[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.

Baksvið

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Starfsemi fjársvikarans Bernards Madoff sem situr nú í fangelsi hafði vakið spurningar á meðal starfsmanna bankans JPMorgan Chase meira en áratug áður en hann var staðinn að verki fyrir að hafa rekið umsvifamikið „ponzi-svindl“ en þeir létu bandarísk yfirvöld ekki vita, að því er fram kemur í áliti frá saksóknara í New York-ríki í Bandaríkjunum.

Bankinn samþykkti að borga 2,6 milljarða dollara, jafnvirði 304 milljarða íslenskra króna, til þess að forðast málshöfðun fyrir að hafa ekkert aðhafst þrátt fyrir að hafa grunað að maðkur væri í mysunni.

JPMorgan samþykkti að greiða 1,7 milljarða dollara til bandaríska dómsmálaráðuneytisins (199 milljarðar króna), 350 milljónir dollara (41 milljarð króna) til stofnunar á vegum bandaríska fjármálaráðuneytisins sem hefur með málefni banka að gera, 325 milljónir dollara (38 milljarðar króna) til kröfuhafa Madoffs og 218 milljónir dollara (26 milljarðar króna) til hóps sem stóð í einkamálum, segir í frétt Financial Times .

Háar fjárhæðir lagðar til hliðar

Þrátt fyrir að JPMorgan hefði lagt til hliðar 23 milljarða dollara til að takast á við lagavanda, varð bankinn að bæta 400 milljónum dollara í sarpinn í kjölfar samkomulagsins.

Lögmaður á vegum saksóknara í New York segir að sektin sem hljóðar upp á 1,7 milljarða dollara sé hæsta sekt sem banki hafi greitt til þessa.

Í fréttinni segir að JP Morgan, sem sé stærsti banki Bandaríkjanna sé litið til eigna, hafi áður þurft að greiða háar sektir, þar af um tvo milljarða dollara til fórnarlamba Madoffs, sem hafði um 20 milljarða dollara af fjárfestum.

„JPMorgan framfylgdi ekki lagaskyldum og á sama tíma byggði Bernard Madoff risastóra spilaborg,“ segir George Venizelos, sem stýrir skrifstofu FBI í New York. „Þess vegna var bankinn sóttur til saka fyrir glæpsamlegt athæfi. En það var ekki fyrr en Madoff, einn versti þrjótur sem þessi skrifstofa hefur kynnst, var handtekinn, að JPMorgan gerði yfirvöldum viðvart – þegar öll heimsbyggðin vissi orðið af þessu.“

Bankinn tók út fé hjá Madoff

Bandarísk yfirvöld segja, að hefði JPMorgan gert þeim viðvart um grun sinn á sama tíma og bankinn tók 250 milljónir dollara af eigin fjármunum úr sjóðum Madoff hafði verið hægt að bjarga öðrum.

Árið 1996 lokaði annar banki reikningi á vegum Madoffs eftir að hafa rannsakað færslur sem tengdar eru einum af stærstu viðskiptavinum JPMorgan og komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri allt með felldu. Þrátt fyrir að JPMorgan hafi haft illan grun allt frá árinu 1994, leyfði bankinn viðskiptin, sem uxu í 6,8 milljarða dollara, og upplýsti ekki yfirvöld um grunsamleg viðskipti fyrr en eftir að Madoff var handtekinn árið 2008.

Tvisvar, á árunum 1998 og 2007, hafnaði eignarstýring bankans því að fjárfesta í sjóðum á vegum Madoffs og sagði einn stjórnandinn að arðsemin væri mögulega of góð til að geta staðist og var bent á að Madoff vildi ekki hitta starfsmenn bankans til að ræða fjárfestingarstefnuna. Þessum grun var ekki beint til deildar bankans sem vinnur gegn peningaþvætti, segir í fréttinni.

Í október 2008 skrifaði sérfræðingur hjá bankanum í London í tölvupósti til samstarfsmanna að það vekti furðu hve litla endurskoðunarskrifstofu Madoff nýtti, og að það væri ýmislegt hjá honum sem „gæti valdið okkur taugatitringi“. Seinna í sama mánuði voru yfirvöld í Bretlandi upplýst um áhyggjur JPMorgan en bandarísk yfirvöld voru það ekki.

150 ára dómur
» Bernard Madoff, sem er 75 ára, var dæmdur til að sitja 150 ár í fangelsi fyrir að hafa svikið um 20 milljarða dollara af fjárfestum.