Eyjólfur Ólafsson, vörubifreiðastjóri á Þrótti, fæddist 13. apríl 1932 í Stóra-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd. Hann lést 28. desember 2013 á Droplaugarstöðum í Reykjavík.

Hann var sonur hjónanna Ólafs Péturssonar útvegsbónda á Stóra-Knarrarnesi, f. 28. júní 1884, d. 11. október 1964, og Þuríðar Guðmundsdóttur húsfreyju á Stóra-Knarrarnesi, f. 17. apríl 1891, d. 25. febrúar 1974. Eyjólfur var næstyngstur fjórtán systkina. Guðmundur, f. 6. október 1914, d. 28. nóvember 2001. Guðrún Ingibjörg, f. 13. febrúar 1916, d. 27. desember 1995. Ellert, f. 24. apríl 1917, d. 17. janúar 1984. Guðfinna Sigrún, f. 2. júlí 1918, d. 17. mars 2009. Guðmundur Viggó, f. 20. nóvember 1920, d. 15. ágúst 2002. Pétur, f. 26. nóvember 1922, d. 5. mars 1998. Hrefna, f. 16. apríl 1923. Margrét, f. 11. nóvember 1924, d. 27. desember 2012. Ólafur, f. 6. júní 1926, d. 22. júní 1940. Guðbergur, f. 7. ágúst 1927. Bjarney Guðrún, f. 17. desember 1928. Áslaug Hulda, f. 7. júlí 1930. Hulda Klara, f. 10. október 1933, d. 25. apríl 1994.

Hinn 12. júní 1960 kvæntist Eyjólfur Ágústu Högnadóttur, f. 15. desember 1940. Börn þeirra eru: 1) Júlíus Helgi, rafeindavirki og kerfisstjóri, f. 1. maí 1967, eiginkona hans er Svala Huld Hjaltadóttir, f. 11. júlí 1969, og börn þeirra eru Katrín Lilja, f. 5. júlí 2001, og Guðjón Ágúst, f. 31. desember 2008. 2) Elín Ingibjörg, keltneskufræðingur, f. 24. maí 1979.

Eyjólfur byrjaði sem ungþjónn á Hótel Borg, þaðan fór hann yfir á Gullfoss þar sem hann vann einnig sem þjónn um borð. Síðan vann hann ýmis störf til sjós og lands, í byggingariðnaði og sem háseti á Tungufossi þangað til hann gerðist vörubifreiðastjóri 1964. Eyjólfur keyrði síðan eigin bíl frá Vörubílastöðinni Þrótti og var þar þangað til hann lét af störfum vegna veikinda árið 2006. Hann fluttist á Droplaugarstaði 17. desember 2009 og var þar þangað til hann lést. Eyjólfur var í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur um árabil, var félagi í Elliðaárnefndinni, sem sá meðal annars um hreinsun á svæðinu. Hann var mikill áhugamaður um tafl og spilamennsku og vann til fjölda verðlauna. Hann var í Bridgefélagi Hreyfils og tók þátt í mótum atvinnubílstjóra í Noregi og Svíþjóð.

Eyjólfur verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju í dag, 9. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 13.

Hann pabbi var mjög fótviss og frár, fram á sjötugsaldur gat hann þotið upp í vörubílinn sem ekkert væri. Það var því mikið áfall fyrir pabba að fá eins hamlandi sjúkdóm og parkinsons-sjúkdóminn að glíma við. Allt í einu var minnsta hreyfing orðin að átaki og undir það síðasta gat hann rétt svo fært sig milli stóla. Stuttu fyrir jól þegar ég var hjá honum vorum við að tala saman um sjónvarpsþátt þar sem fólk glímdi við að keyra bíla eftir erfiðustu vegum heims. Í þessum þætti var fólkið að feta sig eftir snjóþungum vegi í blindhríð í Kanada.

Þetta var virkilegt ævintýri. Hann var nú á því að ævintýrin væru búin hjá sér í bili. Síðustu ævintýrin hans voru býflugnaævintýrið með Hafberg og útskriftin mín, ári seinna var hann kominn á Droplaugarstaði.

