Soffía Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri mbl.is, segir að rekstrarumhverfið hafi breyst gríðarlega á síðustu árum. Árvakur hafi staðið sig vel í að aðlagast breyttum tímum.
Soffía Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri mbl.is, segir að rekstrarumhverfið hafi breyst gríðarlega á síðustu árum. Árvakur hafi staðið sig vel í að aðlagast breyttum tímum. — Morgunblaðið/Golli
Soffía Haraldsdóttir byrjaði í viðskiptafréttum á Morgunblaðinu en varð svo framkvæmdastjóri mbl.is

Soffía Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri mbl.is, hefur verið hjá fyrirtækinu með hléum í nærri því fimmtán ár. „Ég datt óvart inn í sumarstarf á Viðskiptablaði Morgunblaðsins árið 1999 og ílentist þar sem viðskiptablaðamaður af og til í um 7 ár,“ segir Soffía sem hafði áður starfað í tæknigeiranum í fjöldamörg ár.

Soffía segir að það hafi verið mikil viðbrigði fyrir sig að skipta yfir á Morgunblaðið. „Fyrstu vikur og mánuði í starfi fannst mér ég vera komin aftur í fornöld hvað tæknimál varðaði. Ritstjórnarkerfinu svipaði til fyrstu útgáfna ritvinnsluforrita og starfsfólk skrifaði á miða hjá sér skipanir til að nota í kerfinu.“ Hún bætir við að síður í blaðinu hafi þá enn verið handteiknaðar og að símanúmer og aðrar upplýsingar um tengiliði hafi einkum verið að finna í dagbókum blaðamanna.

Fékk aldrei bakteríuna

Þá var netið heldur ekki fyrirferðarmikið. „Ein tölva var nettengd á þeim helmingi hæðarinnar sem ég starfaði og þjónaði tugum manna. Það var þó jafnan lítil bið í að komast í hana því prentarar og faxtæki gegndu aðalhlutverki. Þetta var nú samt árið 1999,“ segir Soffía.

Soffía segir að hún hafi einfaldlega fengið nóg af því að vera blaðamaður. „Hann Árni Jörgensen sem vann hér lengi sagði við mig, „Annað hvort færðu blaðamannabakteríuna strax eða aldrei,“ og ég fékk hana aldrei, því miður,“ segir Soffía. Síðar kom hins vegar tilboð um að taka við rekstri mbl.is. „Þá var forveri minn í starfi, Ingvar Hjálmarson, að láta af störfum, en hann hafði sinnt mbl.is af alúð frá upphafi ásamt mörgum öðrum,“ segir Soffía.

Fréttavefurinn mbl.is stendur í dag styrkum fótum og mælist mest lesni fréttavefur landsins. Soffía segir að sú staða hafi ekki verið sjálfgefin. „Á fyrstu árunum var nokkur slagur um það hvaða vefur yrði sá vinsælasti. Okkur hefur tekist að halda ákveðnu forskoti, en það munaði ekki miklu að mbl.is yrði undir í þeirri samkeppni.“ Soffía segir að árangur mbl.is hafi ekki síst verið því að þakka að frá upphafi var lagt upp með að vefurinn væri sérstakur miðill með sérstaka blaðamenn sem skrifuðu fyrir vefinn. „Hann varð því ekki einhver afgangsstærð sem tók fréttir beint úr Morgunblaðinu, heldur sérstakur miðill sem segir fréttir allan sólarhringinn alla daga vikunnar. Þetta var bylting.“

Ekki lengur fyrirsjáanleg

Soffía segir að þegar hugsað sé til framtíðar vilji aðstandendur mbl.is fyrst og fremst vinna að því að hann verði áfram leiðandi fréttamiðill á íslenskum markaði. Þar skipti máli efnistök vefsins. „Við höfum lagt áherslu á traust og trúverðugleika í fréttaflutningi en jafnframt hæfilega afþreyingu og þjónustu við notendur mbl.is.“

Soffía segir í þessu samhengi að áður fyrr hafi Árvakur búið við mikinn stöðugleika í rekstrarumhverfi sínu. „Framtíðin var fyrirsjáanleg, rík hefð var fyrir blaðaútgáfu og breytingar tóku langan tíma. Áskriftargrunnur Morgunblaðsins, sem fyrirtækið byggðist á, var gríðarsterkur og mikil eftirspurn eftir auglýsingaplássi í blaðinu auk þess sem erfitt var fyrir keppinauta að ná fótfestu á markaðnum.“

Soffía segir að þessi styrka staða hafi verið byrjuð að breytast rétt fyrir aldamótin, og nú sé rekstrarumhverfið gjörólíkt. Fjölmiðlar um allan heim glími nú við mikinn óstöðugleika. Neysluvenjur fólks hafi breyst með aðgangi að ókeypis fréttaefni á hvaða tíma sólarhrings sem er. „Það er óvíst hvernig fjölmiðlafyrirtæki munu frá greitt fyrir fréttaefni í framtíðinni. Hörð samkeppni er um auglýsingafé auk þess sem óvissa ríkir á heimsvísu um hver verði örlög dagblaðaútgáfu og hvert tækniþróunin leiðir okkur. Keppinautum fjölgar líka stöðugt enda orðið tiltölulega auðvelt að setja fjölmiðil á laggirnar. En þetta skapar okkar líka tækifæri,“ segir Soffía.

Hún tekur þó fram að myndin sé alls ekki dökk fyrir Morgunblaðið og Árvakur á afmælisárinu. Fyrirtækið hafi sjálft átt stóran þátt í að breyta fjölmiðlamarkaðnum á Íslandi í takt við það sem gerðist annars staðar í heiminum og lagt í kostnaðarsamar tilraunir. „Þær tilraunir hafa meðal annars orðið til þess að fyrirtækið hefur verið í fararbroddi á vefmiðlamarkaði í 15 ár með mbl.is. Núna þegar 100 ár eru að baki í útgáfu Morgunblaðsins er blaðið enn vinsælasta áskriftarblað landsins og með mikla útbreiðslu. Auk þess hefur það fóstrað aðra miðla Árvakurs inn á sömu braut. Fyrirtækið rekur einnig vinsælasta fréttavef landsins sem jafnframt er vinsælasti frímiðill landsins, vinsælasta bloggsvæði landsins, vinsælasta ungmennablað landsins og vinsælasta lífsstílsvef landsins. Við getum ekki annað en glaðst yfir þessu,“ segir Soffía.