[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Michel Gondry. Handrit: Michel Gondry og Luc Bossi. Aðalhlutverk: Audrey Tautou, Romain Duris, Gad Elmaleh og Omar Sy. Frakkland og Belgía, 2013. 90 mín.

Franska leikstjórann Michel Gondry ættu flestir að þekkja en hann hefur verið margverðlaunaður fyrir verk á borð við Eternal Sunshine of the Spotless Mind , The Science of Sleep og Human Nature . Auk þess hefur hann leikstýrt fjölda tónlistarmyndbanda og meðal annars unnið náið með Björk. Í nýjustu kvikmynd sinni, Mood Indigo , varpar hann ansi súrrealísku ljósi, eins og honum einum er lagið, á ástir Chloés (Audrey Tautou) og Colins (Romain Duris). Sagan, sem gerist í París, segir frá því er parið góða þarf að takast á við illkynja blóm sem tekur sér bólfestu í lunga Chloés.

Leikmyndin segir söguna

Það er kannski engin furða að reynsluboltarnir Tautou og Duris stígi ekki feilspor í kvikmyndinni en leikur þeirra er einkar sannfærandi. Þau fá einnig góðan stuðning frá aukaleikurunum Gad Elmaleh og Omar Sy sem gerði einmitt garðinn frægan í kvikmyndinni The Intouchables . Þess má geta að áhorfið verður eflaust ánægjulegra ef áhorfandinn kann eitthvað fyrir sér í frönsku en stöku orðagrín sem þýðist illa ætti þó ekki að eyðileggja neitt fyrir neinum.

Leikmynd sú sem Gondry nær að skapa segir ákveðna sögu sjálf og ljóst að andi þýska expressjónismans svífur yfir vötnum. Tilfinningar þær sem í leikmyndinni búa eru í raun svo magnaðar að sagan kæmist hálfpartinn jafn vel til skila þó allar samræður væru klipptar út. Er sagan verður átakanlegri verða litirnir daufari og umhverfið hrárra og að lokum er myndin orðin svarthvít og þrúgandi. Tónlistin leikur einnig stórt hlutverk og styður leikmyndina vel. Að sama skapi er ekki hægt að kvarta yfir því hversu mikla athygli meistari Duke Ellington fær í myndinni.

Brellur draga úr angurværð

Það sem má hvað helst setja út á myndina er hversu mikið brellur Gondrys, sem eru frábærar út af fyrir sig, skyggja á annars átakanlegan en fallegan söguþráðinn. Handrit kvikmyndarinnar er byggt á bókinni Froth on the Daydream sem Frakkinn Boris Vian skrifaði árið 1947. Gondry hefur greinilega tekið sér það bessaleyfi að krukka í framvindu sögunnar með uppátækjum sínum. Tæknibrellurnar eru því í senn það skemmtilega við myndina og það sem dregur úr áhrifamætti hennar. Blómið sem vex í iðrum konunnar á greinilega að vera táknmynd krabbameins eða einhverskonar illkynja æxlis en áhorfandinn á í erfiðleikum með að meðtaka baráttuna sökum útúrsnúninga leikstjórans. Það mætti vera meira jafnvægi á framvindu og brellum myndarinnar eins og Gondry hefur sannað að hann er fær um að gera, meðal annars í kvikmyndinni Eternal Sunshine of the Spotless Mind .

Það er hinsvegar jákvætt að láta áhorfandann hafa svolítið fyrir því að átta sig á því hvað sé að gerast í kvikmyndinni. Það er einnig ljóst að hvort sem áhorfandinn áttar sig á framvindu sögunnar eður ei þá getur hann ekki annað en heillast af frumleika leikstjórans. Ef viðkomandi getur síðan meðtekið aðeins brot þeirrar þjáningar sem sagan tjáir í raun þá ætti enginn að verða vonsvikinn.

Davíð Már Stefánsson

Höf.: Davíð Már Stefánsson