Viðtal
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
„Dagblað það, sem hér byrjar starf sitt, á fyrst og fremst að vera áreiðanlegt, skemtilegt og lipurt ritað fréttablað.“ Á þeim orðum hófst ávarp Vilhjálms Finsens, ritstjóra Morgunblaðsins, í fyrsta blaði dagsins, en hundrað ár eru í dag frá því að Morgunblaðið hóf göngu sína. Vinsældir hins nýja dagblaðs voru miklar og seldist upplagið fljótt upp. Fyrsta eintak Morgunblaðsins er því fyrir löngu orðið að fágætum safngrip.
Gísli S. Sigurðsson, húsasmíðameistari á Akranesi, á dágott safn gamalla bréfa og ýmissa ritaðra heimilda, þar sem meðal annars má finna tvö eintök af fyrsta Morgunblaðinu. Gísli segir að hann hafi erft bréfasafnið frá foreldrum sínum, þeim Sigurði Guðmundssyni og Guðlaugu Ólafsdóttur. „Móðir mín geymdi öll bréf og aðrar ritaðar heimildir sem viðkomu fjölskyldunni. Konan mín, Erla Guðmundsdóttir, sem lést í fyrra, var sömu eiginleikum búin. Saman héldum við utan um þessi mál hjá okkur alla okkar sambúð,“ segir Gísli. Hann segir safnið ekki svo yfirgripsmikið. „Nei, bréfasafnið er ekki svo ýkja stórt. Hins vegar er þar að finna ýmsar gamlar og merkar heimildir um ættir okkar hjónanna sem okkur fannst alltaf mikilvægt að flyttust áfram til niðja okkar.“
Gísli segir að dagblöðin í safninu hafi komið frá föður Erlu, Guðmundi Zakaríassyni og konu hans Þóreyju Jónsdóttur. „Þar á meðal voru þessi tvö vel með förnu eintök af fyrsta tölublaði Morgunblaðsins,“ segir Gísli sem hefur lesið Morgunblaðið svo lengi sem hann man eftir sér, og að það hafi verið mikið lesið á heimili foreldra sinna. „Frá því að við Erla stofnuðum heimili árið 1954 var Morgunblaðið keypt og lesið á nánast hverjum degi.“
Gísli segir að hann hafi ekki mörg heilræði handa Morgunblaðinu á hundrað ára afmælinu. „Nema það þá helst að viðhafa heiðarleika, gæta þess að fréttir séu áreiðanlegar og að leitast við að stuðla að opinni og frjálsri þjóðfélagsumræðu. Það þýðir að allir þurfa að hafa jafnan rétt til þess að koma sínum sjónarmiðum að í blaðinu. Sú aðferð hefur mér reyndar fundist hafa verið viðhöfð hjá Morgunblaðinu í gegnum tíðina,“ segir Gísli að lokum.
Þar kennir ýmissa grasa
Fyrsta tölublað Morgunblaðsins var átta síður og er þar ýmislegt að finna. Á forsíðu er til dæmis auglýst bíómyndin „Einstæðingarnir“ í Nýja bíói þar sem „frakkneskir leikendur“ fóru með aðalhlutverkin. Leikhúsrýni var og í blaðinu og sagði þar að mikil ánægja hefði verið að sjá leikritið, þrátt fyrir smágalla og„einnig eigi nógu góð kunnátta leikenda, sem gerði það, að leikurinn gekk stirðara en skyldi.“