Mesut Özil
Mesut Özil
Mesut Özil, leikmaður Arsenal og þýska landsliðsins í knattspyrnu, var í gær útnefndur besti landsliðsmaður Þýskalands fyrir árið 2013 og er þetta þriðja árið sem í röð sem hann hlýtur þessa viðurkenningu.

Mesut Özil, leikmaður Arsenal og þýska landsliðsins í knattspyrnu, var í gær útnefndur besti landsliðsmaður Þýskalands fyrir árið 2013 og er þetta þriðja árið sem í röð sem hann hlýtur þessa viðurkenningu. Það er þýska knattspyrnusambandið sem stendur fyrir kjörinu og fær almenningur að taka þátt í kosningunni.

Özil, sem er 25 ára gamall og gekk í raðir Arsenal frá Real Madrid fyrir tímabilið, fékk meira en 30% fleiri atkvæði en næstu menn, sem voru þeir Phillip Lahm og Thomas Müller, en báðir leika þeir með Þýskalands- og Evrópumeisturum Bayern München. Özil hefur spilað 52 landsleiki og í þeim skorað fjögur mörk.

„Þessi viðurkenning gerir mig ánægðan og stoltan,“ sagði Özil á heimasíðu þýska knattspyrnusambandsins en miðjumaðurinn snjalli lék stórt hlutverk með þýska landsliðinu sem er til alls líklegt á heimsmeistaramótinu í Brasilíu í sumar.

Arsenal pungaði út 43 milljónum punda í sumar fyrir Þjóðverjann en sú upphæð jafngildir rúmum 8,2 milljörðum íslenskra króna. Özil hefur átt góðu gengi að fagna og með hann í fararbroddi er Lundúnaliðið í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar, komið í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar og í 4. umferð ensku bikarkeppninnar. Özil hefur verið mjög drjúgur fyrir Arsenal. Hann hefur skorað fjögur mörk í 15 leikjum í úrvalsdeildinni og lagt upp fjölmörg mörk fyrir samherja sína.

gummih@mbl.is