Sveitahótel Gunnar, Emilía, Hrafn og Ingibjörg Vala við hótelið. Með þeim á myndinni eru hundarnir Mía og Hrói.
Sveitahótel Gunnar, Emilía, Hrafn og Ingibjörg Vala við hótelið. Með þeim á myndinni eru hundarnir Mía og Hrói. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnar Dofri Ólafsson gunnardofri@mbl.

Gunnar Dofri Ólafsson

gunnardofri@mbl.is

„Það vita engir Íslendingar af þessu, 99,9% af öllum sem koma til okkar eru erlendir ferðamenn allstaðar að úr heiminum,“ sagði Gunnar Norðdahl, en hann og kona hans, Emilía Sturludóttir, tóku sig upp og fluttu úr Garðabæ, ásamt 10 ára dóttur sinni, Svölu Norðdahl, að Hróarslæk á Rangárvöllum, í 10 mínútna fjarlægð frá Hellu. Þar opnuðu þau Hótel Læk og sonur þeirra og tengdadóttir, Hrafn Norðdahl og Ingibjörg Vala Sigurðardóttir, fluttu síðan til þeirra nokkru síðar.

„Við fengum góða kynningu í einhverju bresku blaði,“ sagði Gunnar, og rifjar svo upp að umrætt blað hafi verið ferðadálkur netútgáfu breska dagblaðsins The Telegraph. Hann virðist ekki kippa sér mikið upp við það.

„Þeir völdu þetta sem einhvern besta stað í heiminum til að sjá norðurljósin,“ bætir hann við í framhjáhlaupi, en lýsir þeim mun líflegar norðurljósunum sem lýstu upp himininn tveimur dögum áður en Morgunblaðið bar að garði. „Þetta var eitthvað það rosalegasta sem ég hef séð, þau voru fjólublá og dansandi, alveg rosaleg. Svo er bókstaflega engin ljósmengun hérna. Fyrir þá sem koma bara til að gista er þetta ekkert sérstakt, en þeir sem borða hérna, fara á hestbak og svoleiðis þá er það alveg smollið inn.“

Niðurnítt fjárhús og hlaða

Hann sagði hótelið vera í húsi sem áður var fjós, hlaða, fjárhús og vélageymsla og vart hægt að þekkja gamla húsið á myndum, svo miklar eru umbæturnar. „Í fyrra vorum við bara þrjú hérna, við hjónin og Svala. Hrafn og Ingibjörg komu svo síðar. Þetta er orðin hálfgerð fjölskyldukommúna hérna og fjölskyldan var mjög samstíga um að gera þetta. Ég var í ár áður en þær komu að smíða,“ sagði Gunnar, en til viðbótar eiga þau tvö börn sem eru við nám í Reykjavík.

Gunnar seldi rúmaverslunina Rekkjuna árið 2008. „Ég hafði verið í allskonar smárekstri áður en var ekki búinn að gera neitt í nokkur ár eftir að ég seldi. Ég ætlaði alltaf að fara að gera eitthvað, en það var erfitt.“

Hróarslæk keyptu þau árið 2011. „Við áttum sumarbústað hérna rétt hjá og keyrðum alltaf hérna framhjá. Við eigum fjögur börn og Emilía rak ásamt fleirum leikskólann Kjarrið í Garðabæ, sem svo missti húsnæðið. Þá ákváðu þær að hætta, þannig að við vorum bæði laus,“ sagði Gunnar.

Keypti jörð á tveimur vikum

„Við fjölskyldan fengum lánað hjólhýsi eitt sumarið og fórum vestur á Snæfellsnes þar sem félagi minn rekur sumarhótel í heimavistarskóla sem heitir Hótel Eldborg. Veðrið var svo gott að við enduðum á að vera þarna í heila viku,“ sagði Gunnar. „Fjölskyldan hans vann þarna og þetta var allt svo gaman. Þá fékk ég hugmyndina að því að gera þetta. Tveimur vikum seinna var ég búinn að kaupa þessa jörð. Við fengum fyrstu gestina í ágúst í fyrra, Friðrik á Hótel Rangá, sem hefur verið okkur mjög hjálplegur, sendi tökulið kvikmyndarinnar Noah til okkar því það var allt fullt hjá honum. Hann hefur verið okkur mjög hjálplegur. Síðan kom fólkið sem gerði Thor 2. Hótelið var bara hálfklárað þá, þannig að við héldum bara áfram að smíða þegar þau fóru og opnuðum fyrir alvöru 2. febrúar. Síðan þá hafa verið gestir hérna nánast alla daga. Ef eitthvert herbergi var tómt síðasta sumar, þá var það af því að ég hafði klúðrað einhverri afbókun,“ sagði Gunnar og hló.

