Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
Snjallsímar eru til margra hluta nytsamlegir og það nýjasta í þeim efnum er nýtt app eða smáforrit í símanum sem gerir sjómönnum úti á fiskimiðunum kleift að áætla hversu mikið þeir þurfa að nota af ís til að kæla aflann. Upplýsingar um sjávarhitastig, hitastig í lest, aflamagn og fjölda daga fram að löndun eru slegnar inn í símann og á augabragði bregst smáforritið við og upplýsir um hversu mikið þarf af ís til að kæla aflann niður í 0°C og viðhalda því hitastigi fram að löndun.
Jónas R. Viðarsson, fagstjóri hjá Matís, segir að smáforritið sé tilbúið og nú sé verið að vinna í að hlaða því inn á Google Play, Windows store og IStore. Ætlunin er svo að kynna appið á sjávarútvegsráðstefnunni síðar í nóvember. Auk kynningar verði þar dreift einblöðungi með QR-kóða, sem þurfi aðeins að skanna og þá sæki síminn forritið svo að segja sjálfkrafa.
Skussar inn á milli
„Meginþorri sjómanna stendur sig mjög vel hvað viðkemur kælingu og annarri meðferð afla, en þó finnast enn skussar inn á milli,“ segir Jónas. „Við höfum um árabil brýnt fyrir mönnum að kæla aflann á réttan hátt og appið er ein leið í því verkefni. Til að hamra á mikilvægi kælingar höfum við dreift upplýsingum í dreifibréfum, með fréttum, haldið fundi og útbúið sérstakan reikni á netinu sem þetta smáforrit byggist á og er mjög þægileg leið.“Aðspurður hvort vandinn sé mestur meðal strandveiðisjómanna, segir Jónas að þar sé enn verk að vinna, enda séu þeir að veiðum yfir hásumarið þegar hlýtt er í veðri og fiskurinn ekki upp á sitt besta sökum náttúrulegra aðstæðna. Ófullnægjandi kæling sé hins vegar alls ekki vandamál sem einskorðist við strandveiðisjómenn og full þörf á að brýna fyrir öllum sjómönnum mikilvægi góðrar kælingar.
Tvö þúsund hitamælingar – dæmi um ónýtt hráefni
„Það er ekki tilviljun að fiskveiðiárið byrjar 1. september og við viljum helst ekki að mjög mikið af aflanum sé veitt í júní, júlí og ágúst. Aðilar eins og Matís, Matvælastofnun og Fiskistofa hafa því fylgst mjög vel með kælingu afla yfir sumarmánuðina og hafa til að mynda síðustu fjögur ár verið teknar um tvö þúsund hitastigsmælingar í afla við löndun á hverju sumri. Þær sýna að strandveiðisjómenn svo og aðrir sjómenn hafa tekið sig verulega á og kæling aflans hefur batnað ár frá ári.Samt sem áður sjáum við á hverju sumri ákveðinn hluta sjómanna koma að landi með illa eða allsendis óísaðan fisk sem er allt upp í 14-15 gráða heitur við löndun. Það er í raun ónýtt hráefni,“ segir Jónas.