Sýning Hálfdan Henrysson, varaformaður Sjómannadagsráðs, mun veita leiðsögn um sýninguna í Víkinni ásamt fleirum í dag og á morgun.
Sýning Hálfdan Henrysson, varaformaður Sjómannadagsráðs, mun veita leiðsögn um sýninguna í Víkinni ásamt fleirum í dag og á morgun. — Morgunblaðið/Kristinn
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Starfsmenn Hrafnistu og fulltrúar í Sjómannadagsráði ætla að veita leiðsögn um sýningu í Sjóminjasafni Reykjavíkur, Víkinni, í dag og á morgun milli klukkan 14.00 og 16.00.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Starfsmenn Hrafnistu og fulltrúar í Sjómannadagsráði ætla að veita leiðsögn um sýningu í Sjóminjasafni Reykjavíkur, Víkinni, í dag og á morgun milli klukkan 14.00 og 16.00. Aðgangur að sýningunni verður ókeypis á meðan leiðsögnin er veitt.

Sýning Sjómannadagsráðs og Hrafnistu í Víkinni var opnuð í sumar í tilefni af því að 75 ár voru þá liðin frá stofnun Sjómannadagsráðs Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Nú líður að lokum sýningarinnar.

„Á sýningunni er farið yfir 75 ára sögu Sjómannadagsráðs og sjómannadagsins,“ sagði Hálfdan Henrysson, varaformaður Sjómannadagsráðs. „Þarna er sýnt herbergi á Hrafnistu, eins og þau voru þegar Hrafnista var tekin í notkun, og eins og þau eru núna. Fólki þykir merkilegt að sjá það.“

Sjómannadagsráð var stofnað að frumkvæði Henrys Hálfdanssonar, föður Hálfdans. Hann þekkir því vel til sögu og starfs Sjómannadagsráðs frá fyrstu tíð. Með stofnun Sjómannadagsráðs hófst mikil sókn gegn sjóslysum við Íslandsstrendur.

Nöfn 3.445 manns sem fórust í sjóslysum hér við land á árunum 1900 til 1999 hafa verið letruð á einn vegg sýningarinnar. Á árunum 1900 til 1925 fórust að meðaltali 70 sjómenn á hverju ári. Næsta áratuginn þar á eftir fórust að meðaltali 44 sjómenn á hverju ári. Þeim fjölgaði mikið á stríðsárunum sem fórust á sjó. Árið 2008 varð það fyrsta í sögu þjóðarinnar, allt frá upphafi Íslandsbyggðar, sem enginn sjómaður fórst við Íslandsstrendur. Fram að því höfðu fleiri eða færri farist í sjó á hverju ári.

„Það er áhrifamikið að sjá þennan nafnalista. Þarna er ábyggilega hægt að finna nöfn úr flestum fjölskyldum á Íslandi, þetta snertir alla,“ sagði Hálfdan. Hann sagði að þakka mætti ýmsu hve sjóslysum hefur fækkað og nefndi Slysavarnaskóla sjómanna, kvótakerfið og breytta útgerðarhætti í því sambandi.

75 ára sigling
» Sjómannadagsráð var stofnað árið 1937. Sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur í Reykjavík árið 1938.
» Dvalarheimili aldraðra sjómanna hafa verið stærsta viðfangsefni Sjómannadagsráðs á sviði velferðarmála.
» Hrafnistuheimili eru þrjú talsins í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi.