Bókajól Það er nóg að gera hjá Bryndísi Loftsdóttur þessa dagana. Hún er á kafi við að undirbúa jólabókaflóðið og allt sem því fylgir.
Bókajól Það er nóg að gera hjá Bryndísi Loftsdóttur þessa dagana. Hún er á kafi við að undirbúa jólabókaflóðið og allt sem því fylgir. — Morgunblaðið/Rósa Braga
Bryndís Loftsdóttir hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda fagnar 43 ára afmæli sínu í dag. Hún deilir afmæli með Morgunblaðinu og segist hafa uppgötvað það sex ára gömul.

Bryndís Loftsdóttir hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda fagnar 43 ára afmæli sínu í dag. Hún deilir afmæli með Morgunblaðinu og segist hafa uppgötvað það sex ára gömul. „Það eru mikil og sterk tengsl þarna á milli, órjúfanleg,“ segir hún í samtali við Morgunblaðið.

„Ég er nú ekki búin að plana neitt sérstakt en er alveg staðráðin í að hafa daginn skemmtilegan,“ segir Bryndís. „Ég ætla að njóta dagsins með fjölskyldunni og geri án efa allt það sem mér dettur í hug.“ Aðspurð hvort hún sé mikið afmælisbarn segir Bryndís að sér finnist skemmtilegra að sjá um afmælisveislur annarra, eins og barnanna sinna. „Mér finnst alltaf vandræðalegra þegar maður er að hugsa um sjálfan sig. En þetta lærist og auðvitað á maður að nota hvert tækifæri til að fagna í þessu lífi og leyfa vinum og vandamönnum að gleðjast með sér.“

Bryndís óskar þess helst að fá bók í afmælisgjöf. „Það fer svo vel á því. Ég þarf líka að fara að lesa núna svo ég geti tjáð mig eitthvað fyrir jólin.“

Bryndís stendur í ströngu þessa dagana við að undirbúa jólabókaflóðið. „Það er alltaf nóg að gera í kringum bækur á þessum árstíma.“ Nú sé til dæmis verið að ganga frá Bókatíðindum og þá styttist í afhendingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna. kij@mbl.is