Á rösklega fjögurra áratuga ferli Freysteins Jóhannssonar í blaðamennsku stendur margt upp úr. Stórslys voru erfið, en gaman þegar mannbjörg varð.
Á rösklega fjögurra áratuga ferli Freysteins Jóhannssonar í blaðamennsku stendur margt upp úr. Stórslys voru erfið, en gaman þegar mannbjörg varð. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Karl Blöndal | kbl@mbl.is Freysteinn Jóhannsson á að baki rúmlega fjörutíu ára feril í blaðamennsku og hápunktarnir eru margir. Starfið gat verið erfitt þegar harmur var að kveðinn, en að sama skapi gaman þegar mannbjörg varð.

Brúnin lyftist á Freysteini Jóhannssyni þegar hann sér Ragnar Axelsson ljósmyndara í gættinni. Freysteinn var blaðamaður og fréttastjóri á Morgunblaðinu í rösk fjörutíu ár og við að sjá Ragnar hrúgast upp minningar. „Ég veit ekki hve oft ég blótaði Freysteini fyrir að senda mig út í eitthvert óveðrið,“ segir Ragnar. „En alltaf náðist myndin.“

Eitt sinn hringdi Freysteinn í Ragnar. Þá hafði leit staðið lengi yfir að flugvél, sem fórst á Arnarvatnsheiði skammt frá Fornahvammi sumarið 1981 og var talið að flakið væri fundið. „Þú rétt ræður hvort þú kemur ekki með mynd,“ sagði Freysteinn áður en Ragnar flaug út í sortann. Hann náði mynd úr lítilli hæð þar sem björgunarmenn voru að ganga út úr þyrlu Landhelgisgæslunnar.

„Það var ekki fyrr en myndirnar voru framkallaðar að það sást að lík þeirra, sem fórust, lágu við brakið úr vélinni,“ segir Freysteinn, sem þá var á fréttastjóravakt. „Ég ákvað að tússa yfir líkin áður en ég sýndi ritstjóranum myndina. Einhverjir eigendur blaðsins sátu á fundi hjá Matthíasi Johannessen og voru m.a. að velta fyrir sér hvort ætti að birta myndina. Matthías varði það og sagði að þetta væri fréttamynd. Þegar Matthías sagði mér frá umræðunum sýndi ég honum myndina sem við birtum og myndina eins og hún leit út áður. Svona sýnir Morgunblaðið virðingu þegar þarf að birta erfiðar myndir.“

Freysteinn starfaði við blaðamennsku í rúma fjóra áratugi. „Ég byrjaði í blaðamennsku '67 á hátíðisdegi verkalýðsins,“ segir hann. „Ég var svo á Morgunblaðinu eins og límdur þar til ekki var pláss fyrir okkur Davíð báða.“

Freysteinn rifjar upp að nokkru áður en hann hætti á Morgunblaðinu hafði Davíð Oddsson hætt sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Freysteinn tók þá viðtal við Davíð sem birtist í sérstökum kálfi sem fylgdi Morgunblaðinu. „Á leiðinni á landsfundinn gaf hann sér tíma til að hringja í mig og þakka mér fyrir því honum þótti vænt um þetta. Næst þegar við hittumst var ég að labba út af Mogganum og hann inn. Þá sagði hann við mig: „Þetta eru skrítin örlög hjá okkur, Freysteinn minn.“ Svo löbbuðum við hvor í sína áttina.“

Dvöl Freysteins á Morgunblaðinu var þó ekki alveg samfelld. Í tvö ár, 1973 til 1975, var hann ritstjóri Alþýðublaðsins og síðan ritstjórnarfulltrúi á Tímanum í eitt ár. Hann sneri aftur á Morgunblaðið 1977 eftir veruna á Tímanum og 1981 verður hann fréttastjóri í innlendum fréttum ásamt Magnúsi Finnssyni og Sigtryggi Sigtryggssyni og síðar bættist Ágúst Ingi Jónsson við. Tóku þeir við af Birni Jóhannssyni. „Björn Jóh. var ægilega montinn af því að hann var einn fréttastjóri og svo komum við þrír,“ segir Freysteinn. „Honum þótti alltaf gaman að geta þess að hann væri þriggja manna maki minnst.“

Freysteinn kom eins og gefur að skilja víða við á blaðamannsárum sínum. Um sinn hafði hann stjórnmálin á sinni könnu en Magnús Finnsson var með verkalýðsmálin.

