Reykjanesbær Nýr íbúavefur verður tekinn í notkun í dag.
Reykjanesbær Nýr íbúavefur verður tekinn í notkun í dag. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Íbúar Reykjanesbæjar geta nú látið í ljós skoðanir sínar og komið tillögum á framfæri í gegnum nýja vefgátt sem formlega verður tekin í gagnið í dag. Íbúavefurinn hefur slóðina rnb.ibuavefur.

Íbúar Reykjanesbæjar geta nú látið í ljós skoðanir sínar og komið tillögum á framfæri í gegnum nýja vefgátt sem formlega verður tekin í gagnið í dag.

Íbúavefurinn hefur slóðina rnb.ibuavefur.is en qr-kóði vefsins er hér að neðan fyrir þá sem líta vilja á vefinn í snjallsíma.

Vettvangur hugmynda

Facebooksíðan Reykjanesbær – Gerum góðan bæ betri, er sá vettvangur þar sem fólk hefur getað komið með ábendingar eða tillögur. Þar má glöggt greina af skrifum íbúa að Íbúavefurinn er kærkomin viðbót við þá þjónustu sem bærinn hefur upp á að bjóða.

Nú þegar má sjá hugmyndir og óskir íbúa um skautasvell í bæinn, tillögur að snyrtilegri ásýnd garða og fleira í þeim dúr.

Á vefnum gefst íbúum kostur á að „leggja inn“ hugmyndir um ýmis mál tengd samfélaginu og ef aðrir íbúar sýna hugmyndinni áhuga eru líkur á að hugmyndin komi til framkvæmda. Í rauninni geta íbúar gefið hugmyndum einkunn.

Ekki beintengt stjórnsýslunni

Vefurinn er ekki í beinni tengingu við stjórnsýslu bæjarins heldur er meginmarkmiðið með honum að skapa umræðugrundvöll þar sem íbúar geta skipst á skoðunum.

Sá sem hefur umsjón með vefnum sér til þess að ábendingarnar berist réttum aðilum innan stjórnkerfisins

Sambærilegar tilraunir með íbúavefi hafa verið gerðar í Rangárþingi eystra og í Reykjavík.

Hlutum kippt í lag

Annar vefur fer í loftið í dag, samhliða íbúavefnum en það er svokallaður ábendingavefur um umbætur í umhverfismálum. Af Facebooksíðu bæjarins að dæma hafa íbúar gjarnan komið með ábendingar um það sem betur mætti fara en með síðunni ætti að vera hægt að koma ábendingum áleiðis með skilvirkari hætti en á samfélagsmiðlinum.

Þegar skrifuð er ábending um umhverfisbætur getur viðkomandi merkt staðsetningu þess sem kippa þarf í lag inn á kort og berast skilaboðin beint til Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar sem vinnur úr ábendingunni.

Slóðin á ábendingavefinn er map.is/dvergur/clients/ath_rnb.

„Mitt Reykjanes“

Alls eru vefsíðurnar fjórar sem eru samtengdar bænum á mismunandi hátt. Íbúar geta farið inn á það sem nefnist „mitt Reykjanes“ en þar er haldið utan um upplýsingar hvers og eins um fasteignagjöld, umönnunargreiðslur og þess háttar. Á sama stað getur íbúi sent formlegt erindi til stjórnsýslunnar.

Fjórði vefurinn er sjálf heimasíða Reykjanesbæjar sem er almennur upplýsingavefur.