S jálfstæðismenn í borgarmálunum hafa margir hverjir átt erfitt með Jón Gnarr undanfarið kjörtímabil. Skyldi þar engan undra, því maðurinn virðist gefa lítið fyrir hefðbundinn sannleik þegar kemur að stjórnmálum.
Besti flokkurinn, undir forystu Jóns, ruddist inn á stjórnmálasviðið árið 2010 í kjölfar stórkostlegra skrípaleikja í borgarstjórn.
Frá árinu 2006 til 2008 sátu fjórir einstaklingar í stóli borgarstjóra. Bíóið hófst þegar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson tók við embættinu í samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það samstarf tók skjótan enda þegar REI-málið svokallaða komst í hámæli og Vilhjálmur lét af embætti. Fólkið í landinu vissi lítið hvað gekk á, og við kyndlinum tók svo Dagur B. Eggertsson, sem settist í stól borgarstjóra 16. október 2007. Sundrung innan fjögurra flokka meirihlutans varð þess hins vegar valdandi að 24. janúar 2008, 100 dögum eftir embættistöku Dags, tilkynntu Ólafur F. Magnússon og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson að Sjálfstæðisflokkur hefði myndað meirihluta með Ólafi og að Ólafur yrði borgarstjóri hans.
Ólafur var ekki lengi í paradís, því hinn 21. ágúst tók Hanna Birna Kristjánsdóttir við embættinu og gegndi því til loka kjörtímabilsins 15. júní 2010.
Þá kom Gnarr. Mörgum þótti og þykir hann enn trúðslegur stjórnmálamaður, sem á það til að svara spurningum þannig að hann hafi hreinlega ekki nægilega þekkingu á málunum, leggja til í ræðu að vefmyndavélum verði komið fyrir í augunum á styttunni af Ólafi Thors og koma fram í „drag“ í Gleðigöngunni.
Á miðvikudagsmorguninn tryggði hann sér hlustun þjóðarinnar þegar hann og Sigurjón Kjartansson settu Tvíhöfða saman á ný. Undir lok þáttarins, í hverjum þeir bræður skiptust á að hringja inn í þáttinn milli þess sem þeir spiluðu Crass, tilkynnti Jón að hann hygðist hætta í stjórnmálum.
Stjórnmálum lýsti hann sem svo að þau væru eins og leshringur, þar sem enginn ræddi efni bókarinnar sem var lesin, heldur færi djúpt ofan í stafsetningarvillur í útgáfunni. Margir (atvinnustjórnmálamenn) hafa lýst Jóni sem trúði, brandara eða furðufugli sem eigi ekkert erindi í stjórnmál. Það má vel vera, en á hann minna erindi í þau en hver annar? Besti flokkurinn og Jón Gnarr spruttu upp úr stjórnmálaleikhúsi fáránleikans og eru því ekki brandarinn, heldur „punchline“-ið þar sem öllu er snúið á haus, eða heiðarlega litla barnið sem spurði af hverju keisarinn væri ekki í neinum fötum.
Jarðvegurinn sem furðustjórnmálamaðurinn Jón Gnarr spratt upp úr var plægður og vökvaður af þeim sem álíta sig eiga heima í stjórnmálum af alvöru, en tókst að missa trú fólksins. Vonandi að jarðvegurinn verði ekki aftur með því móti að kjósendum finnist „trúðar“ engu verri kostur en hver annar. gunnardofri@mbl.is
Gunnar Dofri Ólafsson