Heimildarmenn í öllum flokkum

„Maggi var með sína trúnaðarmenn í verkalýðsfélögum og ég var með menn í öllum flokkum sem töluðu við mig,“ segir hann. „Lúðvík Jósepsson leyfði flokksmönnum sínum þó ekki að tala við mig þegar hann var formaður Alþýðubandalagsins og sagði þeim að það væri ekkert að marka það sem ég skrifaði. Raunverulega ástæðan var sú að hann vildi sitja einn að því að tala við mig.“

Freysteinn starfaði hjá Skáksambandi Íslands sem blaðafulltrúi í einvígi Bobby Fischers og Boris Spassky 1972 og skrifaði árið eftir bók um einvígi aldarinnar, Fischer gegn Spassky, sem nú er illfáanleg.

„Ég kynntist Spassky og Fischer,“ segir hann. „Spassky var mikill kúltúristi og fágaður, en ég áttaði mig aldrei á Fischer, hvort hann væri sinnisveikur eða ekki. Sennilega var hann það, en hann var snillingur. Fischer vildi ráðskast með sitt umhverfi. Einu sinni hringdi hann um miðja nótt í Guðmund G. Þórarinsson og vildi fara í Laugardalshöll út af lýsingunni. Daði ljósameistari var kvaddur til og spurði Fischer hvernig hann vildi hafa þetta, hann gæti stillt hverja einustu peru nákvæmlega eins og skákmeistarinn vildi. Þegar Fischer sá að hann gæti ekki hleypt öllu í hnút með aðfinnslum sínum hljóp hann út.

Fischer gat með einum leik á skákborðinu opnað heilu ævintýraheimana. Spassky sagði að allan seinni hluta einvígisins hefði hann haldið að hann væri með Fischer, en hann hefði alltaf sloppið. Fischer sagði að Spassky hefði dottið niður á nokkra leiki, en úrslitin aldrei verið í vafa.“

Þá varð ég hræddastur um ævina

Freysteinn rifjar upp atvik úr eldgosinu í Eyjum þegar hann fylgdi ljósmyndara National Geographic ofan í gíginn.

„Ég var í forláta regnkápu, sem ég hafði fengið lánaða hjá Magnúsi Finnssyni,“ segir hann. „Þegar við vorum komnir ofan í gíginn fór að drynja í öllu og við tókum á rás upp úr gígnum svo það sást ekki einu sinni slóð eftir okkur. Þá varð ég hræddastur um ævina. Þegar við vorum komnir upp úr fann ég að mér var orðið heitt á bakinu. Ég fór úr kápunni og þá hafði komist glóð í hana og var komið stærðar brunagat. Magnúsi brá þegar hann sá úlpuna, en hann fékk hana bætta.“

Freysteinn segir að einn merkilegasti atburðurinn á ferli sínum í blaðamennsku hafi verið þegar hann fór til Indlands í ágúst 1971 og horfði upp á fæðingu Bangladesh-ríkis. „Flóttamannastraumurinn frá Austur-Pakistan eða Bangladesh var stríður allan sólarhringinn og ég kom meðal annars í flóttamannabúðir og sá þá og heyrði ýmislegt sem hefur fylgt mér allt fram á þennan dag,“ segir hann. „Þar á meðal var sagan um flóttafólkið sem áði við vatn. Allir reyndu að láta sem minnst á sér bera því pakistanskir hermenn voru alls staðar á mannaveiðum. Í hópnum var ung móðir með kornabarn sitt sem allt í einu fór að gráta og allir flóttamennirnir litu hver á annan og óttuðust að hermennirnir myndu heyra í barninu og ganga á hljóðið. Enginn sagði neitt en þegar flóttamennirnir héldu áfram ferð sinni lá lítið barn eftir í vatninu. Móðir þess hafði tryggt ferðafélögunum frið til þess að þeir gætu náð til fyrirheitna landsins fyrir líf þessa litla barns.“

Þetta skemmtilega, klámfengna tröll

Þrjú viðtöl standa upp úr á ferlinum í huga Freysteins og öll birtust þau í sérblöðum, sem fylgdu Morgunblaðinu.

