Lundar Fuglarnir hafa undanfarin ár átt erfitt með að afla fæðu fyrir sig og lundapysjurnar. Sandsílið hefur brugðist og lundarnir ekki haft neitt æti. Það veldur því að þeir afrækja varpið og lundapysjurnar drepast.
Lundar Fuglarnir hafa undanfarin ár átt erfitt með að afla fæðu fyrir sig og lundapysjurnar. Sandsílið hefur brugðist og lundarnir ekki haft neitt æti. Það veldur því að þeir afrækja varpið og lundapysjurnar drepast. — Morgunblaðið/Eggert
Guðni Einarsson gudni@mbl.is „Þegar á heildina er litið er ekki hægt að segja að útlitið sé bjart fyrir lunda og sandsíli við Vestmannaeyjar.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Þegar á heildina er litið er ekki hægt að segja að útlitið sé bjart fyrir lunda og sandsíli við Vestmannaeyjar. Ef ekki kemur eitthvað algjörlega óvænt upp á, má leiða líkur að því að varpárangur lunda í Vestmannaeyjum fari ekki að lagast fyrr en stofn sandsílis við eyjarnar hefur braggast. Líkur á því að það gerist hratt virðast því miður ekki miklar.“

Þannig eru lokaorð ritrýndrar greinar í nýjasta hefti Náttúrufræðingsins. Heiti hennar er Viðkomubrestur lunda og sandsílis við Vestmannaeyjar. Höfundar eru Kristján Lilliendahl, Erpur S. Hansen, Valur Bogason, Marinó Sigursteinsson, Margrét L. Magnúsdóttir, Páll M. Jónsson, Hálfdán H. Helgason, Gísli J. Óskarsson, Pálmi F. Óskarsson og Óskar J. Sigurðsson.

Í greininni er fjallað um rannsóknir á þróun mála varðandi lundann og sandsílið í Vestmannaeyjum allt frá sumrinu 2005. Þá bárust fregnir af því að varp sjófugla víða um land hefði misfarist. Einkum virtist varp kríu á sunnanverðu landinu og varp lunda í Vestmannaeyjum hafa orðið illa úti. Jafnframt virtist sandsílastofninn hafa beðið hnekki þetta sumar. Árið eftir byrjuðu sandsílarannsóknir og árið 2007 hófust rannsóknir á afkomu lunda við Eyjar.

Orsökin er ekki ljós

Fram kemur að varp lundans hafi gengið misjafnlega illa síðan og varpárangur verið slakur þegar horft er til fjölda þeirra lundapysja sem komust á legg. „Afar lítið hefur verið af ungfugli við eyjarnar, sem venjulega er uppistaðan í veiði á lunda. Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að lundar við Vestmannaeyjar séu háðir aðgengi að sandsíli til að varp takist,“ segir í inngangi.

Þar kemur einnig fram að undanfarin ár hafi ýmist verið of lítið af sandsíli við Vestmannaeyjar eða það hafi verið of langt frá lundavarpinu. Þá er stofn sandsílisins þar í mikilli lægð miðað við nokkur önnur svæði við landið. Aukning í sandsílastofninum við Eyjar hefur verið nánast engin og nýliðun verið lítil. Árið 2007 er undantekning en þá komst upp stór árgangur sandsílis.

Ekki er ljóst hvað olli hruni sandsílastofnsins við Vestmannaeyjar. Talið er að orsakirnar geti verið aukin samkeppni um fæðu, aukið afrán og breytingar í umhverfinu.

Þá segir í greininni að við Vestmannaeyjar virðist vanta aðrar fæðutegundir fyrir lunda sem geti komið í stað sandsílisins. Gera má ráð fyrir að varp lunda í Eyjum gangi illa á meðan stofn sandsílis er lítill. Engin teikn eru um að ástandið lagist í bráð.

Lundi og sandsíli
» Uppistaðan í sumarfæðu sex stærstu sjófuglastofnanna er sandsíli sunnanlands en fyrir norðan er það loðna.
» Ábúðarhlutfall lunda í Vestmannaeyjum var lægst sumarið 2011, um 23% lundaholna voru þá í ábúð.
» Sumarið 2011 afrækti lundinn öll eggin og sumarið 2010 drápust allar pysjur.