Magnús Thoroddsen fæddist í Reykjavík 15. júlí 1934. Hann lést á heimili sínu 14. október 2013.
Magnús var jarðsunginn frá Hallgrímskirkju 24. október 2013.
Það eru þáttaskil þegar fólk úr nánasta frændgarði manns kveður og margs að minnast. Þótt móðurbróðir minn, Magnús Thoroddsen, hafi vissulega átt árafjölda að baki sem skipaði honum í hóp aldraðra þá var hann ekki gamall maður í mínum huga. Hann var ávallt glæsilegur, hraustlegur og virðulegur svo eftir var tekið, starfaði sem hæstaréttarlögmaður langt fram yfir hefðbundinn eftirlaunaaldur, ferðaðist mikið bæði innanlands og utan, var ákaflega vel lesinn, skrifaði blaðagreinar um lögfræðileg málefni á svo fallegri og vandaðri íslensku að leitun er að öðru eins, þær síðustu birtust í Morgunblaðinu fyrir aðeins nokkrum mánuðum. Hann var til dæmis einna fyrstur lögspekinga til að benda á ágalla á Icesave-samningunum og var það honum mikið hjartans mál að þjóðin myndi fella þá samninga í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrir nokkrum árum hefði ég látið segja mér það tvisvar að Magnús frændi ætti eftir að mæta á mótmælafund á Austurvelli en það gerði hann á sinn virðulega hátt þegar Icesave-samningnum var mótmælt. Hann lá ekki á liði sínu í því máli frekar en öðrum þar sem réttlætiskennd hans var misboðið. Oft var það svo að þegar umdeild mál voru fyrirferðarmikil í þjóðmálaumræðunni þá hugsaði maður með sér hvað ætli Magnúsi finnist um þetta mál og það var bæði áhugavert og fróðlegt að heyra skoðanir hans.
Magnús hafði sterka og skemmtilega nærveru og það er erfitt að hugsa sér fjölskylduboðin án hans. Húmor hans og skemmtileg tilsvör, frásagnir hans af mönnum og málefnum, líflegar frásagnir af ferðalögum þeirra hjóna og umræður um jólabækurnar krydduðu samverustundir stórfjölskyldunnar en eru nú ómetanlegar minningar.
Að leiðarlokum þakka ég Magnúsi frænda fyrir samfylgdina og er þakklát fyrir að hafa átt þennan góða mann að í mínum frændgarði. Ég sendi Sollu og afkomendum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur, en einnig systrum hans sem elskuðu og virtu hann mikils og sjá nú á eftir öðrum bróður sínum kveðja þennan heim.
Björg Kristjana
Sigurðardóttir.
Magnús fékk leyfi frá störfum snemma árs 1979 og hélt ásamt sinni dáðu eiginkonu Sólveigu til Strassborgar til starfa hjá mannréttindanefnd og fór beina leið þaðan í Hæstarétt í janúar 1982. Þá skildi leiðir okkar en vináttan hélst þrátt fyrir fjarlægðina milli dómstiga. Hann varð forseti réttarins í janúar 1987. Sumarið 1988 urðu mikil tíðindi í stjórnmálum landsins og í ágúst var ríkisstjórninni slitið í beinni útsendingu. Önnur bein útsending ríkisútvarpsins var í kvöldfréttatíma 24. nóvember 1988, sem varð upphafið að því að dómsmálaráðherra höfðaði mál gegn Magnúsi til embættismissis, sem lauk með dómi Hæstaréttar 8. desember 1989.
Magnús og Sólveig kona hans stóðu þetta fárviðri af sér. Þau stóðu saman enda samrýndari hjón en gengur og gerist. Magnús tók upp lögmannsstörf og aldrei talaði hann á neikvæðan hátt um dómana né dómara þá sem að höfðu komið. Hefði hann getað tekið sér í munn orð móðurföður síns og nafna þegar mál var höfðað gegn honum þegar hann var ráðherra 1932 og hann frétti um dóminn sem upp var kveðinn 9. nóvember: „Þó ég telji dóm þennan rangan... þá hefi ég þó tekið þá ákvörðun að biðjast þegar lausnar, því að ég lít svo á, að í ráðherrasæti eigi enginn að sitja, sem hefur hlotið áfellisdóm hjá löglegum dómstóli, meðan dóminum er ekki hrundið með æðra dómi.“ Nema Magnús yngri hafi haft í huga svipaða hugsun frá enn eldri tíma, þegar Sókrates mælti fyrir hönd laganna og sagði við Kríton: „En hver yðar, sem verður kyrr, þegar hann sér, hvernig vér dæmum dóma og stjórnum öðrum borgarmálum, köllum vér, að hafi í verki skuldbundið sig til að gera það, sem vér bjóðum honum.“ Hann sagði líka að góðum manni getur ekkert grandað, hvorki lífs né liðnum.
Með skyndilegu láti Magnúsar eru fjölskylda hans og vinir miklum harmi slegin. Blessuð sé minning hans.
Garðar Gíslason.