[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hörður Ægisson hordur@mbl.is Hagnaður breska ráðgjafafyrirtækisins Talbot Hughes & McKillop (THM), sem hefur verið helsti ráðgjafi stærstu kröfuhafa Glitnis og Kaupþings, nam 12,1 milljón punda, jafnvirði 2,3 milljarða króna, á fjárhagstímabilinu 1.

Hörður Ægisson

hordur@mbl.is

Hagnaður breska ráðgjafafyrirtækisins Talbot Hughes & McKillop (THM), sem hefur verið helsti ráðgjafi stærstu kröfuhafa Glitnis og Kaupþings, nam 12,1 milljón punda, jafnvirði 2,3 milljarða króna, á fjárhagstímabilinu 1. apríl 2012 til 31. mars 2013.

Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins sem var skilað til fyrirtækjaskráar Bretlands í síðasta mánuði og Morgunblaðið hefur undir höndum. Jókst hagnaður THM um 35% frá fyrra tímabili. Samtals nemur uppsafnaður hagnaður félagsins frá árslokum 2008 hátt í tíu milljörðum króna.

Auk þess að hafa veitt slitastjórnum og kröfuhöfum Glitnis og Kaupþings ráðgjöf þá hefur THM unnið að fjárhagslegum endurskipulagningum flestra af stærstu fyrirtækjum Íslands á undanförnum árum – til að mynda Straums, Eimskips, Skipta, Exista og Bakkavarar. Heimildarmenn Morgunblaðsins, sem hafa unnið náið með ráðgjöfum THM og slitastjórnum, segja ljóst að verulegur hluti af allri starfsemi THM hefur tengst ráðgjöf til handa kröfuhöfum föllnu bankanna og annarra íslenskra fyrirtækja.

Nánast allur hagnaður fyrirtækisins á síðasta fjárhagstímabili, 11,85 milljónir punda, var greiddur til eigenda í formi þóknana og arðs. Miðað við að eigendur THM voru tólf talsins á tímabilinu þá námu þóknanir og aðrar greiðslur til eigenda að meðaltali um 190 milljónum króna. Fram kemur í ársreikningnum að sá eigandi félagsins sem fékk hlutfallslega mest greitt af hagnaði síðasta árs hefði fengið jafnvirði ríflega 250 milljóna króna.

Á meðal eigenda THM eru Matt Hinds og Andrea Trozzi, sem hafa starfað náið með óformlegu kröfuhafaráði Glitnis, og Murdoch McKillop, sem hefur verið fjármálaráðgjafi fyrir óformlegt kröfuhafaráð Kaupþings. Þótt ráðgjafar THM starfi í reynd aðeins fyrir tiltekinn hóp kröfuhafa, í gegnum óformleg kröfuhafaráð bankanna, fá þeir greitt úr þrotabúunum.

Frá ársbyrjun 2013 hafa fjármálaráðgjafar THM einkum unnið með svonefndum krónuhópi erlendra kröfuhafa Glitnis og Kaupþings. Hlutverk hópsins var að vinna greiningu á greiðslujöfnuði Íslands og hvernig hægt væri að draga úr þeim neikvæðu áhrifum sem útgreiðsla ríflega 400 milljarða krónueigna búanna gæti haft fyrir greiðslujöfnuð landsins.

Rétt eins og greint var frá í úttekt viðskiptablaðs Morgunblaðsins 12. desember sl. þá herma heimildir að Matt Hinds, ráðgjafi Glitnis, sem hefur komið að stærstu fjárhagslegu endurskipulagningum íslenskra fyrirtækja frá 2008, fái greidddar 120 þúsund krónur á tímann. Aðrir ráðgjafar THM fá greiddar svipaðar fjárhæðir.