Ríkidæmi Leonardo DiCaprio fer með hlutverk Belforts í myndinni og gerir það listilega vel. Að sögn Belforts hafa þeir eytt dágóðum tíma saman.
Ríkidæmi Leonardo DiCaprio fer með hlutverk Belforts í myndinni og gerir það listilega vel. Að sögn Belforts hafa þeir eytt dágóðum tíma saman. — Wolf of Wall Street
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í einni af vinsælustu kvikmyndum á Íslandi í dag, Wolf of Wall Street , fáum við að kynnast æviminningum verðbréfamiðlarans umdeilda Jordans Belforts.

Í einni af vinsælustu kvikmyndum á Íslandi í dag, Wolf of Wall Street , fáum við að kynnast æviminningum verðbréfamiðlarans umdeilda Jordans Belforts. Belfort, sem fékk fljótlega viðurnefnið „úlfurinn á Wall Street“, lét mikið að sér kveða á hlutabréfamarkaði á níunda og tíunda áratug síðustu aldar og byggði upp sannkallað fjármálaveldi á undraskömmum tíma.

Líf hans er lyginni líkast. Hann hóf feril sinn hjá verðbréfafyrirtækinu L.F. Rotschild en var rekinn skömmu eftir „svarta mánudaginn“ svonefnda, þegar hlutabréf um allan heim hríðféllu í verði, en það var einmitt hans fyrsti dagur eftir að hann fékk leyfi til að stunda verðbréfaviðskipti.

Því næst stofnaði hann sitt eigið fyrirtæki og réð til sín heldur skrautlega sölumenn af götunni. Fyrst um sinn áttu þeir í viðskiptum með bréf í litlum og óskráðum fyrirtækjum en ekki leið á löngu þar til þeir fóru að herja á vellauðuga viðskiptavini. Var nafni fyrirtækisins breytt í Stratton Oakmont til að bæta ímynd þess og varð Belfort mjög fljótlega milljarðamæringur.

Það er ekki nóg með þennan ótrúlega uppgang Belforts heldur fá áhorfendur að kynnast óhóflegri eiturlyfjaneyslu hans, sem og samstarfsmanna hans, vændiskaupum og í raun almennu saurlífi.

Allt byggt á sandi

Það kom enda á daginn að veldi Belforts var að miklu leyti á sandi byggt. Belfort stundaði markaðsmisnotkun, ólögleg viðskipti með hlutabréf og peningaþvætti, svo eitthvað sé nefnt, og komst alríkislögreglan að lokum á snoðir um allt þetta. Eftir margra ára rannsókn tókst lögreglunni loks að handtaka Belfort sem átti yfir höfði sér allt að tuttugu ára fangelsi. Spilaborgin hans hafði loks hrunið.

En með því að vera samvinnuþýður við lögregluna og taka samstarfsmenn sína hjá Stratton Oaks með sér í fallinu fékk hann mun mildari dóm, eða þriggja og hálfs árs fangelsi, og var honum gert að greiða bandaríska ríkinu helming af framtíðartekjum sínum í sekt.

Saksóknari hefur hins vegar nýlega bent á að Belfort hafi aðeins greitt um tíunda hluta þess sem hann átti að greiða. Í lok októbermánaðar krafðist saksóknari þess að Belfort yrði tekinn til gjaldþrotaskipta – og sagði að hann hefði aðeins greitt 11,6 milljónir af 110 milljóna dala sekt sinni – en nýverið dró hann kröfuna til baka og freistar þess nú að ná samkomulagi við Belfort.

Fyrrverandi verðbréfamiðlarinn þvertekur hins vegar fyrir það að skulda ríkinu svo háar fjárhæðir. „Það er mjög skrítið að vera sakaður um eitthvað sem ég myndi aldrei, í milljón ár, gera,“ sagði hann við fjölmiðla. Segist hann vera breyttur maður og tekur konan hans, Anne Koppe, undir það. „Jordan er ekki lengur glæpamaður,“ sagði hún við fréttastofu AP . „Hann er fyrirmyndarskattgreiðandi og mjög vinnusamur maður.“

Wolf of Wall Street er byggð á æviminningum Belforts sem hann skrifaði sjálfur og má því ætla að rétt sé farið með helstu staðreyndir, þó svo að erfitt sé að trúa öðru en að frásagnir hans af eiturlyfjaneyslu og svallveislum séu eitthvað ýktar.

Í dag starfar Belfort sem ráðgjafi og fyrirlesari en hann ferðast um allan heim og reynir að blása mönnum kjark í brjóst með löngum sölu- og hvatningarræðum, eins og hann var frægur fyrir á Wall Street. Þá er hann, að eigin sögn, ekki lengur háður eiturlyfjum og hættur að heimsækja vændiskonur. „Nú fæ ég loks tækifæri til að lifa lífinu á jákvæðan hátt.“