Næsta vor verða þrjátíu ár liðin frá því ég hóf störf sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Segja má að þetta hafi verið fyrsta alvöru starfið sem ég tók mér fyrir hendur og ég hefði vel getað hugsað mér að gera blaðamennsku að ævistarfi.
Næstu árin skrifaði ég af og til í blaðið en kom síðan til starfa í stuttan tíma árið 1997 inní Kringlu. Á þeim tíma var Morgunblaðið kraftmeira og öflugra en nokkru sinni.
Núna þegar ég lít til baka, einkum til ritstjórnarinnar í Aðalstræti, minnist ég veraldar sem var. Þrátt fyrir að blaðið væri fyrir nokkru búið að sprengja af sér húsnæðið var mikill sjarmi yfir þeim vinnustað. Aðalstrætið var þá hjarta Reykjavíkur og miðborgin var ennþá miðborg með allar helstu stofnanir, fyrirtæki, verslun og veitingastaði í næsta nágrenni. Tölvutæknin var rétt að hefja innreið sína og ekki margar tölvur á ritstjórninni, enda vélritaði ég fyrsta fréttaviðtalið sem ég tók og raunar mörg þeirra fyrsta sumarið. Á þessum tíma hafði blaðið að mestu hætt að vera flokksblað og sótti fram með öflugum hópi yngri og eldri blaðamanna.
En þetta er ekki veröld sem var einungis af þessum ástæðum.
Fyrsta starfsdaginn minn kom það í hlut Magnúsar Finnssonar fréttastjóra að kynna fyrir mér starfsfólk og helstu deildir blaðsins. Mér er minnisstæð umræða sem átti sér stað í layout-deildinni þar sem ég var leidd í allan sannleika um breytingarnar sem höfðu orðið á útliti blaðsins. Sérstaklega var mér bent á stærð blaðsins, mig minnir að það hafi minnkað um einn sentimetra – eða hafði það stækkað? Eitthvað hafði letrinu líka verið breytt. Ég hafði auðvitað ekki tekið eftir þessum fínlegu en mikilvægu breytingum. Þetta var einmitt kjarni málsins: Morgunblaðið tæki breytingum hægt og örugglega þannig að lesendur tækju raunverulega ekki eftir þeim frá degi til dags. Þannig væri Morgunblaðið í stöðugri þróun í takt við samfélagið en það væri Morgunblaðið sem stjórnaði ferðinni. Og Morgunblaðið var ótvírætt í fararbroddi á þessum árum. Þetta var ekki tími stökkbreytinga og ekki heldur neinn staður fyrir byltingar.
Þess vegna er þetta veröld sem var – veröld sem kemur líklega aldrei aftur.
Mogginn ræður ekki lengur ferðinni heldur þarf rétt eins og aðrir fjölmiðlar að bregðast við, ekki aðeins stórstígum tækniframförum heldur síkviku samfélagi, svo ekki sé minnst á harða samkeppni úr öllum áttum.
Þrátt fyrir þetta hefur Morgunblaðið náð hundrað ára aldri. Blaðið, sem hefur lagt sig fram um að segja fréttir af nánast öllum þeim Íslendingum sem náð hafa tíræðisaldri, hefur sjálft náð þessum merka áfanga. Líkt og aðrir í þessum sporum hefur Morgunblaðið afrekað margt á langri ævi, það hefur komið fjölmörgum til manns og lifað glæsileg blómaskeið. Það hefur einnig gert sín mistök og núna er framtíðin óviss líkt og hjá flestum sem ná þessum aldri.
Þó að ég hafi í raun ekki starfað mjög lengi á Morgunblaðinu hafði starfið og fólkið sem ég kynntist þar mjög mótandi áhrif á mig. Þar eignaðist ég góða vini. Á þessum tímamótum minnist ég samstarfsins við Morgunblaðið með hlýju.
Vissulega virðast blómaskeiðin að baki en samt er aldrei að vita nema það besta sé ennþá eftir.