Hulda Steingrímsdóttir
Hulda Steingrímsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sænsk fyrirtæki upplifa strangari kröfur í Kína um samfélagsábyrgð. Þetta er meðal niðurstaðna í könnun sem sænska sendiráðið í Kína framkvæmdi sl. haust, í samstarfi við sænska viðskiptaráðið og Business Sweden.

Sænsk fyrirtæki upplifa strangari kröfur í Kína um samfélagsábyrgð. Þetta er meðal niðurstaðna í könnun sem sænska sendiráðið í Kína framkvæmdi sl. haust, í samstarfi við sænska viðskiptaráðið og Business Sweden.

Athygli vakti það mat fyrirtækjanna á kínverska fyrirtækjaumhverfinu að umhverfismál virtust brenna meira á þeim en sígild viðfangsefni svo sem tollar og viðskiptareglur.

Umhverfismálin hafa ekki bara áhrif á sænsk fyrirtæki því kínverska ríkið gerir kröfu um að kínverskar ríkisstofnanir skuli skila sjálfbærniskýrslum. Það er mat fyrirtækjanna í könnuninni, að stórstígar breytingar á viðhorfi og kröfum í Kína hafi orðið á skömmum tíma. Nú eru gerðar kröfur til starfsaðstæðna og virðiskeðjunnar, s.s. kröfur til birgja, segir Jakob Kiefer hjá sænska utanríkisráðuneytinu í Kína sem stóð að könnuninni. „Mun auðveldara er að ræða vandamál sem upp koma vegna samfélagsábyrgðar og núna vinnum við með kínverskum stjórnvöldum.“

Í textíliðnaðinum hafa t.d. átt sér stað stórstígar breytingar á viðhorfi. Auknar kröfur frá kínversku ríkisstjórninni koma sænskum fyrirtækjum ekki illa, því þau eru undirbúin. Mörg þeirra hafa unnið um nokkurt skeið að samfélagsábyrgð.

En hvernig skyldu íslensk fyrirtæki vera undirbúin? Nú eru nokkur íslensk fyrirtæki farin að vinna að samfélagsábyrgð en flest þeirra starfa innanlands, sé miðað við fyrirtækjalista Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð. Kröfur um samfélagsábyrgð koma auðvitað víðar að, einkum frá Evrópu og Bandaríkjunum. Markviss vinnubrögð og heildarsýn eru mikilvæg við uppbyggingu á samfélagsábyrgð til að tryggja sem best raunverulegan árangur.

Höfundur er sérfræðingur um samfélagsábyrgð fyrirtækja.

www.stjornvisi.is