[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Víðir Sigurðsson vs@mbl.

Handbolti

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

„Þetta var tæpt í lokin en hafðist gegn góðu liði Austurríkis og ég er sérstaklega ánægður með frammistöðu liðsins í fyrri hálfleiknum,“ sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari karla í handknattleik, við Morgunblaðið eftir sigur á Austurríkismönnum, 29:28, í fyrri vináttulandsleik þjóðanna sem fram fór í Linz. Liðin mætast aftur þar í kvöld.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 11 mörk fyrir Ísland, sjö þeirra á fyrstu 20 mínútunum, og Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði 6 mörk.

Ísland náði mest sjö marka forystu í fyrri hálfleik, 14:7, og var yfir, 20:15, í hálfleik. Eftir að hafa komist í 24:18 missti íslenska liðið niður forskotið, Austurríki, undir stjórn Patreks Jóhannessonar, jafnaði í tvígang, en Ísland komst tveimur mörkum yfir á ný og hélt fengnum hlut í lokin þó heimamenn minnkuðu muninn tvívegis í eitt mark.

„Markvarslan hjá báðum liðum var lítil í fyrri hálfleik en okkar varnarleikur var hinsvegar mjög góður og nýtingin góð í sókninni. Guðjón klikkaði ekki á skoti í fyrri hálfleiknum,“ sagði Aron.

Arnór fór meiddur af velli

Arnór Atlason meiddist um miðjan fyrri hálfleik og lék ekki meira eftir það. „Hann fékk högg á hnéð og við vitum ekki enn hvað það er, en það er óvíst að hann spili seinni leikinn. Við erum þó bjartsýnir á að það sé ekkert alvarlegt. Það var slæmt að missa hann, breiddin var ekki of mikil fyrir, og við lentum í ýmsum vandræðum í seinni hálfleiknum. En liðið sýndi mikinn karakter á lokamínútunum,“ sagði Aron.

Allir spiluðu nema Róbert

Hann náði að tefla fram 15 leikmönnum af 16 í leiknum, aðeins Róbert Aron Hostert kom ekkert við sögu. „Ásgeir var frábær í fyrri hálfleiknum, Bjarki Már Gunnarsson spilaði allan tímann í vörninni og þeir Ólafur Guðmundsson og Árni Steinn Steinþórsson talsvert í sókninni. Stefán Rafn Sigurmannsson kom fyrir Guðjón síðustu 10 mínúturnar og Kári Kristján kom þá sterkur inná línuna. Við notum þessa leiki til að æfa vissa hluti fyrir EM og skoða leikmenn, og þeir nýtast okkur mjög vel í það,“ sagði Aron en íslenska liðið hefur æft í Linz síðan á mánudag og kemur heim á morgun.

Björgvin Páll Gústavsson lék í 50 mínútur í markinu og varði 12 skot en Aron Rafn Eðvarðsson lék í tíu mínútur og varði eitt skot. Heildarmarkaskor liðanna má sjá á bls. 2.