„Friðrik benti okkur að hótel verði að hafa sérstöðu. Okkar sérstaða er að gera þetta eins vel og við getum og við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð við því.“

Hugsar stundum til lattesins

„Það kom alveg fyrir í sumar að mig langaði að fara á bland.is og auglýsa hótelið til sölu fyrir þúsundkall, ég gat bara ekki meira. Auðvitað saknar maður aðeins „caffé lattesins“ og að setjast niður í hádeginu og fá sér hamborgara og tala um veiði. Við höfum bara verið svo upptekin að við höfum ekki mátt vera að því,“ sagði hótelstjórinn Gunnar.

„Ef þið flytjið fer ég ekki með“

„Þetta var auðveldast fyrir hana,“ sagði Gunnar þegar því var velt upp hvort það væru ekki viðbrigði fyrir tíu ára gamla dóttur hans að flytja úr borg í sveit og vera sótt af skólabíl á morgnana. „Þegar við vorum búin að vera hérna í nokkra mánuði spurði ég hana hvort hún vildi flytja aftur til Reykjavíkur, því hún hafði einstaka sinnum farið í gamla bekkinn sinn. „Ef þið flytjið þá fer ég ekki með“ svaraði hún. Hér vill hún bara vera.“

Norskur herragarður við Hellu

Byggingafélagið Sandfell, félag Hreiðars Hermannssonar, stendur að byggingu 128 herbergja hótels við Hellu. „Þetta er ekki hefðbundið hótel, heldur hugsað miklu frekar eins og til dæmis norskur herragarður með einu stóru tveggja hæða öflugu framhúsi með stórum svölum. Síðan byggjum við 8 til 12 hús sem tengjast aðalbyggingunni með glergöngum,“ segir Hreiðar.

Hann segir mikla eftirspurn eftir herbergjum og strax farið að spyrja hvenær tekið verði við bókunum. „Stórar ferðaskrifstofur eru byrjaðar að hafa samband og eru á undan áætlun. Þarna verður alls konar afþreying, 16 heitir pottar og margt fleira.“ gunnardofri@mbl.is

Sveitin á svæði sextán

„Það sem einkennir okkar útköll er að þau eru sjaldan stutt, yfirleitt þurfum við að keyra í 2-3 tíma til að komast á vettvang,“ segir Svanur Sævar Lárusson formaður Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu.

Í sveitina eru 108 skráðir félagar sem að sögn Svans er afar hátt hlutfall af íbúafjölda svæðisins. Sveitin starfar á svokölluðu svæði 16, sem nær frá Þjórsá að Skeiðará og inn á Sprengisand. „Okkar útköll eru ofboðslega fjölbreytt. Vegna þess hvernig svæðið okkar er þurfum við að reka fjölbreyttan tækjaflota; við erum t.d. með snjóbíl sem er útbúinn sem sjúkrabíll, sexhjól, snjósleða og bát, auk jeppa.“

Sveitin fer í 40-50 útköll á ári hverju. Flest þeirra eru á vorin og haustin og snúast aðallega um að sinna þeim sem fest hafa bíla sína á lokuðum vegum. „Svo förum við í eina til tvær lengri leitir á ári hverju. Og þó að við séum skilgreind á tilteknu svæði, þá erum við auðvitað kölluð út um land allt, rétt eins og allar aðrar björgunarsveitir á landinu.“ annalilja@mbl.is

Stofnað af átta Rangæingum árið 1969

Glerverksmiðjan Samverk er eitt stærsta iðnaðarfyrirtæki á Hellu og í nágrenni. Samverk fagnar brátt 45 ára afmæli sínu, fyrirtækið var stofnað í janúar 1969 af átta heimamönnum í Rangárþingi sem vildu efla iðnað í heimabyggð.

Samverk hefur alla tíð verið rekið af sömu aðilum og þar starfa nú 35 manns, margir hafa verið þar nánast frá upphafi. Ragnar Pálsson er framkvæmdastjóri og aðaleigandi Samverks. „Við framleiðum gler, bæði innanhúss og utan og allt okkar gler er sérsmíðað,“ segir Ragnar.

Hann segir ýmsar nýjungar hafa litið ljós í heimi glersins á þeim tæpu 45 árum sem Samverk hefur starfað. „Við erum t.d. með nýjar glertegundir sem minnka orkutap, glerið er með húð sem minnkar orkutap.“

Samverk starfar náið með ýmsum arkitektum og hönnuðum. Málað gler nýtur sívaxandi vinsælda í hönnun að sögn Ragnars, en það er m.a. notað á heilu veggina, á skáphurðir og á milli eldhússkápa. „Það eru sífellt fleiri sem átta sig á möguleikum glers. Tæknin er líka orðin þannig að það er hægt að verða við svo mörgum óskum,“ segir Ragnar. annalilja@mbl.is

Breyta leiðum og skipulagi

• Aðgengi og aðstaða á ferðamannastöðum er í endurskoðun • Steinsholt er ráðgjafarfyrirtæki á Hellu Vernd á slitflötum náttúrunnar og bætt aðstaða ferðamanna á fjölförnum stöðum eru meðal útgangspunkta í skipulagsmálum í dag. Þetta segir Gísli Gíslason landslagsarkitekt sem rekur ráðgjafarstofuna Steinsholt sf. á Hellu. Þar vinna fjórir starfsmenn að ýmsum verkefnum á sviði skipulagsmála, landslagshönnunar og landnýtingar.

