Guðbjörg Sigfríð Einarsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 23. september 1931. Hún lést á Landspítalanum 22. október 2013.

Foreldrar hennar voru hjónin Sigríður Magnúsína Guðmundsdóttir, f. 23. janúar 1906, d. 6. september 1975, og Einar Runólfsson, f. 14. mars 1892, d. 1. ágúst 1969. Alsystkini Guðbjargar eru Jóhann Ingvi, f. 1925, d. 1939, Jónína, f. 1926, Rannveig Snót, f. 1934, d. 2007, og Jóhann Ingi, f. 1940. Samfeðra er Sigurður, f. 1914, d. 2000.

Guðbjörg giftist 31. desember 1957 Ásberg Lárentsínussyni frá Stykkishólmi. Foreldrar Ásbergs voru hjónin Lárentsínus Jóhannesson, f. 1893, d. 1963, og Sigríður Bjarnadóttir, f. 1903, d. 1983. Guðbjörg og Ásberg eignuðust fjögur börn. Þau eru: 1) Rúnar, f. 1957, maki Guðrún Brynja Bárðardóttir. Börn þeirra eru: Tinna Berg, f. 1984, maki Marinó Magnús Guðmundsson, og Ómar Berg, f. 1988. 2) Ómar Berg, f. 1958, d. 1979. 3) Ásberg Einar, f. 1962, maki Ásta Pálmadóttir. Börn þeirra eru: Sigrún Ína, f. 1985, sambýlismaður Hafsteinn Jónsson, Unnur, f. 1989, sambýlismaður Valur Rafn Halldórsson, og Pálmi Þór, f. 1994, unnusta Katrín Arna Kjartansdóttir. 4) Sigríður Lára, f. 1963, sambýlismaður Þröstur Garðarsson. Dætur þeirra eru: Sandra Dögg, f. 1999, og Katrín Ósk, f. 2005. Fyrir átti Þröstur dótturina Þórunni, f. 1989.

Guðbjörg ólst upp í Vestmannaeyjum, lengst af í Götu (Heiðarvegi 6). Hún flutti með fjölskyldu sinni til Þorlákshafnar í kjölfar Heimaeyjargossins árið 1973. Guðbjörg stundaði nám við Húsmæðraskólann á Laugalandi og á starfsævi sinni sinnti hún almennum launastörfum svo sem hjá Kaupfélagi Vestmannaeyja, Netagerð Vestmannaeyja og fiskvinnslustöðvum í Þorlákshöfn.

Útför Guðbjargar fer fram frá Þorlákskirkju í dag, 2. nóvember 2013, og hefst athöfnin kl. 14.

Vönduð er sálin, velvildin mest,

vinkona, móðir og amma.

Minningin mæta í hjartanu fest,

ég elska þig, ástkæra mamma.

Þakka þér kærleikann, hjartalag hlýtt,

af gæsku þú gafst yl og hlýju.

í heimi guðsenglanna hafðu það blítt,

uns hittumst við aftur að nýju.

(Höf. ók.)

Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Lára.

Komið er að kveðjustund. Stund sem kom of fljótt þó svo að vitað væri að á brattann væri að sækja og brugðið gæti til beggja vona undir það síðasta. En það er svo með okkur mannfólkið að við viljum hafa ástvini okkar sem lengst hjá okkur og því kom andlát Guðbjargar mér óþægilega á óvart.

Ég kynntist þessari mætu konu stuttu eftir að ég og dóttir hennar Lára rugluðum saman reytum fyrir allmörgum árum. Öll samskipti okkar Guðbjargar einkenndust af vinsemd og virðingu og ég minnist þess ekki að hún hafi nokkurn tíma skipt skapi í okkar samskiptum. Reyndar fannst mér aðdáunarvert hve mikið jafnaðargeð hún tengdamamma mín hafði, með létta lund og var ekki mikið fyrir að flækja hlutina.

Hún var frábær amma og reyndist dætrum okkar vel í hvívetna. Fyrir það er ég þakklátur. Bjó til heimsins bestu kjötsúpu, besta grjónagrautinn að mati dætranna og var dugleg við bakstur alls kyns kræsinga meðan heilsan leyfði því það var mjög mikilvægt í huga Guðbjargar að eiga ávallt eitthvað með kaffinu ef einhver skyldi líta inn, sérstaklega á hátíðisdögum.

Ég náði ekki að kveðja Guðbjörgu á sjúkrabeðnum og það þykir mér miður þótt ég þykist vita að kveðjur mínar til hennar og hugsanir hafi skilað sér á einhvern hátt til hennar.

Lífsljós tengdamóður minnar er slokknað í þessari jarðvist en ég trúi því að hún uni hag sínum vel þar sem hún er núna, laus við þjáningar og fylgist með okkur hinum sem eftir stöndum.

Þakka hin ljúfu kynni.

Þröstur.

Hinsta kveðja til ömmu.

Þú varst amma yndisleg og góð,

og allt hið besta gafst þú hverju sinni,

þinn trausti faðmur okkur opinn stóð,

og ungar sálir vafðir elsku þinni.

Þú gættir okkar, glöð við undum hjá,

þær góðu stundir blessun, amma

kæra.

Nú hinstu kveðju hjörtu okkar tjá

í hljóðri sorg og ástarþakkir færa.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Minning þín er ljós í lífi okkar.

Sandra Dögg og Katrín Ósk.

Í dag kveðjum við yndislegu ömmu okkar. Elsku amma, þú varst svo góð og hlý, svo sterk og skemmtileg. Húmorinn var aldrei langt undan og lyfti manni alltaf upp. Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur systkinin og við lærðum svo ótrúlega margt af þér. Þú kenndir okkur að spila og leggja kapal og hafðir alltaf tíma fyrir eina „endalausa“ lönguvitleysu. Og það sem við höfðum gaman af því að handleika skartgripina þína og skoða myndaalbúmin. Oft gerðum við okkur sérferð til þín, elsku amma, til að horfa á Nonna og Manna eða Stellu í orlofi því að hjá þér var ró og næði.

Þú tókst alltaf á móti okkur með bakkelsi, þá einna helst hálfmánum, kanilsnúðum og brúntertubita, enda varstu þekkt fyrir að baka bestu brúntertu í heimi. Stundum lagði bakstursilminn yfir hverfið og þá var auðvelt að renna á lyktina. Kaffiboðin þín voru best, heitt súkkulaði, kökur og ísblóm eins og maður gat í sig látið.

Þú hafðir alltaf nóg fyrir stafni og lést þér aldrei leiðast. Oft vorum við saman í garðinum og standa þá helst upp úr minningar um gómsætu jarðarberin og fallegu rósirnar þínar.

Þú sást alltaf það besta í öllum og stóðst eins og klettur við bakið á okkur, enda einstaklega hjartahlý og góð manneskja.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Takk fyrir samveruna, elsku amma, sjáumst síðar.

Ína, Unnur og Pálmi.