Jón Gnarr Var snilldarlega fyndinn í Tvíhöfða.
Jón Gnarr Var snilldarlega fyndinn í Tvíhöfða.
Ófáir borgarfulltrúar og stjórnmálamenn hafa mjög líklega hlustað á Tvíhöfðaþáttinn á Rás 2 þar sem Jón Gnarr tilkynnti þá ákvörðun sína að gefa ekki kost á sér til endurkjörs sem borgarstjóri í Reykjavík.

Ófáir borgarfulltrúar og stjórnmálamenn hafa mjög líklega hlustað á Tvíhöfðaþáttinn á Rás 2 þar sem Jón Gnarr tilkynnti þá ákvörðun sína að gefa ekki kost á sér til endurkjörs sem borgarstjóri í Reykjavík. Jón hefur verið ógleymanlegur borgarstjóri og hefur tekist að gera stjórnmálin manneskjulegri. En hann er líka ógleymanlegur grínisti, eins og þessi þáttur sýndi. Þar brá Jón sér í hlutverk nokkurra hlustenda sem hringdu til að segja skoðun sína á borgarstjóranum og ýmsum málum. Jón fór hreinlega á kostum í túlkun sinni á manngerðum sem endurspegluðu svo vel íslenska þjóðarsál. Jón er gamanleikari á heimsmælikvarða, eins og hann hefur svo margoft sannað. Slíkur listamaður á ekki að segja skilið við listina í of langan tíma og þess vegna er rétt að gleðjast yfir ákvörðun Jóns Gnarr. Samt er maður um leið dálítið leiður því það var bæði gott og gaman að hafa Jón Gnarr sem borgarstjóra. Og það er ekki hægt annað en að virða óendanlega mikið mann sem hefur pólitísk völd en afsalar sér þeim vegna þess að hann vill sinna listsköpun. Það eru ekki til margir slíkir menn.

Kolbrún Bergþórsdóttir

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir