[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
9. janúar 1979 Íslendingar leggja Dani að velli, 18:15, í fyrsta leiknum á alþjóðlegu handknattleiksmóti í Randers í Danmörku. Páll Björgvinsson skorar mest fyrir íslenska liðið, 4 mörk.

9. janúar 1979

Íslendingar leggja Dani að velli, 18:15, í fyrsta leiknum á alþjóðlegu handknattleiksmóti í Randers í Danmörku. Páll Björgvinsson skorar mest fyrir íslenska liðið, 4 mörk. Þetta er fyrsti sigur Íslendinga í landsleik í Danmörku og sæt hefnd fyrir sjö marka tap á sama stað á HM 1978 ári áður. Ólafur Benediktsson átti stórleik í markinu og þeir Ólafur H. Jónsson og Árni Indriðason í vörninni.

9. janúar 1994

Ísland sigrar Hvít-Rússa, 23:18, í undankeppni fyrsta Evrópumóts karla í handbolta í Laugardalshöll, eftir að hafa tapað með þremur mörkum fyrir þeim tveimur dögum áður. Sigurður Sveinsson skorar 6 mörk fyrir Ísland og Patrekur Jóhannesson 5, og Bergsveinn Bergsveinsson ver markið frábærlega. Þá gerir Valdimar Grímsson sitt 500. landsliðsmark í leiknum.

9. janúar 1995

Ísland vinnur Þýskaland, 22:21, í vináttulandsleik í handbolta karla í Laugardalshöll og hafði einnig unnið leik þjóðanna í Smáranum daginn áður. Bjarki Sigurðsson og Sigurður Sveinsson skora 6 mörk hvor fyrir íslenska liðið sem bjó sig undir HM á eigin heimavelli um vorið.