„Þau voru við Sigurbjörn Einarsson biskup, Davíð Oddsson og Jón Ásgeirsson tónskáld,“ segir hann. „Þetta voru allt saman aukablöð upp á átta eða tólf síður þar sem var farið yfir feril þessara manna, allt einstakir persónuleikar. Sigurbjörn var náttúrulega þessi mikli ræðusnillingur og andans maður, Davíð eins margbreytilegur og hann er og Jón Ásgeirsson þetta skemmtilega, klámfengna tröll. Ég var fréttastjóri menningarmála um tíma og Jón gerði það þannig að þótt hann væri með tölvu heima hjá sér lét hann aldrei tengja sig inn á Moggann. Hann vildi koma sjálfur með greinina sína og afhenda hana inni á Morgunblaðinu. Þá fór hann eins og stormsveipur um blaðið og æsti upp allt og alla. Ég lagði honum alltaf til góða klámsögu. Ég er ekki að uppljóstra neinu þegar ég segi það. Í sjónvarpinu hafði verið þáttaröð um skóla og einn þeirra var um söngskólann þar sem voru viðtöl við nemendur. Þeir voru spurðir hvort þeir vissu hvað kennararnir væru að bralla á kennarastofunni. Þá segir ein stúlkan: „Jú, jú, hann Jón Ásgeirsson er að segja þeim klámsögur.“ Svo þetta var opinbert. En Jón er líka mikill hugsuður og fræðimaður og svo náttúrulega það mikla tónskáld sem hann er.

Þegar Freysteinn var fréttastjóri í innlendum fréttum var allt þjóðfélagið undir. Þegar hann varð fréttastjóri í menningunni hafði hann afmarkað svið þjóðfélagsins á sinni könnu, en atið var ekki minna.

„Listamennirnir gáfu öðrum ekkert eftir í sjálfselsku og tilætlunarsemi. Þeir gerðu alltaf rosalegar kröfur. Fólk, sem margt var ekki á sömu pólitísku línu og Mogginn og lét mig vita af því, gerði miklar kröfur um að blaðið sinnti því og þess fagi. Oft fékk ég upphringingar á þessa leið: Hann fékk heila tvo dálka, þessi, í blaðinu í dag. Ég spurði á móti hvort þetta væri ekki gott efni. Þá kom svarið: Ég fékk nú bara hálfan dálk. Það var allt í lagi með pólitíkusana, þau hundsbit hrinu ekki á manni, en harka listamannanna kom mér mest á óvart.“

Slys erfiðustu málin

Freysteinn segir að oft hafi hann þurft að glíma við erfið mál á löngum blaðamannsferli.

„Slys voru erfiðustu málin,“ segir hann. „Það var siður á Morgunblaðinu ef einhver fórst að fá myndir af viðkomandi. Ef fleiri en einn fórust stunduðu hin blöðin það að láta okkur safna myndunum og fá þær svo lánaðar hjá okkur. Nokkrum sinnum ræddi ég þetta við Matthías og kom aldrei annað til greina hjá honum en að við lánuðum þeim myndir. Ég spurði hvort hann héldi að þeir myndu lána okkur myndir af öðrum tilefnum, en hann sagði að við ættum ekkert að ætlast til slíks.“

Oft voru sporin þung þegar þurfti að útvega myndir. „Ég man sérstaklega eftir að hafa þurft að fá mynd af ungu barni, sem hafði farist, hjá afa þess og ömmu á heimili í Reykjavík. Þá situr móðir barnsins hjá þeim. Þau fara í gegnum myndaalbúm. Fólk vissi af þessari venju okkar og hafði undirbúið sig og jafnvel valið myndir sjálft. Þarna situr móðir barnsins fyrir framan mig – mér fannst þetta erfitt en dáðist líka að því hvað hún var stór í sinni sorg – og réttir mér mynd af barninu sínu: Heldur þú að þessi mynd passi í Morgunblaðið. Ég sagði við hana: Þú velur þá mynd, sem þú vilt, það passa allar myndir í Morgunblaðið.“

En blaðamennskan var líka gefandi. „Biddu fyrir þér, allt það fólk, sem maður kynntist. Mér er alltaf minnisstætt þegar maður missti bát sinn á Breiðafirði, komst ásamt skipsfélögum sínum í björgunarbát og fannst eftir að hafa velkst um í klukkutíma. Ég næ sambandi við manninn, Ólaf Tryggvason, skipstjóra á Stapa, þegar hann var kominn í land og spyr hvort þetta hafi ekki verið ömurlegur klukkutími. Þá horfir þessi maður á mig og segir: „Þetta var sextíu mínútna klukkutími.“ Mér fannst þetta lýsa viðhorfi mannsins, hvað hann var rólegur og æðrulaus, og setti í fyrirsögn á Mogganum og hlaut mikið skens fyrir. Menn sögðu að ég væri hinn nýi Einstein og hefði uppgötvað að klukkutíminn væri sextíu mínútur og full ástæða væri til að hafa það í stórri og mikilli fyrirsögn á útsíðu Morgunblaðsins. Það var ofsalega gaman í svona málum þegar allt fór á besta veg og menn björguðust.“