Nám „Margir eru í þeim sporum í sínu starfi að vera töluvert einangraðir á vinnustaðnum. Með því að hafa aðgang að kollegum utan vinnustaðarins skapast möguleiki á þessari mikilvægu dínamík, þar sem má læra af mistökum annarra og fá verðmætar ábendingar og innblástur,“ segir Jóhanna.
Nám „Margir eru í þeim sporum í sínu starfi að vera töluvert einangraðir á vinnustaðnum. Með því að hafa aðgang að kollegum utan vinnustaðarins skapast möguleiki á þessari mikilvægu dínamík, þar sem má læra af mistökum annarra og fá verðmætar ábendingar og innblástur,“ segir Jóhanna. — Morgunblaðið/Kristinn
• Símenntun þarf ekki að fara fram í skólastofunni heldur getur líka átt sér stað meðan beðið er eftir strætó • Áskrift að ritrýndu fræðitímariti og þátttaka í öflugum faghópi meðal þess sem má temja sér til að innbyrða stöðugt nýjan starfstengdan fróðleik

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Símenntun á ekki einungis að snúast um að sitja námskeið endrum og sinnum, heldur líka að temja sér að bæta stöðugt við sig þekkingu í daglegu amstri og sækja fróðleik í bæði stórum og smáum skömmtum árið um kring.

Þetta er skoðun Jóhönnu Ellu Jónsdóttur, vinnusálfræðings og ráðgjafa hjá Hugtaki mannauðsráðgjöf.

„Sem dæmi um góða reglu sem fagmenn ættu að tileinka sér er að vera í áskrift að lágmarki að einu ritrýndu fræði- eða fagtímariti á þeirra sviði og fá þannig stöðugt tíðindi af og innsýn í það nýjasta og besta úr faginu,“ segir hún.

Af svipuðum toga er að vera meðlimur í félagsskap fólks úr sömu geira, með sömu menntun eða sömu áhugamál. „Þar gefst iðulega ómetanlegt tækifæri til að læra af öðrum, fræðast um þau verkefni sem aðrir eru að glíma við og sigrast á. Margir eru í þeim sporum í sínu starfi að vera töluvert einangraðir á vinnustaðnum, að því marki að hafa engan vinnufélaga sem hægt er með góðu móti að ræða við um hugmyndir og áskoranir; kannski er kerfisfræðingurinn sá eini í sínu fyrirtæki sem veit eitthvað um tölvumál, eða markaðsfræðingurinn sá eini sem hefur góða þekkingu á lögmálum markaðarins. Með því að hafa aðgang að kollegum utan vinnustaðarins skapast möguleiki á þessari mikilvægu dínamík, þar sem má læra af mistökum annarra, kasta hugmyndum á milli og fá verðmætar ábendingar, athugasemdir og innblástur.“

Þekkingarveitan Facebook?

Sumum hentar að sækja í faghópa á netinu og fá þar beint í æð tengla í áhugaverðar fréttir og líflegar umræður um fagið. Þessir hópar geta verið á spjallborðum á netinu, jafnvel á Facebook eða Twitter. „Sjálf er ég þátttakandi í svona hópi sem sálfræðingar og aðrir fagaðilar héðan og þaðan úr heiminum hafa myndað. Þar er fólk með ólíkan bakgrunn og frá ólíkum geirum en allir með sameiginlegan áhuga á atferlisgreiningu. Sumir eru að gera rannsóknir og tilraunir og segja frá þeim, á meðan aðrir nota þekkinguna úti í atvinnulífinu og miðla reynslu sinni af því.“

Ekki ætti heldur að missa af tækifærum til að læra af öðru fólki á vinnustaðnum. „Vinnumarkaðurinn krefst þess æ meir af fólki að vera sveigjanlegt og fjölhæft. Margt má læra með því að leggja sig eftir því að fá að starfa með rétta fólkinu og fá það um leið til að deila þekkingu sinni og reynslu.“

Alltaf með bók innan seilingar

Jóhanna segir líka til mikils að vinna ef tekst að koma því upp í vana að lesa reglulega lengri rit og bækur með faglegum fróðleik, og alveg sérstaklega ef „dauði tíminn“ fer í lestur. „Ótrúlegt er hversu mikið lesefni er hægt að komast yfir með því að taka fram bók þegar beðið er eftir börnunum að koma út í bíl, eða renna yfir nokkrar síður með kaffibollanum síðdegis. Nútímamaðurinn þarf ekki að burðast um með stór og þung rit hvert sem hann fer heldur hleður ódýrum rafútgáfum inn á lestrartölvuna sína eða jafnvel beint í snjallsímann og er þannig alltaf með lesefnið tiltækt þegar laus stund gefst, þó ekki væri nema í nokkur augnablik. Þeir sem hafa hljóðbók klára í bílnum komast yfir enn meira efni bara með því að aka til og frá vinnu alla virka daga.“

Allir eiga að fara út í heim til að læra

Að mati Jóhönnu ætti fagfólk í sem flestum stéttum að reyna að sækja sér þekkingu til útlanda með reglulegu millibili. Á Íslandi eru náms- og ráðstefnuferðir utanlands ekki álitnar eðlilegur og sjálfsagður hlutur nema hjá örfáum stéttum, og þá jafnvel ekki nema fyrir þá allra fremstu og hæst settu. Jóhanna telur að þeir sem eru neðar í goggunarröðinni eigi líka fullt erindi til útlanda. „Það er rétt að slíkar ferðir geta verið kostnaðarsamar, og kalla bæði á flug, gistingu, námskeiðsgjöld og fjarveru frá vinnustaðnum, en ávinningurinn getur að sama skapi verið mikill. Þeir sem vilja reyna að skara fram úr í starfi ættu að reyna að haga því þannig til að þeir komist út í heim til að mennta sig þó ekki væri nema á nokkurra ára fresti.“

Jóhanna segir erlendar ráðstefnur oft til þess gerðar að miðla ferskustu þekkingunni frá leiðandi fagmönnum á hverju sviði. „En oft er líka um að ræða tækifæri til að kynnast öðru fólki af sviðinu og byggja upp alþjóðlegt tengslanet. Starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja verður alþjóðlegra með hverju árinu og að eiga góða tengiliði á erlendum mörkuðum, jafnvel hafa ræktað gott persónulegt samband, getur gert gæfumuninn til að greiða leiðina að gjöfulum viðskiptatækifærum og samstarfsverkefnum þvert á landamæri.“

Starfsmenn taki virkan þátt

Stjórnandanum er oft vandi á höndum að koma auga á hverjar þjálfunar- og símenntunarþarfir vinnustaðarins eru. Allir vilja eiga starfsmenn sem búa yfir ferskri þekkingu og réttu kunnáttunni til að hafa betur í harðri samkeppninni, en hvar á að byrja og hvað á að læra?

„Það auðveldar oft að skilja betur símenntunarþarfir vinnustaðarins ef ítarlegar starfsgreiningar liggja fyrir og framkvæmdar eru mælingar sem vakta frammistöðu hvers og eins. Kannanir og viðtöl innan vinnustaðarins geta einnig hjálpað til við að leiða í ljós hvar veikleikarnir liggja.“

Jóhanna segir líka rétt að leyfa starfsmönnum að taka sem virkastan þátt í þessu ferli og gefa þeim tækifæri til að tjá sig um hvað þeir vilja læra eða rifja upp. „Ef starfsmennirnir hafa sitt að segja gerist það um leið að þeir verða áhugasamari um þjálfunina og tilbúnir að leggja sitt af mörkum .“