Brynjar Björn Gunnarsson
Brynjar Björn Gunnarsson
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Einn af reyndustu og leikjahæstu knattspyrnumönnum Íslands frá upphafi, Brynjar Björn Gunnarsson, hefur lagt skóna á hilluna.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Einn af reyndustu og leikjahæstu knattspyrnumönnum Íslands frá upphafi, Brynjar Björn Gunnarsson, hefur lagt skóna á hilluna. Það varð endanlega ljóst í gærkvöld þegar Stjarnan staðfesti að hann hefði verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla og yfirþjálfari 2. flokks karla hjá Garðabæjarfélaginu. Fyrr um kvöldið hafði KR staðfest að Brynjar hefði verið leystur undan samningi í Vesturbænum en þar stóð til að hann yrði áfram leikmaður á næsta ári.

Brynjar Björn er einn af þeim íslensku knattspyrnumönnum sem hvað lengst hafa verið atvinnumenn en hann kom heim síðasta vor eftir sextán ár erlendis. Þar áður hafði hann leikið í þrjú ár með KR og lauk því ferlinum sem Íslandsmeistari með uppeldisfélagi sínu. Þegar Brynjar yfirgaf KR á sínum tíma hafði félagið beðið eftir titlinum í 28 löng ár. Kveðjuleikurinn var lokaleikur Íslandsmótsins, gegn Fram, á KR-vellinum í lokaumferðinni í lok september en eftir hann tók KR við Íslandsbikarnum.

Spilaði 426 deildaleiki

Brynjar lék samtals 426 deildaleiki á 20 ára ferli í meistaraflokki, þar af 66 með KR. Mest lék hann með Reading, 144 deildaleiki á átta árum, og af þeim voru 43 í ensku úrvalsdeildinni.

Þá lék Brynjar í hálft þrettánda ár með íslenska landsliðinu, samtals 74 leiki, en hann er í 5.-6. sæti yfir leikjahæstu landsliðsmenn Íslands frá upphafi. Brynjar lék fyrst gegn Makedóníu í júní árið 1997 og síðast gegn Lúxemborg í nóvember 2009.