Bílasala Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, er bjartsýnn á að bílasala taki við sér á næstu árum. Mjög mikil endurnýjunarþörf sé til staðar.
Bílasala Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu, er bjartsýnn á að bílasala taki við sér á næstu árum. Mjög mikil endurnýjunarþörf sé til staðar. — Morgunblaðið/Kristinn
Kristinn Ingi Jónsson kij@mbl.is „Ég tel að sala á bifreiðum muni aukast næstu árin.

Kristinn Ingi Jónsson

kij@mbl.is

„Ég tel að sala á bifreiðum muni aukast næstu árin. Enn er nokkuð í að markaðurinn nái fyrri styrk en ég er bjartsýnn á að við vinnum okkur hægt og rólega út úr kreppunni,“ segir Friðbert Friðbertsson, forstjóri bílaumboðsins Heklu.

Hekla fagnar á þessu ári áttatíu ára starfsafmæli sínu en Sigfús Bergmann Bjarnason, betur þekktur sem Sigfús í Heklu, stofnaði Heildverslunina Heklu hf. 20. desember árið 1933.

Í samtali við Morgunblaðið segir Friðbert að reksturinn í ár hafi verið þungur. Bílasala hefur ekki tekið við sér hér á landi eftir hrunið, en sem dæmi hefur sala á nýjum fólksbílum dregist saman um 4,5% það sem af er ári frá sama tímabili í fyrra. Salan var á hægri uppleið fyrr á árinu en dregið hefur verulega úr henni síðustu mánuði.

Bílaflotinn hefur elst

„2013 er afar erfitt ár fyrir bílabransann. Menn bjuggust ekki við neinni uppsveiflu en reiknuðu þó með að salan yrði að minnsta kosti ekki lakari en í fyrra. Nú lítur allt út fyrir að svo verði,“ segir Friðbert.

Hann er þó bjartsýnn á að salan taki við sér, í einhverjum mæli, á næsta ári. „Það er mikil endurnýjunarþörf til staðar. Bílafloti landsmanna hefur elst og er meðalaldur bíla um tólf ár í dag. Ég hef ekki trú á því að Ísland breytist í Kúbu í þessum efnum og að við förum að keyra fjörgamla bíla.

Meðalsala síðustu tuttugu ára er um tíu þúsund nýir bílar á ári. Við verðum sjálfsagt 20 til 25% undir því í ár og er ég ekki viss um að við náum meðaltalinu fyrr en eftir tvö ár, árið 2015.“

- Er ekki raunhæft að ná því á næsta ári?

„Það er ólíklegt. En þetta fer mjög eftir því til hvaða aðgerða stjórnvöld grípa.“

Friðbert hrósar stjórnvöldum fyrir að leggja áherslu á umhverfisvæna bíla. „Stjórnvöld eru áhugasöm um metanbíla og síðan hafa þau lækkað álögur á rafmagnsbíla.“ Hann segir að rafmagnsbílar séu afar dýrir en með aðgerðum stjórnvalda hafi fleiri haft tök á því að nýta sér þá.

Hekla hefur lagt mikla áherslu á rafmagnsbíla en Friðbert segir að þeir hafi afhent átta fyrirtækjum tólf rafbíla í sumar. „Aldrei fyrr hafa svo margir rafbílar verið afhentir á einu bretti á Íslandi,“ útskýrir hann.

„Við teljum að rafbílar eigi sér framtíð á Íslandi. Bæði hefur drægi rafbíla verið að aukast og fer verðið lækkandi.“ Þá muni Hekla kynna enn fleiri rafbíla til leiks á næsta ári.

Friðbert segist hafa mikla trú á rafbílum sem umhverfisvænum borgarbílum og telur að sala á slíkum bílum muni aukast verulega næstu ár.