Síðan ég las einstaklega skemmtilega endurminningabók Vilhjálms Finsen, ritstjóra og sendiherra, Alltaf á heimleið , hefur mér ætíð þótt viss ljómi yfir stofnun Morgunblaðsins.

Síðan ég las einstaklega skemmtilega endurminningabók Vilhjálms Finsen, ritstjóra og sendiherra, Alltaf á heimleið , hefur mér ætíð þótt viss ljómi yfir stofnun Morgunblaðsins. Hvernig þessi föðurlausi, ungi og djarfi maður stóð að verki við að gera hugsjón sína að veruleika. Sótti ráð til reynds aðalritstjóra á dönsku stórblaði, vann við blaðamennsku og fór um heiminn sem loftskeytamaður á stórskipum, til að auka við þekkingu sína og reynslu – búa í haginn fyrir að allt mætti lánast sem best.

Morgunblaðið þótti alla tíð ómissandi á mínu bernskuheimili. Faðir minn, Egill Kristjánsson, var aldrei í essinu sínu, nema vera meðal þeirra fyrstu til að frétta ef eitthvað markvert gerðist. Helst þurfti hann að vita það á undan öðrum og naut þess þá að geta sagt vinum sínum. Það má því nærri geta að uppi varð fótur og fit á heimilinu, þegar Mogginn fór að hverfa úr forstofu fjölbýlishússins á Baldursgötu 36, þar sem sá er bar blaðið út var vanur að henda því inn. Við þessu var óðara brugðist. Faðir minn dreif sig á fætur fyrir allar aldir og beið hnuplarans þolinmóður bak við útidyrahurðina. Til vonar og vara tók hann nýja Moggann um leið og hann kom, en setti gamlan á gólfið við dyrnar í staðinn! Og ég hefði ekki viljað vera í sporum unga mannsins sem eftir alldrjúga bið var þrifið kröftuglega um úlnliðinn á, þegar hann seildist inn um dyragættina í blaðið. Aðgerðin lukkaðist sem sagt fullkomlega og Mogginn var áfram hnökralaust lesinn með morgunkaffinu á heimilinu.

Skemmtileg eftirmál þessa atviks urðu áratugum síðar. Faðir minn var staddur á vinsælu veitingahúsi í bænum á góðri stund. Þá vatt sér að honum maður og kvaðst vera sá sem hefði hnuplað frá honum Morgunblaðinu um árið. Vildi hann þakka honum fyrir að hafa tekið í lurginn á sér, því hver vissi nema það hefði forðað sér frá því að lenda lengra út á þessari braut.

Það var venja foreldra minna að verja sumarleyfum að mestu á æskuslóðum föður míns í Hliði á Vatnsleysuströnd. Þar þurfti stundum að bíða Moggans lengur en föður mínum líkaði. Því bar aldeilis vel í veiði, þegar Kristján bróðir minn, síðar lengi flugstjóri og formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), var að byrja feril sinn í fluginu og kenndi um tíma hjá Flugskólanum Þyt. Gat hann þá kastað Mogganum, stundum glænýjum, niður til föður okkar. Það mun hafa verið fyrsti flugpóstur á Vatnsleysuströnd!

Tengslin við Morgunblaðið urðu ennþá nánari, þegar þannig atvikaðist fyrir tilstuðlan Matthíasar Johannessen að ég varð þar blaðamaður í nokkur ár meðfram laganámi. Á vetrum skrifaði ég þingfréttir og utan þess mest erlendar fréttir en sinnti þó jafnframt, lengur eða skemur, nánast öllu sem vinna þarf á ritstjórn dagblaðs.

Um þingfréttirnar er það að segja, að þótt Morgunblaðið teldist nánast flokksblað Sjálfstæðisflokksins hafði Bjarni Benediktsson haft forgöngu um það sem ritstjóri, að í þingfréttunum skyldi sagt hlutlægt frá ræðum manna hvar í flokki sem þeir stæðu. Þetta mæltist vel fyrir og jók virðingu blaðsins, þótt áfram væri tekist kröftuglega á við pólitíska andstæðinga í leiðurum og Reykjavíkurbréfum sem Bjarni skrifaði af mikilli list. Réttsýni og sanngirni Bjarna var við brugðið. Hann lagði einnig mikið upp úr vönduðum skrifum og öllum frágangi blaðsins, svo að sagt var að hann læsi það stundum frá upphafi til enda. Man ég hann aldrei þyngri á brún en eitt sinn á reglubundnum fundi með blaðamönnunum við upphaf vinnudags, þegar óvenjumargir hnökrar voru á blaði dagsins. Fór hann í gegnum þá hvern af öðrum og brýndi fyrir mönnum vandaðri vinnubrögð. Þetta aðhald skilaði sínu. Hefðu margir fjölmiðlar landsins nú gagn af að njóta slíks.

Í starfi mínu við blaðamennsku fékk ég meiri og betri innsýn í þjóðlífið og erlenda viðburði, og hitti að máli fleira fólk sem læra mátti af, en ég get ímyndað mér að önnur störf bjóði upp á, þótt ekki dygði stundum alveg til að slökkva fréttaþorsta föður míns sem vikið var að í upphafi! Kynnin og samstarfið við það mannkostafólk sem lagðist á eitt um að gera Morgunblaðið að góðu og eftirsóttu blaði voru einnig ómetanleg. Af öllu eftirminnilegu frá þessum ferli gæti vissulega orðið löng saga og hefur margt af því komið mér að góðu gagni í þeim störfum sem ég síðar sneri mér að.