Óskar Ingimarsson þýðandi fæddist á Akureyri 2.11. 1928, sonur Ingimars Óskarssonar náttúrufræðings og Margrétar K. Steinsdóttur húsfreyju.
Fyrri kona Óskars var Guðrún Lárusdóttir kennari og eignuðust þau soninn Ingimar.
Óskar og Guðrún slitu samvistum, en seinni kona hans var Áslaug Jónsdóttir, forvörður og deildarstjóra við Þjóðskjalasafn Íslands og eru börn þeirra Þórunn Hildigunnur, Hrafnkell Smári, og Margrét Lísa.
Óskar flutti með fjölskyldu sinni til Dalvíkur 1936 og þaðan til Reykjavíkur 1945. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1948, stundaði nám í Leiklistarskóla Ævars R. Kvaran 1951-53, lauk prófi í forspjallsvísindum 1949 og BA-prófi í sögu og bókasafnsfræði frá HÍ 1967.
Óskar lék nokkur hlutverk hjá LR og Þjóðleikhúsinu á árunum 1952-55 og lék í tveimur kvikmyndum Óskars Gíslasonar. Hann var bókavörður hjá Hafrannsóknastofnun 1960-71, bóka- og skjalavörður hjá Kópavogsbæ 1973-75, var fulltrúi í leiklistardeildar RÚV 1975-81, leiklistarstjóri 1981-82 og þýðandi hjá RÚV-Sjónvarpi frá upphafi 1966.
Óskar var afburðatungumálamaður og margfróður og fjölhæfur þýðandi. Hann þýddi úr ensku, Norðurlandamálum, þýsku, frönsku, ítölsku og rússnesku. Þá virtist hann jafnvígur á bókmenntatexta og hátæknilegt vísindaefni, var skáldmæltur og prýðilegur þýðandi söngtexta og ljóða.
Óskar sat í stjórn Esperantistafélagsins í Reykjavík, í stjórn Bókavarðafélags Íslands og í stjórn Félags sjónvarpsþýðenda.
Eftir Óskar liggur fjöldi bóka, m.a. skáldsagan Í gegnum eld og vatn frá árinu 1979, Ensk-latnesk-íslensk og Latnesk-íslensk-ensk dýra- og plöntuorðabók og þýðingar á fjölmörgum bókum, einkum um náttúrufræði. Auk þess þýddi hann á sjöunda tug leikrita fyrir útvarp og leikhús og fjölda söng- og ljóðatexta.
Óskar lést 12.2. 1996.