hörð Grímsson.

„En Stefán var hissa á þessu og gerði ekkert úr þessu sjálfur,“ segir hann. „Við vorum góðir vinir. Ritdómurinn var reyndar mjög lofsamlegur, en þetta tengdist eitthvað pólitík.“

Jóhann segir að blaðið hafi iðulega verið þröngt og þá hafi efni safnast upp. Þá gat hann orðið óþolinmóður og sömuleiðis höfundar, sem biðu umfjöllunar.

„Það voru ekki síst róttækir höfundar og andstæðingar mínir í skoðunum, sem höfðu samband við mig til að fá ritdóm,“ segir hann. „Þeir lögðu áherslu á það, en út á við var Morgunblaðið bara eitthvert drasl og þá var hin fræga Moggalygi mikið notuð. En eftir innrásina í Tékkóslóvakíu, þegar í ljós kom að meirihlutinn reyndist sannur, breyttist það.“