HOG – Félag Harley-Davidson-eigenda á Íslandi afhenti nýverið Umhyggju, félagi til stuðnings langveikum börnum, 377.800 kr. sem söfnuðust á góðgerðardegi félagsins á Menningarnótt í Reykjavík. HOG hefur í rúman áratug staðið fyrir góðgerðarakstri til styrktar Umhyggju og hefur öll innkoma frá upphafi runnið óskipt þangað. Klúbbfélagar safna fénu með því að hjóla hring um miðborgina með börn og fullorðna á Harley-Davidson-mótorhjólum, gegn vægu gjaldi. Að þessu sinni hjóluðu meðlimir HOG tæplega 500 ferðir. Eins og undanfarin ár lagði Orkan til allt eldsneyti á hjólin.
Á myndinni sést Ragna K. Marinósdóttir, framkvæmdastjóri Umhyggju, taka við styrknum úr hendi Kristjáns Finnssonar, formanns HOG. Á myndinni eru einnig Gunnar Högnason varaformaður og Ragnar B. Ingvarsson gjaldkeri.