[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Kristinn Ingi Jónsson kij@mbl.

Fréttaskýring

Kristinn Ingi Jónsson

kij@mbl.is

Eftir að aðgangur íslensku bankanna að lánsfjármörkuðum takmarkaðist í ágústmánuði árið 2007 minnkuðu þeir hvorki efnahagsreikning sinn né drógu úr útlánum sínum, eins og þeir hefðu átt að gera, heldur veðjuðu þeir á „fjarlæga möguleika“ og vonuðust til að betri tímar væru framundan í íslensku efnahagslífi, að „allt myndi reddast“ að lokum. Þá komu þeir jafnframt í veg fyrir að hlutabréfin þeirra féllu í verði með því að kaupa eigin bréf af fullum krafti fyrir háar fjárhæðir.

Þetta var á meðal þess sem fram kom í erindi Friðriks Más Baldurssonar, prófessors við Háskólann í Reykjavík, á málstofu um ris og fall íslenska bankakerfisins í Seðlabanka Íslands í fyrradag. Þar kynnti hann efni nýútkominnar ritgerðar sem hann og Richard Portes, hagfræðiprófessor við London Business School, skrifuðu saman.

Lánin 85% af eiginfjárgrunni

Friðrik Már segir það vera eftirtektarvert hvað útlán bankanna jukust árið 2008, skömmu fyrir fall þeirra. Sér í lagi hafi útlánin aukist til helstu eigenda bankanna og tengdra aðila. „Lánveitingar Glitnis til aðaleiganda síns, Baugs Group, og tengdra aðila er mikilvægasta dæmið um slík útlán,“ nefnir hann í ritgerðinni. Lánin til Baugs hafi numið 40% af eiginfjárgrunni Glitnis í byrjun septembermánaðar árið 2007 – fáeinum mánuðum eftir að Baugur varð aðaleigandi bankans – og 85% af eiginfjárgrunni bankans í mars árið 2008.

Segir í ritgerðinni að í desember 2007 hafi samanlögð útlán Glitnis, Kaupþings og Landsbankans til Baugs og tengdra aðila numið yfir 5,5 milljörðum evra, jafnvirði um 870 milljarða króna á gengi dagsins í dag. Til að setja það í samhengi var eiginfjárgrunnur bankanna þriggja, sem og verg landsframleiðsla Íslands, um 14 milljarðar evra á sama ári. Kerfislæga áhættan tengd Baugi var því orðin gríðarleg.

Friðrik Már segir að fall bandaríska fjárfestingarbankans Bear Stearns í mars árið 2008 hefði átt að hringja viðvörunarbjöllum. Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn hefðu átt að bregðast snarlega við og kanna stöðu íslensku bankanna, sér í lagi eftir að íslenskum stjórnvöldum barst bréf frá Mervyn King, bankastjóra Englandsbanka, í apríl á sama ári, þar sem hann bauðst til að aðstoða stjórnvöld við að draga úr stærð bankakerfisins.

Friðrik Már segir þó að það hafi kannski ekki verið raunhæfur valkostur á þeim tíma. Allir greinendur, sérstaklega innan Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans, hefðu talið að bankarnir væru greiðslufærir og þá hefðu álagspróf, sem lögð voru fyrir bankana reglulega á árinu, sýnt fram á það sama. Ef bankarnir hefðu farið að selja eignir á þessum tíma hefðu fjárfestar litið á það sem brunaútsölur.

„Það hefði verið afar erfitt fyrir stjórnvöld að neyða bankana í slíkar sölur með beinum hætti,“ segir Friðrik Már. Nærtækara hefði verið að setja reglur sem takmörkuðu þennan öra útlánavöxt bankanna.

Skýrslan árið 2007
» Í nóvember árið 2007 gaf Friðrik Már ásamt Richard Portes út skýrslu um stöðu íslenska fjármálakerfisins á þeim tíma.
» Þar segir meðal annars að vöxtur bankanna hafi verið afar tilkomumikill og að staða þeirra sé sterkari eftir lausafjárþurrð á mörkuðum 2006.
» „Við áttum að vera gagnrýnari,“ sagði Friðrik Már á fundinum í fyrradag.