Sjúkraþjálfun Um 100 milljón krónur eiga að sparast með nýrri reglugerð.
Sjúkraþjálfun Um 100 milljón krónur eiga að sparast með nýrri reglugerð. — Morgunblaðið/Heiddi
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Gert er ráð fyrir að með nýrri reglugerð um sjúkraþjálfun, er sett var í desember síðastliðnum, muni útgjöld ríkisins til sjúkraþjálfunar lækka um 100 milljón krónur í samræmi við aðhaldsmarkmið fjárlaga ársins 2014.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Gert er ráð fyrir að með nýrri reglugerð um sjúkraþjálfun, er sett var í desember síðastliðnum, muni útgjöld ríkisins til sjúkraþjálfunar lækka um 100 milljón krónur í samræmi við aðhaldsmarkmið fjárlaga ársins 2014. Í Morgunblaðinu í gær kom fram að forsvarsmenn Félags sjúkraþjálfara væru ósáttir við reglugerðina, sem gerir það að forsendu fyrir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í sjúkraþjálfun að fyrir liggi skrifleg beiðni frá lækni. Töldu þeir hana torvelda aðgang fólks að heilbrigðisþjónustu.

Í svari velferðarráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins kemur fram að í lögum um sjúkraþjálfun nr. 58/1976 sem féllu úr gildi 1. janúar 2013 hafi verið ákvæði um að sjúkraþjálfari mætti ekki taka sjúkling til meðferðar án samráðs við lækni. Þetta hafi breyst með gildistöku nýrra laga um heilbrigðisstarfsmenn í upphafi síðasta árs og var þá sjúklingum heimilt að leita beint til sjúkraþjálfara án beiðni frá lækni. Segir í svarinu að ráðuneytið telji nauðsynlegt að stýra flæði sjúklinga til sjúkraþjálfara og setja þannig faglegar skorður við því hvenær unnt sé að efna til útgjalda vegna sjúkraþjálfunar með greiðsluþátttöku hins opinbera. Leiti sjúklingur beint til sjúkraþjálfara án tilvísunar læknis ber hann kostnaðinn sjálfur. „Að mati ráðuneytisins á þetta ekki að torvelda fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu þar sem greiðsluþátttaka er tryggð ef fyrir liggur læknisfræðilegt mat á þörf fyrir sjúkraþjálfun,“ segir í svarinu.