Morgunblaðið er 100 ára, jafngamalt Litlu hafmeyjunni á Löngulínu í Kaupmannahöfn. Blaðið og hafmeyjan eiga ef til vill fátt sameiginlegt annað en aldur og forna frægð. Morgunblaðið var lengi akkeri í íslenskum fjölmiðlaheimi og borið inn á flest heimili landsins. Litlu hafmeyjuna þekkja allir sem kennileiti og táknmynd í hinum forna höfuðstað Íslands og úr ævintýrinu eftir H.C. Andersen sem flest börn þekktu. Hún hefur „hímt á steini sínum í öllum veðrum“ eins og Morgunblaðið komst að orði í frétt um hana fyrir nokkrum árum. Bæði hafa lifað tímana tvenna, Mogginn og meyjan.
Áður en lengra er haldið skal játað að litla hafmeyjan var fyrsta viðfangsefni sem óreyndri blaðakonu var falið að skrifa um á stuttum ferli sínum hjá Morgunblaðinu. Líklega eftir að hafmeyjan litla varð einu sinni sem oftar fyrir barðinu á mótmælendum og yfir hana hellt blárri málningu haustið 1986. Síðan hefur hún mátt þola aðför margvíslega en endurheimt virðingu sína fyrir þrautseigju þeirra sem láta sig varða hag hennar og stöðu.
Það kom vel á vondan sem hafði séð kvennapólitísk skrif í hillingum að fá úthlutað þessu litla verkefni, og hin nakta dreymna mær var vissulega á skjön við þá mynd sem kvennabaráttan vildi setja í öndvegi.
Öll viðfangsefni bar engu að síður að taka alvarlega og áminningin var alltaf sú að meitluð hugsun og vönduð skrif væru skilyrði fyrir því að texti væri birtur. Og Mogginn gerði kröfu um að greint væri á milli aðalatriða og aukaatriða.
Þótt minn tími á Morgunblaðinu væri stuttur, nánast fleygaður á milli barneigna, finnst mér ávallt að það hafi eignast í mér hlutdeild í áratugi – og ég í því. Þetta var tími mikillar samfélagslegrar gerjunar. Vigdís var forseti, Kvennalistinn breytti umræðuhefðinni á Alþingi, Kvennaframboðskonur í borgarstjórn Reykjavíkur neituðu að sitja undir háðulegum glósum um konur og mótmæltu slíkum orðum og fegurðarsamkeppum með eftirminnilegum hætti. Vakningin var almenn og umræðan áræðin og krefjandi. Morgunblaðið braut í blað, gekk á svig við málfræðireglur svo ekki þyrfti að vísa til forsetans í karlkyni, en mikið þurfti til.
En eftir stendur að síst er mér sama um örlög litlu hafmeyjunnar á Löngulínu og megi hún standa af sér allar hremmingar.
Megi auðna jafnframt fylgja jafnaldranum, mínum gamla vinnustað, og vinum og félögum frá árum áður.