Á Landsbókasafni Íslands Hrafn Malmquist flettir fjórða bindi Britannicu sem gefin var út 1910.
Á Landsbókasafni Íslands Hrafn Malmquist flettir fjórða bindi Britannicu sem gefin var út 1910. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Hinn íslenski hluti Wikipediu var stofnaður fyrir rúmum tíu árum og eru tæplega 37.000 greinar í honum.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Hinn íslenski hluti Wikipediu var stofnaður fyrir rúmum tíu árum og eru tæplega 37.000 greinar í honum. Eftir rólega byrjun var vöxturinn nokkuð samfelldur en dregið hefur úr virkni notenda frá hausti 2008 og því hefur hópur virkra Wikipediu-notenda ákveðið að blása til sóknar með vikulegum, opnum námskeiðum.

Hrafn H. Malmquist, umsjónarmaður rafhlöðunnar.is og doktorsritgerðaskrár Landsbókasafns Íslands, hefur verið virkur notandi á hinum íslenska hluta Wikipediu síðan 2006. Hann útskrifaðist nýlega með meistarapróf í bókasafns- og upplýsingafræði og fjallaði lokaritgerðin um þennan hluta Wikipediu. „Wikipedia er, eins og flestir vita, opið samfélag sem allir geta tekið þátt í. Þetta er ekki sérfræðingaveldi heldur eru öll framlög metin að verðleikum,“ segir hann.

Auka nýliðun

Wikipedia er ein fjölsóttasta vefsíða í heimi. Enski hlutinn var stofnaður 2001 og í kjölfarið voru Wikipediur á öðrum tungumálum stofnaðar, eins og til dæmis á spænsku, frönsku, þýsku, sænsku og japönsku.

„Þetta breiddist mjög hratt út á netinu,“ rifjar Hrafn upp. Hann bendir á að bróðurpartur þekkingar sé almenn skynsemi, sem allir geti tekið þátt í að koma orðum að og setja inn á Wikipediu. Þekkingu þurfi þó ávallt að styðja með traustum heimildum. „Um leið er hlúð að íslenskri menningu, íslenskri tungu, af því að á meðan ungt fólk, sem leitar upplýsinga á netinu, finnur þær ekki á íslensku heldur á öðru tungumáli verður það til þess að grafa undan íslenskri tungu og menningu,“ segir hann um mikilvægi íslenska hlutans.

Hrafn segir ekki gott að segja hvers vegna dregið hafi úr virkni hérlendis undanfarin ár. Notendur, sem framkvæmi yfir 100 breytingar á mánuði, séu taldir mjög virkir og fámennur hópur afkasti langmestu en um 20 til 25 manns séu reglulega virkir í íslenska hlutanum í hverjum mánuði.

„Íslendingar eru vel menntaðir og tæknivæddir og hafa sjálfsagt lítið fyrir því að byrja að taka þátt í Wikipediu,“ segir hann. „Ég hef mikla trú á Wikipediu og námskeiðin eru mín leið til að auka nýliðun.“

Opin námskeið fyrir alla

Í tilefni af 10 ára afmæli hins íslenska hluta Wikipediu var haldið málþing um frjálsa alfræðiritið fyrir um mánuði. Hrafn Malmquist ákvað að fylgja því eftir og hefur boðað vikuleg Wikipediukvöld fyrir áhugafólk um framgang íslensku Wikipediunnar og frjálsrar þekkingar kl. 20.00 til 22.00 á fimmtudögum og verður það þriðja í kvöld. Vinum Wikipediu er stefnt í tölvuverið á 3. hæð í Þjóðarbókhlöðunni þar sem Hrafn Malmquist og aðrir vanir notendur Wikipediu leiðbeina þátttakendum um það hvernig hægt er að vinna við Wikipediu. Hrafn áréttar að öllum sé frjálst að sækja námskeiðin og framlögin geti verið af margvíslegum toga, svo sem styttri eða lengri skrif, leiðréttingar og bætt málfar, innsetningar á myndum og fleira.