„Þessi starfsvettvangur hefur breyst mikið síðustu árin,“ segir Gísli. „Ég starfaði hjá Náttúruverndarráði fyrir um 25 árum og verkefnin þá voru lík trúboðsstarfi. Hljómgrunnur fyrir því að vernda náttúru landsins, friða svæði og vernda og búa í haginn fyrir komandi kynslóðir var takmarkaður. Í dag hafa hins vegar flestir tekið trú, ef svo má segja, og áhugi á umhverfis- og skipulagsmálum er mjög almennur, enda leggja sveitarfélögin áherslu á að sem flestir geti komið að borðinu og lagt orð í belg þegar ákvarðanir í þessu málum eru teknar.“

Gísli var í áraraðir einn eigenda Landmótunar og starfaði þar mikið að skipulagsmálum, m.a. fyrir sveitarfélög á Suðurlandi. Þau verkefni tóku fljótlega annað yfir og svo fór í fyllingu tímans að Gísli flutti með konu sinni austur í Holt og stofnaði í framhaldinu fyrirtæki sitt, Steinsholt, en svo heitir einmitt nýbýlið sem hann byggði út úr landi Lækjartúns, skammt frá Þjórsárbrú.

Endurskoða aðgengi

„Ferðamönnum fjölgar og sveitarfélögin hafa þurft að bregðast við því með ýmsum framkvæmdum og þar er vandaður undirbúningur mjög mikilvægur,“ segir Gísli. Hann vinnur með sínu fólki að stefnumörkun í ferðaþjónustu í Þjórsárdal, endurskoðun gönguleiðar á Eldfell í Eyjum og móttöku ferðamanna við Seljalandsfoss undir Eyjafjöllum og breytt skipulag við Landmannalaugar. Svo mætti áfram telja.

„Meginlínan í öllum þessum verkefnum er sú að bíllinn verði færður fjær perlum náttúrunnar, lagðir verði góðir göngustígar og ný og endurbætt aðstaða byggð upp. Hún getur þá hugsanlega verið í útjaðri kjarna svæðisins. Við Seljalandsfoss eru bollaleggingar um að byggja þjónustumiðstöð nokkuð frá fossinum sjálfum. Hefði hún þá miðlægt hlutverk í ferðaþjónustu á Suðurlandi, en vegurinn að Landeyjahöfn er þarna örskammt frá,“ segir Gísli og heldur áfram: „Þá eru líka ýmsar bollaleggingar um Fjallabakssvæðið; svo sem að meginaðstaðan á svæðinu verði ekki í Landmannalaugum, heldur á jöðrum hálendisins þar sem grundvöllur er fyrir rekstri allt árið. Hlífa þarf þeim við álagi, til dæmis að greiða leið að fleiri áhugaverðum stöðum á þessu svæði. Laugavegurinn sem þúsundir ganga á hverju einasta ári er kominn að þolmörkum og því er mikilvægt að skilgreina nýjar áhugaverðar leiðir til að dreifa álaginu á ný svæði. .Þær leiðir þarf að kynna og marka betur, og því og fleiru vinnum við að um þessar mundir.“

Hella er miðsvæðis á Suðurlandi

Eðli þeirra verkefna sem Steinsholtsfólk sinnir er þess eðlis að starfseminni er vel fyrir komið á Hellu. „Að ég flutti hingað austur var þannig til komið að eitt leiddi af öðru. Okkur langaði líka að breyta til og flytja út á land. Öðruvísi en margur hefði ætlað hefur verið litlum vandkvæðum bundið að fá fólk með menntun til starfa, til dæmis landfræðinga og skipulagsfræðinga sem starfa hjá Steinsholti. Og allt er þetta fólk sem á rætur og býr hér á svæðinu, þó enginn búi á Hellu. Staðurinn er hins vegar mjög miðsvæðis á Suðurlandi. Og það skapar gott jafnvægi í starfsemi sem hér er vel fyrir komið,“ segir Gísli.

sbs@mbl.is

Á mánudaginn

Reykholt er næsti viðkomustaður 100 daga hringferðar Morgunblaðsins.