Síðustu fjögur árin voru erfið af því að nú vorum við tvístruð. Vegna veikindanna var pabbi á Droplaugarstöðum en mamma heima. Heimilið var allt í einu á tveimur stöðum. Meðan mamma hafði heilsu til var hún hjá pabba á hverjum degi, en þegar hún veiktist urðu heimsóknirnar færri og yfirleitt bundnar við helgarnar. Eitthvað voru heimsóknir mínar færri, því ég var ennþá í skóla erlendis, allt þangað til í júlí 2012.

En við tók vinnan svo að heimsóknirnar voru aðallega bundnar við helgar, síðan náðum við systkinin að skiptast á að fara til hans í miðri viku. Svo lengi sem veður og heilsa leyfðu vorum við mamma hjá pabba á hverjum laugardegi og sunnudegi. Það var slík laugardagsheimsókn þegar við komum til pabba sem endaði sem kveðjustundin. Við vorum komin öll til pabba, mamma, Júlíus og ég, meira að segja Óli og Munda komu og Guðs mildi að svo var.

Við vissum í hvað stefndi en grunaði aldrei að þetta yrði svona snöggt. Við vorum að undirbúa okkur fyrir kvöldið að sitja hjá pabba og það mátti ekki miklu muna. Ég rétt náði til pabba áður en hann kvaddi alfarið. Ég sat við hlið hans og hélt í hönd hans og lá með höfuðið á koddanum hjá honum. Ég veit að hann vissi að ég var þarna, því þegar hann dró síðast andann snerist höfuð hans eilítið í átt til mín og svo var hann farinn.

Hann skilur eftir sig stórt skarð bæði hjá fölskyldunni og líka á Droplaugarstöðum. Pabbi var einstaklega heppinn með dvalarstað, þar sem yndislegt fólk var á sama gangi og hann og þau sem þar vinna. Lengi vel var sama fólkið með pabba og fjölskyldur þeirra og við hittumst á hverjum degi í kaffitímanum.

Það leið ekki á löngu að fólk fór að kalla staðinn Kaffi Dropa, því þarna var fjörið og stemningin. Ásamt Sigurlaugu, Birgi, Svanhvíti, Guðrúnu og fjölskyldum þeirra mynduðum við litla fjölskyldu. Við skiptumst á að koma með eitthvert lítilræði með kaffinu til að lífga upp á daginn þeirra. Fyrir utan hana Guðrúnu okkar, sem er hundrað ára gamall prakkari, eru þau nú öll fallin frá og er þeirra sárt saknað ennþá, en nýtt fólk hefur komið og farið og tekið sess þeirra sem áður voru. Pabbi átti líka góða spilafélaga á Droplaugarstöðum, þau Edith og Pétur og hann naut þess til síðasta dags að spila við þau.

Elín Ingibjörg.

Nú er hann afi okkar dáinn og viljum við minnast hans með þessu fallega ljóði.

Nú hefur það því miður gerst

að vond frétt til manns berst

Kær vinur er horfinn okkur frá

því lífsklukkan hans hætti að slá

Rita vil ég niður hvað hann var mér kær

afi minn góði sem guð nú fær

Hann gerði svo mikið, hann gerði svo margt

og því miður get ég ekki nefnt það allt

Að tala við hann var svo gaman

á þeim stundum sem við eyddum saman

Hann var svo góður, hann var svo klár

æ, hvað þessi söknuður er svo sár

En eitt er þó víst

og það á við mig ekki síst

að ég sakna hans svo mikið, ég sakna hans svo sárt

hann var mér góður afi, það er klárt

En alltaf í huga mínum verður hann

afi minn góði sem ég ann

í himnaríki fer hann nú

þar verður hann glaður, það er

mín trú

Því þar getur hann vakað yfir okkur dag og nótt

svo við getum sofið vært og rótt

hann mun ávallt okkur vernda

vináttu og hlýju mun hann okkur senda

Elsku afi, guð mun þig geyma

yfir okkur muntu sveima

en eitt vil ég þó að þú vitir nú

minn allra besti afi, það varst þú.

(Katrín Ruth)

Katrín Lilja Júlíusdóttir og Guðjón Ágúst Júlíusson.