Íslendingur, sem flúði til Íslands frá Bretlandi fyrir átta árum eftir að hafa verið ákærður fyrir árás á hermann í Canterbury, var handtekinn á Heathrow-flugvelli í Lundúnum í síðustu viku.

Íslendingur, sem flúði til Íslands frá Bretlandi fyrir átta árum eftir að hafa verið ákærður fyrir árás á hermann í Canterbury, var handtekinn á Heathrow-flugvelli í Lundúnum í síðustu viku. Hann kom fyrir dómara í vikunni og hefur verið gert að hefja afplánun. Þetta kemur fram í vefmiðlinum Kent Online.

Íslendingurinn flúði land árið 2005 eftir að hafa verið ákærður fyrir líkamsárás í Howe-herstöðinni í Canterbury.

Dæmdur í eins árs fangelsi

Samkvæmt frétt Kent Online féll dómur í málinu ári síðar og var hann dæmdur í eins árs fangelsi að honum fjarstöddum. Var Íslendingnum gert að afplána í unglingafangelsi þar sem hann var einungis tvítugur að aldri er hann framdi brotið.

Samkvæmt frétt Kent Online býr Íslendingurinn og starfar í Þýskalandi. Hann var handtekinn af breska útlendingaeftirlitinu í síðustu viku eftir að starfsmenn þess á flugvellinum sáu að alþjóðleg handtökuskipun var í gildi á hendur honum.

Verjandi Íslendingsins óskaði eftir því í vikunni að refsingin yfir honum yrði milduð en dómari féllst ekki á beiðnina og verður honum gert að afplána dóminn í almennu fangelsi.

Verjandi Íslendingsins sagði að maðurinn hefði þurft að fara til Íslands til þess að sinna afa sínum þrátt fyrir að vita að hann hefði ekki átt að yfirgefa Bretland vegna ákærunnar. Hann hefði dvalið fjögur ár á Íslandi áður en hann hóf störf hjá fyrirtækinu sem hann starfar nú hjá í Þýskalandi. Þrátt fyrir að hafa ferðast víða hafi hann aldrei verið stöðvaður við landamæraeftirlit og því hafi hann talið að hann hefði ekki verið dæmdur.

Kom átta sinnum til Bretlands

Á síðustu fjórum árum hafi Íslendingurinn komið átta sinnum til Bretlands, að sögn verjandans. Dómarinn sagði að hann ætti erfitt með að trúa því að hann hafi sloppið við handtöku við komuna til Bretlands hingað til nema hann hafi ferðast um á öðru vegabréfi en sínu eigin.

Samkvæmt dómsskjölum var Íslendingurinn dæmdur fyrir aðild að árás á hermann í mars 2005. Var hann einn þriggja sem réðust á hermanninn í herstöðinni, spörkuðu ítrekað í höfuð hans og líkama, samkvæmt ákærunni. guna@mbl.is