Dagblað það, sem hér byrjar starf sitt, á fyrst og fremst að vera áreiðanlegt , skemtilegt og lipurt ritað fréttablað,“ segir á forsíðu fyrsta tölublaðs Morgunblaðsins 2. nóvember 1913. „Reykjavíkurbær hefir enn eigi eignast slíkt blað, þó þörfin hafi verið mikil um mörg ár og mörg nauðsynleg skilyrði hafi þegar verið fyrir hendi. Stjórnmálabarátta sú, sem þjóðin hefir átt í síðasta áratuginn, hefir tekið svo mikið rúm í blöðunum, að þeim hefir eigi verið unt að rita um margt hið skemtilega og nýstárlega, sem gerst hefir innanlands og utan. En Morgunblaðið tekur engan þátt í flokkadeilum , þó það auðvitað muni gefa lesendum sínum kost á að kynnast fljótt og greinilega öllu því helzta er gerist í lands- og bæjarmálum. Þær fréttir munu ritaðar með öllu litlaust.“
Tíu árum áður hafði Vilhjálmur Finsen, stofnandi Morgunblaðsins, gengið með grein um Ísland inn á skrifstofu Henriks Cavlings, aðalritstjóra Politiken , í Kaupmannahöfn og boðið honum til birtingar.
„Um Ísland!?“ á Cavling að hafa svarað, nokkuð hæðnislega. „Enginn vill lesa neitt um Ísland, blessaðir verið þér.“
„Hvernig getið þér vitað það, þegar þér birtið aldrei neitt um Ísland í blaðinu,“ svaraði Vilhjálmur.
Beið þess að Reykvíkingum fjölgaði
Greinin birtist og Vilhjálmur og Cavling urðu góðir vinir. Vilhjálmur varð einnig fastur starfsmaður Politiken . Þremur árum síðar skýrði Vilhjálmur Cavling frá því að hann væri að hugsa um að fara heim til Íslands og „stofna nýtízku dagblað í Reykjavík“. Cavling á að hafa spurt hve margir byggju í Reykjavík. Vilhjálmur sagði að íbúar Reykjavíkur væru um átta þúsund.„Látið yður eigi til hugar koma að dagblað geti lifað í slíku fámenni. Þér verðið að bíða þar til Reykvíkingar eru orðnir tólf þúsundir, að minnsta kosti. Og þér getið beðið rólegir því að ólíklegt er að nokkur taki hugmyndina frá yður. En árunum, sem nú eru framundan, skuluð þér verja til þess að kanna annarra manna siðu. Reynið að komast út í heiminn, kynnið yður hvernig blaðamennska er meðal stórþjóðanna. Og skrifið greinar um það sem fyrir yður ber á ferðalaginu, ég skal birta þær.“
Vilhjálmur tók Cavling á orðinu. Hann lærði loftskeytafræði og sigldi sem loftskeytamaður víða um heim. Á ferðum sínum skrifaði hann greinar, sem birtust í blöðum á Norðurlöndum. Alltaf hljómuðu orð Cavlings um að útgáfa dagblaðs gæti staðið undir sér þegar íbúar í Reykjavík yrðu 12 þúsund í huga Vilhjálms. Í upphafi ársins 1913 fréttir Vilhjálmur að íbúar í Reykjavík nálgist þessa tölu. Dreif hann sig þá heim til Íslands með konu og börn og reynsluna af ferðum sínum og skrifum.
Þannig lýsir Árni Óla upphafi Morgunblaðsins í bók sinni Erill og ferill blaðamanns. Árni var ráðinn blaðamaður á Morgunblaðið nokkrum dögum áður en útgáfa þess hófst og mun hafa verið fyrstur til að gera blaðamennsku að ævistarfi á Íslandi.
Vilhjálmur fékk Ólaf Björnsson, sem hafði tekið við útgáfu Ísafoldar af föður sínum, til liðs við sig. Ísafold varð síðar mánudagsútgáfa Morgunblaðsins. Þeir byrjuðu á því að slá 2.500 króna víxil í Landsbankanum, en Björn Kristjánsson bankastjóri hafði litla trú á fyrirætlunum þeirra: „Þið farið á hvínandi hausinn með þetta, piltar.“
Þeir hugðust nefna blaðið Dagblaðið og átti það að koma út síðdegis, en keppinautar þeirra á Vísi, sem hóf göngu sína 1910, náðu til sín nafninu. Var það því nefnt Morgunblaðið og var um leið afráðið að það myndi koma út á morgnana. Markmiðið strax í upphafi var að í blaðinu fengju lesendur „allar fréttir fljótastir af öllum“.
Í upphafi var fjárhagur blaðsins heldur bágur. Mikið af tíma Vilhjálms fór í að afla auglýsinga. Auglýsendur voru hins vegar margir tregir til að borga reikningana sína. Um tíma leit út fyrir að ekki yrði hægt að halda útgáfu blaðsins áfram og fór Vilhjálmur utan til að afla lánsfjár til rekstrarins. Þetta var 1914 og blikur á lofti í Evrópu. Vilhjálmur sendi heim frétt um í skeyti um að Franz Ferdinand, ríkisarfi Austurríkis, hefði verið skotinn í Sarajevo 28. júní. Prentaður var fregnmiði með fréttinni og dreift um bæinn.
Fregnmiðar og skeyti í gluggum
Fregnmiðarnir urðu fleiri og var þetta upphafið að miklum fjörkipp í útgáfu blaðsins. Ekki var þó auðvelt að nálgast upplýsingar. Fréttir af því hvernig stríðið brast á í Evrópu fékk Árni Óla með því að tala við loftskeytamann í skemmtiferðaskipi. Hjá honum fékk hann blað, sem gefið var út um borð í skipinu, og notaði hann upplýsingar úr því til að miðla fréttum til lesenda Morgunblaðsins.
Einnig fékk blaðið upplýsingar hjá kaupmönnum, sem sendu fyrirspurnir til viðskiptafélaga erlendis og fengu fá þeim skeyti með upplýsingum. Skeytin voru hengd upp í glugga blaðsins og safnaðist iðulega svo mikill mannfjöldi við gluggana að ekki gátu allir lesið og tók þá einhver að sér að lesa upphátt. Fjárhagslegur grunnur hafði skapast fyrir útgáfu Morgunblaðsins.
Byggt á Erill og ferill blaðamanns eftir Árna Óla og Nýjustu fréttir eftir Guðjón Friðriksson.